145. löggjafarþing — 122. fundur,  31. maí 2016.

uppfylling stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar.

[13:55]
Horfa

forsætisráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Þær dyggðir sem birtast best í samfélaginu er skilningur manna á kjörum annarra, samkennd gagnvart því sem menn þurfa að takast á við, þ.e. að geta sett sig í spor annarra, og vilji stjórnvalda til þess að taka á þeim málum hjá þeim sem minna mega sín og þurfa á frekari hjálp að halda (Gripið fram í.) Og hvernig hefur það gengið? Í Félagsvísum velferðarráðuneytisins, sem nýlega komu fram, ætli það hafi ekki verið í mars eða apríl, kom fram að þróun allra þátta samfélagsins, jafnrétti milli ólíkra hópa; milli kynja, milli aldurshópa, og ýmsir aðrir þættir er vega og meta líðan fólks, er með besta móti. Þessir þættir hafa þróast mjög í rétta átt og eru kannski einn besti mælikvarðinn á að við erum á réttri vegferð. Erum við komin að endamörkum? Nei, það er alltaf hægt að gera betur. Það er áskorun á stjórnmálamenn að gera betur í dag en í gær.