145. löggjafarþing — 122. fundur,  31. maí 2016.

aðgerðir stjórnvalda gegn skattsvikum o.fl.

787. mál
[14:11]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um aðgerðir stjórnvalda gegn skattsvikum o.fl. Frumvarpið inniheldur ýmsar breytingar á lögum til að sporna við skattsvikum vegna eignarhalds í lágskattaríkjum en gert er ráð fyrir því að sérstakur starfshópur á vegum fjármála- og efnahagsráðuneytisins muni gera frekari tillögur að breytingum á lögum, reglugerðum og verklagsreglum sem saman munu mynda aðgerðaáætlun íslenskra stjórnvalda gegn skattundanskotum og nýtingu skattaskjóla almennt. Má þar nefna BEPS-verkefnið svokallaða, reglur um þunna eiginfjármögnun sem hafa verið til skoðunar og verða áfram, og takmörkun á frádrætti vegna arðs frá félögum í lágskattaríki svo eitthvað sé nefnt.

Það má segja almennt um þessi atriði að við höfum metið sem svo að þau þyrftu frekari yfirlegu og sum þeirra hafa verið lengi í meðferð í stjórnkerfinu. Þau atriði sem ég hef sérstaklega tilgreint, ásamt með því að íslensk stjórnvöld eru að fylgjast með þróun á alþjóðlegum vettvangi um þessi efni, verða til skoðunar í starfshópnum.

Hér ætla ég að gera grein fyrir þeim breytingartillögum sem er að finna í frumvarpinu. Í fyrsta lagi er takmörkun á tapsfrádrætti félaga í lágskattaríki. Fyrst ber sem sagt að nefna að í frumvarpinu er lagt til að skorður verði settar við nýtingu rekstrartapa félaga í lágskattaríkjum. Með því er allur vafi tekinn af um að óheimilt er að nýta eftirstöðvar rekstrartapa nema félag hafi stundað raunverulega atvinnustarfsemi og skattaðili geti lagt fram fullnægjandi gögn er liggi til grundvallar tapi og yfirfærslu þess.

Í öðru lagi er takmörkun á starfsemi félaga í lágskattaríkjum. Lagt er til í frumvarpinu að samruni, skipting, yfirfærsla einstaklingsrekstrar yfir landamæri í einkahlutafélag og flutningur lögheimilis eða eigna til félaga í lágskattaríki verði einungis heimilt þar sem skattlagning á tekjur, að teknu tilliti til frádráttarliða, er sambærileg og hér á landi. Heimildin tekur þar með ekki til almennt skilgreindra aflandsfélaga.

Þá er lagt til að heimild til frestunar á greiðslu eftirstöðva skulda vegna útgönguskatts verði felld niður séu eignir, réttindi og skuldbindingar færðar til lágskattaríkja. Þá er enn fremur lagt til að auk þess sem heimildin takmarkist við það þegar skattlagning á tekjur, að teknu tilliti til frádráttarliða, sé með sambærilegum hætti og hér á landi þurfi eftir sem áður að uppfylla það skilyrði að sýnt sé fram á að um raunverulega atvinnustarfsemi sé að ræða í félaginu sem staðsett er í lágskattaríkinu, enda hefur flutningur á fjármagni til lágskattaríkja átt sér stað í gegnum þessi ríki og því rík ástæða til að setja lagalegar hindranir sem takmarka slíkt gegnumstreymi.

Þá er komið að þriðja atriðinu sem er endurskoðun á CFC-ákvæðinu í átt til frekari skýringar. Í frumvarpinu er að finna tillögu að endurskoðun á CFC-ákvæðinu sem fjallar um skattlagningu aðila sem eiga beina eða óbeina eignaraðild að félögum, sjóðum eða stofnunum sem eru heimilisföst í lágskattaríkjum. Allt er þetta til frekari skýringar. Ákvæðið var á sínum tíma samið að norskri fyrirmynd og þrátt fyrir að hugtakið hagnaður komi fyrir í norska lagatextanum sem stuðst var við hefur við eftirgrennslan komið í ljós að horft hefur verið fram hjá beinni orðskýringu og litið svo á að hugtakið takmarkaði ekki að litið væri á félagið sem gegnumstreymisfélag á tekjum og eignum til skattlagningar hjá eigendum þess. Skattlagning á tekjum við þessar aðstæður ræðst þannig af hlutdeild í tekjum og heimilum frádráttarliðum eignaraðila, þ.e. hinum eiginlega skattaðila. Eigendur félagsins njóta þannig eftir atvikum þeirra frádráttarliða sem eru heimilir allt eftir eðli teknanna.

Til að gera ákvæðið enn skýrara er því lagt til að hugtakið tekjur komi í stað hugtaksins hagnaður. Við þessar aðstæður yrðu tekjur skattlagðar hjá eigendum sem tekjur af atvinnurekstri óháð tegund teknanna, þ.e. hvort um er að ræða t.d. arð eða vexti. Ákvæðinu er ætlað að taka til skattlagningar tekna félaga, sjóða og stofnana og úthlutun í formi arðs á þannig ekki við í öllum tilfellum. Í stað þess að „úthlutað sé hagnaði“ er lagt til orðalagið „úthlutað tekjum“. Umorðun á ákvæðum og innra samræmi í hugtakanotkun ætti að koma í veg fyrir misskilning með tilheyrandi ágreiningi sem af slíku getur hlotist.

Í fjórða lagi er mælt fyrir breytingum sem varða upplýsingaskyldu fjármálastofnana og lögmanna. Í frumvarpinu er lagt til að auk þess sem fjármálafyrirtækjum, endurskoðendum, lögmönnum og öðrum aðilum sem veita alþjóðlega skattaráðgjöf og þjónustu vegna erlendra samskipta sé skylt að láta skattyfirvöldum í té skrá yfir þá viðskiptavini sína sem þiggja slíka ráðgjöf og þjónustu. Þá skuli þeir einnig láta þeim í té allar upplýsingar um starfsemi og eignir sem þeim má vera kunnugt um.

Þá er auk þess lagt til að við verði bætt ákvæði þar sem kveðið er á um að í þeim tilvikum þegar um er að ræða félag, sjóð eða stofnun sem telst heimilisföst í lágskattaríki skuli ráðgjafar- og þjónustuaðilar óumbeðnir láta skattyfirvöldum í té umrædda skrá ásamt öllum upplýsingum um starfsemi og eignir sem þeim má vera kunnugt um.

Um þetta atriði vil ég segja örfá orð sérstaklega. Hér er gengið mjög langt í því að krefjast frumkvæðis ráðgjafa þegar kemur að því að veita upplýsingar um mál sem snerta ráðgjöf vegna lágskattaríkja. Það er enginn vafi á því að hér er skautað ansi nærri trúnaðarskyldu lögmanna og annarra ráðgjafa. Hér er skautað ansi nærri rétti manna til að leita sér ráðgjafar yfir höfuð án þess að um það þurfi að tilkynna til opinberra eftirlitsaðila. Ég vænti þess að nefndin sem fjallar um málið taki sér góðan tíma í að skoða þau sjónarmið sem þarf að hafa til hliðsjónar við setningu reglna sem þessara. Ég hef heyrt því fleygt í umræðu um þessi mál almennt að réttast væri að gera það hreinlega refsivert að veita ráðgjöf til stofnunar félaga í lágskattaríkjum. Það tel ég óráðlegt að gera. Slík hugmynd tengist að sjálfsögðu hugmyndinni um að banna alfarið stofnun slíkra félaga eða notkun þeirra með einhverjum hætti. Mín skoðun er sú að það sé ekki farsæl leið til að ná árangri, hvorki fyrir Ísland né á alþjóðavísu, heldur sé miklum mun líklegra til árangurs í þessum efnum að starfa með öðrum þjóðum að því að komast nær rót vandans sem er leyndin, skattsvikin og undanskotin, peningaþvættið og hin ólöglega starfsemi sem hefur þrifist í skjóli leyndarinnar.

Til að ná meiri árangri, í stað þess að fara bannleiðina og refsileiðina, er gengið út frá því að byggja á grundvelli þeirra lagaákvæða sem við höfum þegar fest í lög, og er að finna t.d. í þeim lögum sem hér er verið að breyta — þá er ég t.d. að vísa til CFC-ákvæðisins — og byggja á þeim ákvæðum frekar og grípa til allra þeirra ráða sem við getum nýtt okkur til viðbótar við upplýsingaskiptasamninga til að tryggja yfirvöldum og eftirlitsaðilum fullnægjandi upplýsingar um starfsemi þessara félaga. Hvers vegna bara þessara félaga? Jú, vegna þess að við vitum að það getur reynst torvelt, þrátt fyrir upplýsingaskiptasamninga, fyrir eftirlitsaðilann, skattinn, að sækja upplýsingarnar. Það er hin sérstaka réttlæting fyrir því að leggja þær byrðar á þá sem koma til ráðgjafar vegna þessara mála að tilkynna um þá ráðgjöf og þau atriði sem nefnd eru í frumvarpinu óumbeðið. Það er vissulega mikil kvöð en ég tel að réttlætingin sé til staðar vegna þess að fyrir liggur að erfitt hefur reynst, ekki bara fyrir okkur Íslendinga, heldur á alþjóðavísu, að sækja upplýsingarnar. Það hefur reynst erfitt.

Næsta atriði í frumvarpinu varðar heimild til endurákvörðunar. Í núgildandi lögum er hún til síðastliðinna sex ára. Hér er mælst til þess að við breytum lagaákvæðinu þannig að vegna tekna og eigna í lágskattaríkjum sem ekki hefur verið gerð fullnægjandi grein fyrir sé heimild til endurákvörðunar lengd úr sex árum í tíu ár. Hér er ávallt talið frá því ári sem endurákvörðun fer fram. Það hefur sýnt sig að liðið geta mjög mörg ár, jafnvel áratugir, þar til uppgötvast um eignir sem komið var undan skattlagningu, svo sem í gegnum lágskattaríki. Að baki slíku undanskoti liggja aðstæður sem ekki eru sambærilegar þeim aðstæðum sem almennir skattaðilar standa frammi fyrir, svo sem vegna skatteftirlits. Það þykir því ekki óeðlilegt að skattyfirvöldum sé veittur rýmri tími til að rekja mál sem þessi auk þess sem möguleikinn til að endurákvarða skatt eykst.

Mér finnst það vera grundvallaratriði að við erum ekki að lengja endurákvörðunarréttinn almennt heldur beinum við sjónum okkar að þeim vanda sem fylgir oft og tíðum leyndinni í lágskattaríkjum. Það er hin sérstaka réttlæting. Ég ætla að vísa til þess sama varðandi næsta ákvæði frumvarpsins sem snertir fyrningartímann, því að jafnhliða því að lagt er til að heimild til endurákvörðunar skatts verði lengd úr sex árum í tíu ár er lagt til að fyrningartími sakar verði lengdur úr sex árum í tíu. Það eru alveg sömu rökin, þessi tvö ákvæði hanga saman. Samkvæmt gildandi lögum fyrnast meiri háttar brot á tíu árum, en með þessari breytingu fyrnist sök vegna allra brota á skattalögum er varða tekjur í lágskattaríkjum á tíu árum, ekki bara meiri háttar brotin.

Aukið aðgengi að upplýsingum um eignastöðu gjaldenda er næsta atriði. Segja má að það sé með óbeinum hætti tengt umræðunni um lágskattaríki og þörf stjórnvalda fyrir auknar heimildir. Lagt er til að aukið verði við aðgengi innheimtumanna ríkissjóðs að upplýsingum um eignastöðu gjaldenda. Það er hlutverk innheimtumanna ríkissjóðs að tryggja að álagðir skattar skili sér til ríkissjóðs og sveitarfélaga. Í þeim tilvikum þegar skattar eru ekki greiddir ber innheimtumanni að beita viðeigandi innheimtuaðgerðum vegna vanskila. Til þess að aðgerðirnar verði sem árangursríkastar þurfa innheimtumenn að hafa nægilegar upplýsingar um eignir skattskuldara, þar með talið eignir erlendis. Innheimtumenn ríkissjóðs hafa aðeins aðgang að fasteigna, skipa- og ökutækjaskrá hérlendis og má segja að það séu einu upplýsingarnar sem innheimtumenn hafa um eignir skattskuldara.

Þegar kemur að fullnustu eigna erlendis sem eru í eigu íslenskra skattskuldara eru til staðar alþjóðlegir samningar um stjórnsýslulega aðstoð við innheimtu skatta. Þar sem innheimtumenn ríkissjóðs hafa ekki upplýsingar um eignir íslenskra gjaldenda erlendis er ekki hægt að beita samningum við innheimtu vangoldinna skatta þar sem tilvísun til fullnustueigna skortir. Af því leiðir að skattskuldarar geta átt eignir erlendis sem hægt væri að fullnusta með aðstoð erlendra yfirvalda ef til staðar væri nægilegur aðgangur að upplýsingum um eignirnar, til að mynda í gegnum skattframtöl.

Ég vil láta þess getið að í framkvæmd hefur verið tryggt visst flæði upplýsinga í þessum tilgangi. Hér er lagt til að þetta verði skýrt lögfest og í ákvæðinu er lagt til að innheimtumönnum ríkissjóðs verði fengnar með lögum auknar heimildir til að sannreyna eignastöðu gjaldenda við vanskilainnheimtu og tryggja þannig rétta skattframkvæmd til hagsbóta fyrir ríkissjóð og samfélagið allt. Lagt er til að ríkisskattstjóra verði gert að veita löglærðum fulltrúum innheimtuaðila aðgang að skattframtölum gjaldenda enda hafi verið tekin ákvörðun um að krefjast aðfarar vegna vanskila gjaldenda á opinberum gjöldum.

Mig langar til að segja frá því að það kom til skoðunar að til staðar væri opin gátt til að kynna sér eignastöðu gjaldenda almennt en ég er þeirrar skoðunar að við eigum að hafa slíkt aðgengi almennt séð eins takmarkað og hægt er af ýmsum ástæðum, sérstaklega þegar um er að ræða flæði upplýsinga milli stofnana. Ég tel engu að síður mjög mikilvægt að þessi heimild sé lögfest. Hér er gengið frá því í sérstöku lagaákvæði að þegar um vanskil er að ræða, þegar innheimtumenn eru í vafa um það hvort til fullnustu skattskuldar séu mögulega eignir, er alveg skýrt með þessari breytingu að heimild er fyrir innheimtuaðila að kanna uppgefnar eignir samkvæmt skattframtali. Skilyrði þessa aðgangs er að sannreyna þurfi eignastöðu viðkomandi eins og ég segi og að tekin hafi verið ákvörðun um aðför. Það er ekki gert ráð fyrir að aðfararbeiðnin hafi verið send til sýslumanns og því síður þarf beiðnin að hafa verið tekin fyrir. Þessi tillaga hefur beina skírskotun til rannsókna á skattalagabrotum þar sem aflandsfélög koma við sögu en upplýsingar um erlendar eignir manna er að jafnaði einungis að finna á skattframtölum þeirra eins og ég hef verið að rekja.

Það eru fleiri ákvæði í frumvarpinu sem ástæða þótti til að láta fylgja þeim sérstöku ákvæðum sem horfa til aflandsfélaganna. Þar er einkum um að ræða eflingu áhættustjórnunar og aukna greiningarvinnu sem við viljum færa í lög. Lagt er til í frumvarpinu að tollstjóra verði falið að sinna áhættugreiningu á sviði innheimtu opinberra gjalda. Við erum hér að tala um feikilega mikið hagsmunamál fyrir samfélagið allt og áhættugreining er einn af grundvöllum þess að skilvirkni verði ávallt til staðar við innheimtu opinberra gjalda. Í þessu felst heimild til að flokka skuldara við innheimtu á grundvelli aðferðafræði um áhættustjórnun. Að öðru leyti ætti ákvæðið og skýringar með því að skýra sig sjálft.

Ríkisendurskoðun hefur í skýrslu sinni frá mars 2011 bent á nauðsyn þess að sett verði á stofn greiningardeild á vettvangi innheimtu opinberra gjalda. Síðan eru liðin fimm ár. Áhættuþættirnir sem full þörf er á að greina og þar sem stýra þarf innheimtu með tilliti til viðeigandi innheimtuaðgerða eru t.d. kennitöluflakk, þ.e. þegar um er að ræða félög með stjórnarmenn og prókúruhafa sem eru með sögu um óeðlilega mörg gjaldþrot að baki, félög með stjórnarmenn og prókúruhafa sem hefur verið gert að greiða skattsekt, undanskot tekna við endurákvarðanir skattyfirvalda og atvinnugreinar með óeðlilega hátt hlutfall afskrifta. Þetta eru nokkur dæmi en tímabært þykir að færa ákvæði um þetta sérstaklega inn í lögin.

Heimildir tollyfirvalda til vinnslu og miðlunar persónuupplýsinga er að lokum að finna í frumvarpinu í sérstöku ákvæði. Tollgæslan er staðsett á landamærum og hefur eftirlit með vöruinnflutningi og gegnir því veigamiklu hlutverki þegar kemur að vernd samfélagsins. Markviss og árangursrík tollgæsla byggist á öflugri áhættustjórnun og hún er því höfð í fyrirrúmi í öllum þáttum starfseminnar til að minnka hættuna á ólöglegum innflutningi og undanskoti gjalda. Með þeirri lagabreytingu sem lögð er til í frumvarpinu er verið að tryggja og undirbyggja núverandi framkvæmd tollstjóra við meðferð upplýsinga og skýra betur þær heimildir sem embættið hefur til vinnslu viðkvæmra persónuupplýsinga í því skyni að auka gagnsæi, gæta enn frekar að öryggi borgaranna og tryggja öryggi upplýsinga.

Virðulegur forseti. Megintilgangur breytinganna sem felast í þessu frumvarpi er sá að draga félög íslenskra skattaðila í lágskattaríkjum heim og því ættu áhrif þeirra til lengri tíma litið að vera jákvæð fyrir afkomu ríkissjóðs. Til dæmis má gera ráð fyrir að með lengri heimildum til endurákvörðunar og lengri fyrningartíma sakar, vegna tekna og eigna skattaðila í lágskattaríkjum, ásamt ríkari upplýsingaskyldu, aukist tekjur ríkissjóðs. Engar upplýsingar liggja hins vegar fyrir um hugsanlegar fjárhæðir hvað það varðar. Til skemmri tíma er sömuleiðis mjög erfitt að áætla áhrif tillagnanna á afkomu ríkissjóðs.

Í þessu sambandi vil ég geta þess að unnið er að því á vegum sérstaks starfshóps sem ég hef skipað að leggja mat á umfang fjármagnstilfærslna og eignaumsýslu á aflandssvæðum, þ.e. í ríkjum sem skilgreind eru sem lágskattasvæði og takmarka miðlun upplýsinga um eignir og tekjur milli landa. Þetta er gert til þess að við höfum betri upplýsingar í höndunum um hvert það umfang er sem um ræðir og þá hvert mögulegt tekjutap hins opinbera af slíkum umsvifum er. Ég bind vonir við að starfshópurinn ljúki vinnu sinni fyrir lok sumars og mun ég þá í framhaldinu kynna niðurstöðurnar í þinginu.

Við þekkjum öll að fleygt hefur verið ýmsum tölum inn í umræðuna um það hversu miklu samfélag okkar hafi orðið af vegna skattsvika, ólöglegra undanskota. Það skiptir máli fyrir yfirvegaða umræðu að við gerum allt sem í okkar valdi stendur til að ná utan um umfangið og byggja undir málefnalega umræðu um það sem kann að hafa gerst í þessum efnum. Ég vil þó segja að það eru vísbendingar um að þrátt fyrir að umfang þessara mála hafi verið töluvert á sínum tíma séu allt aðrir tímar runnir upp nú. Þess vegna er engin ástæða til að ætla að umfang þeirra sé í dag í líkingu við það sem áður var. Það breytir ekki þeirri staðreynd að það skiptir máli fyrir umræðuna að við gerum okkur grein fyrir því hvernig það atriði hefur þróast sérstaklega yfir tímann. Ég hef ávallt viljað gera greinarmun á því sem með ólögmætum hætti hefur þannig verið svikið undan skattálagningu á Íslandi, dregið undan, og því sem hefur verið uppi á borðum. Það sem hefur verið uppi á borðum hefur fallið undir nýlegar lagabreytingar og mun áfram verða undir þeim lagabreytingum sem er að finna í frumvarpinu, verði það að lögum, en með þeim samanlagt hefur mjög verulega verið dregið úr ávinningi þess að nýta sér félög í lágskattaríkjum í skattalegum tilgangi. Reyndar má færa fyrir því rök að lagaumhverfið hafi smám saman verið að sigla í þá átt að ekki hafi bara verið dregið úr ávinningi heldur sé hann minni en enginn, það sé í raun og veru frekar til tjóns, með því breytta regluverki sem við höfum verið að þróa, en að félagi sé komið fyrir í einhverju öðru ríki, segjum t.d. innan Evrópska efnahagssvæðisins. Það er skýrt að þeir sem mundu hafa stofnað félag innan Evrópska efnahagssvæðisins sem greiddi í því landi sína skatta og skyldur hafa í sjálfu sér aldrei verið að taka neitt frá íslensku samfélagi. Þeir hafa greitt skatta viðkomandi félags á því svæði eða í því landi sem við á hverju sinni. Eins og lögum hefur verið breytt hér á landi varðandi lágskattaríkin skiptir í sjálfu sér ekki máli þó að staðið hafi verið skil á sköttum og gjöldum í viðkomandi lágskattaríki vegna þess að við höfum notast við tilteknar viðmiðunarreglur og ef skattarnir eru undir þeim viðmiðunarreglum fellur sömuleiðis til skattskylda á Íslandi. Það er eingöngu í lágskattaríkjum sem við höfum beitt þeirri reglu.

Virðulegur forseti. Verkefnið sem við blasir gagnvart skattaskjólum er, eins og ég hef hér aðeins komið inn á, ekki bara séríslenskt verkefni heldur í aðra röndina alþjóðlegt verkefni. Það verður seint á færi einnar þjóðar að finna lausn á öllum þeim áskorunum sem við blasa. Það þarf áfram að efla samvinnu og samstöðu á alþjóðavettvangi og þar mun Ísland taka áfram virkan þátt.

Atburðir undanfarinna vikna og áframhaldandi umræða um skattaskjól hafa kallað á afdráttarlaus viðbrögð af hálfu íslenskra stjórnvalda og við munum áfram vinna að þessum málum af fullum krafti. Frumvarpið sem ég legg nú fyrir Alþingi er einn liður í því verkefni. Ég vænti þess að ágæt samstaða geti myndast um þau efnisatriði sem er að finna í málinu. Þetta eru um margt sambærileg efnisatriði og þingnefnd hefur nýlega tjáð sig um í framhaldi af því að hafa óskað eftir umsögnum stofnana ríkisins um efnið. Ég heyri ekki annað en að um flest þessara atriða sé ágætissamhljómur. Það er út af fyrir sig fagnaðarefni. Ég sé í sjálfu sér ekki allan mun á því hvort við ljúkum máli eins og þessu í þessum mánuði eða síðar á árinu, í ágúst. Ég held að best færi á því að við mundum vanda til verka eins og hægt er, fá umsagnir og gefa þingnefndinni gott svigrúm til að fara yfir öll efnisatriði þannig að ég legg ekki á það áherslu að málinu verði flýtt svo í gegnum þingið að nefndin fái ekki hæfilegan tíma og umsagnaraðilar. Ég geri mér hins vegar grein fyrir því að það geta verið uppi sjónarmið um einhver atriði sem hefði mátt ræða, til viðbótar við þau sem er að finna í málinu, en þá vil ég aftur vekja athygli á því að það er ýmislegt fleira sem verður áfram til skoðunar í sérstökum starfshópi þar sem okkar helstu sérfræðingar úr stofnanakerfinu sitja saman yfir þessum málum.

Ég ítreka það sem ég hef áður sagt varðandi ákvæðið sem lýtur að ráðgjöfum og hvernig við erum þar aðeins að skauta á mörkum þess mögulega gagnvart trúnaðarskyldu ráðgjafa. Ég tel þó að málið sé réttum megin við strikið, ef svo mætti að orði komast, og þá vísa ég sérstaklega í þá réttlætingu sem byggir á því að reynslan sýnir hversu erfitt getur reynst fyrir stjórnvöld að fá þær upplýsingar sem þörf krefur til að leggja skatta á í samræmi við lög. Þetta atriði verður að koma til sérstakrar skoðunar og við skulum ekkert fara í grafgötur með það, það kann að leiða til þess að menn hætti að leita til íslenskra ráðgjafa, menn leiti einfaldlega til ráðgjafa í öðrum löndum sem væru lausir undan lagaákvæðinu, við skulum gera okkur grein fyrir því. En þetta er a.m.k. viðleitni til að gera allt sem í okkar valdi stendur til að tryggja að þær upplýsingar sem við vitum að eru til staðar verði sóttar. Í því sambandi vitum við líka að skattyfirvöld hafa við rannsókn þeirra mála sem eru á þeirra borði nú þegar m.a. sótt upplýsingar inn í fjármálakerfið. Það eru svo sem víða ýmsar heimildir.

Ég legg til að frumvarpinu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar og til 2. umr. að lokinni þessari umræðu.