145. löggjafarþing — 122. fundur,  31. maí 2016.

aðgerðir stjórnvalda gegn skattsvikum o.fl.

787. mál
[14:52]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg stórkostleg lífsreynsla að sitja hér í salnum og fylgjast með endurfæðingu hæstv. fjármálaráðherra. Ég sá ekki betur en að hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni vöknaði um augu undir þessari ræðu enda hefði Indriði sjálfur getað samið hana, svo góð var hún. Mér datt helst í hug biblíuleg skírskotun þegar Páll frá Tarsus var á leiðinni til Damaskus og lostinn eldingu og skildi allt nýjum skilningi upp frá því, en kallað sig líka Sál. Ég velti því fyrir mér hvaða nafn hæstv. fjármálaráðherra ætlar að taka sér eftir þessa endurfæðingu. En ég segi eins og aðrir: Þetta er stórkostlega fín ræða. Við erum búin að bíða í 15 ár eftir því að formaður Sjálfstæðisflokksins flytji slíka ræðu. Ég óska honum til hamingju með það. En það þurfti nánast byltingu til þess að hann gerði það.

Ein spurning að lokum. Ég efast ekkert um það þegar hæstv. ráðherra segir að hann vilji gera allt sem hann geti til að uppræta misnotkun aflandsreikninga. Af hverju ekki að stíga skrefið til fulls og banna einfaldlega Íslendingum að eiga reikninga í löndum (Forseti hringir.) þar sem okkar eigin stofnanir segja að þær geti ekki sannreynt upplýsingarnar? Hví ekki?