145. löggjafarþing — 122. fundur,  31. maí 2016.

aðgerðir stjórnvalda gegn skattsvikum o.fl.

787. mál
[15:45]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um aðgerðir stjórnvalda gegn skattsvikum. Í því frumvarpi sem við fjöllum um hér eru lagðar til ýmsar breytingar á skattalögum til að sporna gegn skattsvikum vegna eignarhalds í lágskattaríkjum. Ég fagna því að hæstv. ríkisstjórn bíður ekki boðanna og bregst við. Það var, held ég megi fullyrða, meðvituð vitneskja um ástandið og þörfina á að uppræta það en allt magnaðist það upp við upplýsingaleka Panama-skjalanna þar sem misskipting og óréttlæti birtist. Kannski má segja að þar hafi afhjúpast óyggjandi það sem þó var vitað og hafði að einhverju marki verið barist gegn fram að því, bæði á alþjóðavettvangi og hér á Íslandi. Íslensk stjórnvöld hafa tekið þátt í alþjóðlegu samstarfi í að upplýsa og uppræta slíka starfsemi, en alveg örugglega ekki af nægjanlegum þunga hingað til. Umfangið og viðfangsefnið hefur sannarlega tekið á sig aðra mynd við þann veruleika sem birtist í upplýsingunum sem Panama-skjölin afhjúpa. Hægt er að fullyrða að viðbrögðin hafa verið sterk, ekki bara úti í samfélaginu, ekki bara hér á Íslandi, heldur á hinum alþjóðlega vettvangi.

Við sjáum það líka í frumvarpinu að stjórnvöld, hæstv. ríkisstjórn, eru að bregðast við af festu. Það eru margar ágætar tillögur í frumvarpinu og ekki hægt að segja annað en að það styðji við þá stefnu og þær aðgerðir sem hafa birst okkur í viðbrögðum hæstv. ríkisstjórnar á undanförnum vikum. Þegar ég tala um viðbrögð stjórnvalda og þings þá má rifja upp að hv. efnahags- og viðskiptanefnd fjallaði um þetta málefni og byrjaði á því að boða á sinn fund þá aðila sem koma að þessum málum. Embætti ríkisskattstjóra og skattrannsóknarstjóra og aðilar frá Fjármálaeftirliti og Seðlabanka komu á fund hv. efnahags- og viðskiptanefndar; þeir fundir voru opnir fjölmiðlum og voru mjög gagnlegir. Í kjölfarið bárust hv. nefnd minnisblöð frá embættum skattrannsóknarstjóra, ríkisskattstjóra, Samtökum atvinnulífsins og Samtökum fjármálafyrirtækja. Meginmarkmið hv. nefndar var að safna saman upplýsingunum um rekstur slíkra félaga í skattaskjólum í þeim tilgangi að draga fram þær lagabreytingar sem fara þyrfti í til að sporna við starfsemi félaga í skattaskjólum; lögsögum þar sem hægt er að starfa og stunda rekstur félaga til að komast hjá því að greiða skatta til samfélagsins eða greiða lægri skatta en ella.

Í þessari umræðu kom fram að það er fyrst og fremst leyndin sem einkennir tilvist þessara félaga og þennan rekstur. Eins og nafnið vísar til er erfitt og nánast ómögulegt að afla upplýsinga um raunverulegt eignarhald og fá upplýsingar um reksturinn, tekjur, gjöld og afkomu. Heimalandið fer þannig á mis við skatttekjur og það grefur undan þeirri uppbyggingu á þjónustukerfum og velferð sem við þurfum á að halda. Þrátt fyrir allt er það ekki svo að ekkert hafi verið að gert og vitneskjan um hið samfélagslegt óhagræði og óréttlæti hefur alltaf verið til staðar. Þess vegna fagna ég frumvarpi þar sem raunverulega er verið að taka á þessu samfélagslega óréttlæti í íslenskri löggjöf. Hv. þingmenn Össur Skarphéðinsson og Steingrímur J. Sigfússon hafa kannski hvað lengst verið að kljást við þessi mál, það mátti heyra á ræðum þeirra. Upp í hugann koma orð ríkisskattstjóra á fundi hv. efnahags- og viðskiptanefndar þegar hann sagði að hann væri eins og hrópandinn í eyðimörkinni. Þannig upplifir maður að umræðan um þessi mál hafi verið. Vitneskjan til staðar, meðvitund um að taka þurfi á málum en ekki nægjanlegur þungi í því hingað til.

Hin byltingarkennda viðhorfsbreyting sem verður við upplýsingaleka Panama-skjalanna er mjög jákvæð, ef maður horfir þannig á málið. Maður skynjar vel, í þeirri umræðu sem hér á sér stað og í því frumvarpi sem liggur fyrir, og við erum að ræða, að hér geti átt sér stað, ekki bara hér á Íslandi heldur alþjóðlega, viðhorfsbreyting, gildislæg hugarfarsbreyting, á þessu sviði. Það er vel og þess vegna vildi ég blanda mér í þessa umræðu, frú forseti. Ég nefndi það hér að ýmislegt hefur verið gert þrátt fyrir allt. Ef árangur á að nást í því að uppræta þessa starfsemi þá er alþjóðleg samvinna augljóslega mikilvæg til að auka gagnsæi. Hér hefur verið farið í alþjóðlegt samstarf. Til að mynda hafa verið gerðir upplýsingaskiptasamningar á vettvangi OECD eða Efnahags- og framfarastofnunar, samningar sem Ísland hefur verið aðili að. En það hefur gengið hægt og meðal annars lýst sér í því að þó nokkur ríki hafa ekki enn uppfyllt skilyrði og kröfur þessara samninga. Í það minnsta hefur þetta gengið mjög hægt.

Vakning hefur verið á Norðurlöndunum og frá 2006 hefur Ísland tekið þátt í samræmdum aðgerðum á þeim vettvangi. Það er augljóst við þessar aðstæður að auka verður þungann í því alþjóðlega samstarfi. Það er að gerast, bæði á vettvangi OECD og á vettvangi Evrópusambandsins. Þar hefur til að mynda verið skipaður sérstakur vettvangur til að auka gagnsæi og upplýsingasamskipti og finna má vísbendingar um þessar áherslur á hinum alþjóðlega vettvangi. Það er hins vegar ekkert síður mikilvægt, eins og verið er að leggja til með þessu frumvarpi, að skerpa línurnar í löggjöf hér innan lands. Það er til þess fallið að uppræta þessa starfsemi og koma í veg fyrir að menn stofni almennt til slíkra félaga í þeim tilgangi að koma sér undan því að greiða skatta og skyldur til samfélagsins. Það er kjarni málsins í þessu.

Ekki má gleyma því að Alþingi veitti fjárframlag til kaupa á skattagögnum erlendis frá. Þau gögn eru til úrvinnslu hjá embættum skattrannsóknarstjóra og ríkisskattstjóraembættinu. Þau gögn geta jafnframt gefið vísbendingar um umfangið og hjálpað til við að varpa ljósi á eðli vandans til að koma lögum yfir þá aðila sem hugsanlega hafa farið á svig við lög. Vinna hv. efnahags- og viðskiptanefndar skilaði sér í skýrslu og samantekt á viðfangsefninu og ekki síst samandregnum tillögum að breytingu sem meðal annars var að finna í ábendingum sem bárust í áðurgreindum minnisblöðum. Margar af þessum tillögum rata í þetta frumvarp og það verður hv. efnahags- og viðskiptanefndar að fara ítarlega yfir þær.

Þess utan má benda á ágætistillögur sem komu hér fyrir þingið, önnur frá Vinstri – grænum; það var nokkuð ítarleg tillaga og miðaði að því meðal annars að leitast við að meta umfangið og áhrif á íslenskan efnahag og bæta löggjöfina til að sporna við og koma lögum yfir slíka starfsemi. Segja má að flest í þeirri tillögu hafi komið fram í viðbrögðum hæstv. ríkisstjórnar, meðal annars með skipan starfshóps. Þá var hér önnur tillaga frá Samfylkingu sem miðaði að því að beita þau ríki sem skapa slík skjól, lágskattaríki, alþjóðlegum viðskiptaþvingunum. Það er vel hugsanlegt, þar sem alþjóðleg samstaða skapast um slíkar aðgerðir, að taka þátt í sameiginlegu átaki hvað það varðar. En eins og tónninn var í umræðunni um þá tillögu held ég að það mundi almennt gerast með slík úrræði. Þá er mikilvægt samhliða aðgerðum að ná utan um umfang vandans og geta greint hann. Hæstv. ríkisstjórn hefur, eins og ég sagði, stofnað starfshóp sem hefur það verkefni með höndum.

Umræðan hefur verið virkilega góð og mikil samstaða er um að fara í aðgerðir í þessum málum og halda áfram að vinna að þeim af fullum krafti. Eins og kom fram í máli hæstv. ráðherra, þá eru það þessi atriði mörg hver sem ég hef ekki kannski gaumgæft verulega en hæstv. ráðherra fór ágætlega yfir í framsögu sinni. Ekki er ástæða til að ætla annað en að full samstaða verði um það í hv. efnahags- og viðskiptanefnd að fara vel yfir þær tillögur þannig að þær nái fram að ganga og að full samstaða verði um slíkar breytingar. Varðandi þann þátt sem kom fram í máli hv. þm. Vinstri – grænna, meðal annars hv. þm. Katrínar Jakobsdóttur og hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar, sem snýr að þunnri eiginfjármögnun, þá hefur það mál verið til þó nokkurrar umræðu í hv. efnahags- og viðskiptanefnd og tengist þessu máli og alþjóðlegu starfi fyrirtækja á milli landa. Ég er ekki í vafa um að nefndin mun taka það mál til umfjöllunar að einhverju marki í tengslum við þetta mál. Mér finnst það alveg við hæfi. En það væri, ég tek undir það með hv. þingmönnum, fróðlegt að heyra skoðun hæstv. ráðherra á því hvernig nefndin hefur aðkomu að því máli.

Að svo mæltu fagna ég þessu frumvarpi og þeirri samstöðu sem birtist í ræðum þeirra sem hafa talað og tjáð sig um málið í dag.