145. löggjafarþing — 122. fundur,  31. maí 2016.

aðgerðir stjórnvalda gegn skattsvikum o.fl.

787. mál
[16:46]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það sem ég var aðallega að kvarta undan við hv. þm. Frosta Sigurjónsson er að hann þrumi í sæti sínu og í staðinn fyrir að halda hér flæðandi, mælska yfirgripsmikla ræðu sem upplýsir m.a. mig og aðra um leiðir. Hv. þingmaður er einn af sérfræðingum okkar í þessum efnum. Hann segist sitja í sæti sínu og taka niður ábendingar. Ég sit í mínu og bíð eftir að fá ábendingar hjá honum og þær koma ekki.

Að því er varðar síðan þá hugmynd sem mér er hugleiknust í þessu máli er það einfaldlega þannig að skattrannsóknarstjóri upplýsti það á fundi með þingflokkum stjórnarandstöðunnar að reginmunur væri á upplýsingagjöf t.d. frá Bresku Jómfrúreyjum og svokölluðum skattsniðgönguríkjum innan EES-svæðisins. Hún sagði að það væri hreinlega ómögulegt að sannreyna tilteknar upplýsingar sem bærust frá yfirvöldum í t.d. Bresku Jómfrúreyjum vegna þess að þar færu yfirvöld þá leið að þau settu einfaldlega engar reglur. Þar væru engar reglur og engin lög sem skylduðu yfirvöld þar eða aðra sem þar hafa fjárhagslega heimilisfesti til að senda frá sér nokkrar upplýsingar. Málinu væri öðruvísi farið í þeim löndum sem hv. þingmaður nefndi.

Síðan er rétt að rifja upp fyrir hv. þingmanni, sem hann þekkir miklu betur en ég, að það hefur síðustu 10, 12 árin verið gríðarmikil pressa á þau ríki sem hann nefndi og sum þeirra hafa svarað henni. Það er allt annað að fá upplýsingar í dag frá Liechtenstein og Sviss, ég skal ekki segja Lúxemborg, en var fyrir 10–12 árum. Þannig að þau eru þó að þróast í rétta átt. Af hverju? Vegna þess að karlar eins og hv. þm. Frosti Sigurjónsson eru reiðubúnir til þess að þústa þau ef með þarf. Því eigum við að halda áfram. Ákvörðun af því tagi sem ég er að tala um er fordæmi og líklegt (Forseti hringir.) til að gefa okkur viðspyrnu til þess að krefjast þess að önnur ríki á EES-svæðinu fari sömu leið.