145. löggjafarþing — 122. fundur,  31. maí 2016.

aðgerðir stjórnvalda gegn skattsvikum o.fl.

787. mál
[16:53]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F):

Virðulegi forseti. Ég kem upp en ekki til þess að gera samanburðarrannsókn á skýrslu efnahags- og viðskiptanefndar og frumvarpi hæstv. ráðherra. Ég held að það sé ekki tímabært.

Í skýrslu nefndarinnar voru tínd til 19 atriði og ábendingar sem nefndinni bárust. Vissulega er það rétt að þeim eru ekki öllum gerð skil í þessu frumvarpi. Hins vegar eru nokkur til viðbótar, sýnist mér, sem ganga lengra og eru nýjar hugmyndir sem byggja ekki á þeim ábendingum sem okkur hefur borist og maður fagnar því.

Það eru 11 efnisatriði sem koma fram í þessu frumvarpi og mér sýnist þau öll miða í rétta átt. Ég fagna þeim öllum og ég held að þau séu öll til þess fallin að ná þeim árangri sem að er stefnt, að gera það óaðgengilegra og erfiðara að nýta sér þessa leynd og leiðir til að komast hjá því að greiða skatta þar sem verðmætin verða raunverulega til.

Þetta er alþjóðlegur vandi og ég er sammála þeim sem hafa sagt að Ísland þarf að vera mjög framarlega og í fararbroddi í öllu alþjóðlegu samstarfi. Það er með sameiginlegu átaki sem sigurinn mun vinnast að lokum. Þar eru margir sem hafa beinlínis hag af því að taka ekki þátt og munu þess vegna vera tregir til samstarfs og það getur tekið mörg ár að knýja þann síðasta til þess að ganga í raðirnar.

Á meðan höfum við þann valkost að sýna gott fordæmi, að Ísland leiði með góðu fordæmi. Mér sýnist að margt af því sem hér er verið að innleiða sé þess eðlis að það mun ekki hrífa eitt og sér en það sýnir gott fordæmi. Ég held að það séu mörg önnur atriði af sama toga sem við getum gert. Á þeim er tæpt í skýrslu efnahags- og viðskiptanefndar.

Ég tel ekki tímabært að skera úr um hvort sá starfshópur sem nú er að störfum sé búinn að hafna nokkrum af þeim ábendingum sem þar kemur fram. Ég held að vel geti verið að þar sé verið að útfæra þau atriði og kannski eru þau flóknari og meira mál en það sem við höfum fyrir framan okkur.

Ráðherra boðar að jafnvel verði búið að leggja fram frumvarp strax í upphafi þegar þing kemur aftur saman eftir leyfi, að þá munum við aftur sjá frumvarp sem tekur á fleiri þáttum.

Ég held að þetta sé viðvarandi barátta. Ég held að það sé ekki endanleg lausn á þessu. Það getur verið að algjört bann við að eiga í svona félögum yrði áhrifaríkt og mundi fæla marga frá því að fara þá leið. Það mundi kannski ekki fæla þá allra hörðustu, þeir mundu leita einhverra leiða til að fara fram hjá því og komast hjá því að greiða skatta og taka þátt í að byggja upp það velferðarsamfélag sem við þingmenn erum allir sammála um að þurfi að vera fyrir hendi.

Ég ætla ekki að lengja umræðuna mjög mikið. Ég ætla að segja sem er að í nefndinni munum við fá kynningu á þessu við fyrsta tækifæri, væntanlega á næsta fundi eða þar næsta. Við munum fá til okkar ráðuneytið til að fara „grundigt“ ofan í þetta. Við munum þá fá tækifæri til að ræða við þau um hvernig annarri vinnu miðar og slíkt og í framhaldinu getur maður aðeins farið að mynda sér skoðun á því hversu áhrifaríkar þessar aðgerðir eru, hvað sé mikilvægast og hvað sé annað á leiðinni.

Ég ætla ekki að hafa þetta lengra hér í bili. Ég fagna því að þetta frumvarp sé komið fram. Nefndin muni að sjálfsögðu vinna hratt og vel í þessu máli eins og öðrum.