145. löggjafarþing — 122. fundur,  31. maí 2016.

aðgerðir stjórnvalda gegn skattsvikum o.fl.

787. mál
[16:57]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka virðulegum forseta fyrir að vekja athygli á frammistöðu þessa ágæta kjördæmis í umræðu sem er mjög mikilvæg. Mig langar að þakka hv. þm. Frosta Sigurjónssyni fyrir að gefa okkur færi á að eiga við hann orðastað (Gripið fram í.) um þetta mál og þakka hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni almennt fyrir tilvist hans hér, sem er yfirleitt til góða. (Gripið fram í: Bara fyrir að vera til.) Já, einmitt.

Mig langar að spyrja hv. þm. Frosta Sigurjónsson. Ég hef nefnt í ræðu og andsvari við hæstv. ráðherra þá staðreynd að efnahags- og viðskiptanefnd afgreiddi frumvarp sem ég ásamt fleiri hv. þingmönnum lagði fram þingveturinn 2013–2014 um svokallaða þunna eiginfjármögnun. Þá lagði nefndin til að því máli yrði vísað til ríkisstjórnarinnar sem var samþykkt á Alþingi og var málinu vísað til ríkisstjórnarinnar vorið 2014.

Þar endurspeglaðist þverpólitísk samstaða um að mikilvægt væri að taka á því sem hefur verið kallað skattsniðganga alþjóðlegra fyrirtækja og hefur verið fjallað um í fjölmiðlum síðan. Í skýrslu hv. efnahags- og viðskiptanefndar, sem hefur aðeins borist í tal, er þetta nefnt sem eitt af atriðunum sem þurfi að taka tillit til.

Nú hefur orðið ansi löng bið eftir því að ríkisstjórnin eða hæstv. ráðherrann hafi fylgt þeim tilmælum sem þingið setti honum vorið 2014. Ég ákvað því að fara í þá vinnu að endurskoða frumvarpið út frá umsögnunum sem bárust hv. efnahags- og viðskiptanefnd á sínum tíma. Það hefur nú verið lagt fram aftur í endurskoðaðri mynd.

Ég vil spyrja hv. formann efnahags- og viðskiptanefndar, eins og ég spurði raunar hv. þm. Willum Þór Þórsson fyrr í umræðum í dag, hvort ekki komi til greina ef ekki gefst færi á að mæla fyrir frumvarpinu, sem ég hefði helst kosið að gera, að hv. efnahags- og viðskiptanefnd taki það til skoðunar og flytji málið sjálf þannig að ekki þurfi að bíða lengur.

Ég tek undir með félaga mínum hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni að það hefur skapast svigrúm og tími og vilji til að ræða þessi stóru og mikilvægu mál og (Forseti hringir.) við eigum að sjálfsögðu að nýta þann tíma til þess að gera ráðstafanir til framtíðar, til hagsbóta fyrir almannahag í þessu landi.

Er það eitthvað sem hv. þingmaður er reiðubúinn að skoða?