145. löggjafarþing — 122. fundur,  31. maí 2016.

lögreglulög.

658. mál
[22:01]
Horfa

Frsm. allsh.- og menntmn. (Unnur Brá Konráðsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir þessu nefndaráliti en með þessu máli er verið að koma á fót þriggja manna sjálfstæðri stjórnsýslunefnd sem á að hafa eftirlit með störfum lögreglu. Tillagan á rætur sínar í nefnd sem ráðherra setti á fót og skilaði af sér tillögum.

Almennt voru umsagnaraðilar um þetta mál mjög jákvæðir og það er mat nefndarinnar að um sé að ræða þarfa réttarbót sem auki réttaröryggi borgaranna enda er mikilvægt að til staðar séu skýrar reglur um rétt almennings til að bera fram kvartanir eða kæru vegna starfa lögreglu og skýrir og gagnsæir ferlar.

Við leggjum til nokkrar breytingar, í fyrsta lagi að 1. gr. frumvarpsins falli brott. Síðan eru tvær breytingartillögur er varða skýringar á ákvæðum. Í máli gesta kom fram að betur mætti skilgreina við hvaða störf er átt sem þarna eru undir.

Undir álitið skrifar sú sem hér stendur, hv. þingmenn Vilhjálmur Árnason og Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins en rita engu að síður undir það samkvæmt heimild í þingsköpum. Þá skrifa undir hv. þingmenn Guðmundur Steingrímsson, Líneik Anna Sævarsdóttir, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Haraldur Einarsson, Jóhanna María Sigmundsdóttir, og Helgi Hrafn Gunnarsson með fyrirvara er lýtur að því að þingmaðurinn taldi hægt að ganga lengra en hér er gert.