145. löggjafarþing — 123. fundur,  1. júní 2016.

almennar félagsíbúðir.

435. mál
[18:05]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf):

Virðulegi forseti. Ég ætlaði nú ekki að taka þátt í umræðunni vegna þess að ég talaði við 2. umr., en þetta er mál sem hefur fengið aldeilis mikla vinnslu í þinginu. Fyrir mig sem nefndarmann í velferðarnefnd hefur það verið gríðarlegur skóli — eins og fram kom í máli hv. þm. Elsu Láru Arnardóttur voru haldnir 28 fundir og vinnan er búin að vera alveg gríðarleg, fyrir utan það sem hafði gerst áður en málið kom til nefndar. Þetta er frumvarp sem hefur fengið ofboðslega góða vinnslu og er hér vel að verki staðið.

Það er svolítið fyndið að það skuli vera nafnið á frumvarpinu sem er helsta þrætueplið þegar upp er staðið, en fyrir mér skiptir ekki alveg öllu máli hvað það heitir. Ég held að það sé lykilatriði að markmið frumvarpsins náist. Ég er afskaplega ánægður með að hafa fengið að taka þátt í því og geta sagt það í ellinni að ég hafi verið hluti af því að búa til kerfi sem virkar. Það er ósk mín, eins og örugglega allra annarra, að það virki, þó að ég hafi sagt hér við 2. umr. að ég vonaði að það húsnæðiskerfi sem verið er að setja upp lifi krónuna, því að hingað til hefur krónan eyðilagt og drepið öll húsnæðiskerfi í landinu. En það er nú önnur saga. Ég tel að það sé alveg ástæða til þess að gleðjast. Hv. þingmenn sem talað hafa á undan mér hafa farið í gegnum þetta allt saman, hvernig málið hefur þróast. Ég get tekið undir með öllum sem hafa talað hérna um að þetta er búin að vera mikil og góð vinna og sýnir hvað hægt er að gera og hverju er hægt að áorka þegar menn leggja sig virkilega fram um að vinna saman. Það hefur velferðarnefnd gert í þessu máli eins og í öllum öðrum málum.

Ég held að það yrði nú pólitískt afrek ef hægt væri að afgreiða öll húsnæðismálin og frumvörpin frá velferðarnefnd á einu áliti. Ég held að það yrðu mjög merk tímamót í sögu stjórnmála á Íslandi. Þetta eru stór mál og hafa verið helstu mál hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra. Ég óska henni innilega til hamingju með að þetta sé að nást. Hæstv. ráðherra á allt gott skilið og þessi mál hafa verið hennar hjartans mál. Hún hefur ábyggilega þurft að mæta mörgum hindrunum á leiðinni og þó að ég viti það ekki þá læðist að mér sá grunur að þetta hafi ekki verið létt verk.

En ég er afskaplega ánægður með að frumvarpið skuli vera komið á endapunkt og vona svo sannarlega að við náum að klára önnur mál. Við erum að klára þetta mál. Það væri afskaplega ánægjulegt fyrir okkur að ná að lenda þessu öllu og sýnir kannski almenningi í landinu að við getum alveg unnið saman. Það finnst mér rosalega gott. Ég get talað fyrir hönd allra í þessari nefnd og það hefur komið fram hjá hv. þingmönnum að menn leituðu lausna. Auðvitað voru oft ágreiningsefni en alltaf komumst við að niðurstöðu. Það er lykilatriði að allir séu sem sáttastir við þetta. Ég held að það sé það sem er staðan í dag. Og varðandi blessað nafnið þá held ég að það muni ekki skipta lykilmáli í framtíðinni.

En ég óska hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra til hamingju og okkur öllum.