145. löggjafarþing — 123. fundur,  1. júní 2016.

skattar og gjöld.

667. mál
[21:44]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég dreg ekki í efa það markmið, ég styð það auðvitað heils hugar að bæta hag millitekjuhópa. En spurning mín laut einmitt að því og ég ítreka hana við hv. þingmann að hvaða leyti það gagnist einmitt millitekjuhópum, eða bara fjölskyldum, heimilum sem eru með sömu heimilistekjur og næsta heimili, að þeir þurfi að bera allt að 700 þús. kr. hærri skattbyrði á ári vegna þess að þeim er ekki heimilt að nýta ófyllt skattþrep annars aðilans. Ég tek heils hugar undir með öllum þeim stjórnmálamönnum sem vilja gera það að sínu markmiði að einfalda skattkerfið. Það er mjög brýnt. Tekin hafa verið ákveðin skref í því á þessu kjörtímabili sem mun taka að endingu gildi næstu áramót. Eftir stendur hins vegar að við erum enn þá með að mínu mati óskynsamlegt skattkerfi sem vinstri stjórnin sem hv. þingmaður átti sæti í kom á sem er fjölþrepa tekjuskattskerfi. Það verður enn þá við lýði. Meðan það er þá þarf að sníða af slíku kerfi agnúa sem í þessu tilviki lenda einmitt á lágtekjuheimilum, heimilum með jafnvel eina fyrirvinnu eða næstum því eina fyrirvinnu, segjum eina og hálfa fyrirvinnu, fólki með árstekjur, heimilistekjur sem nema rúmum 8 millj. kr. Eitt heimili getur lent í því að bera mörg hundruð þús. kr. skattbyrði umfram annað heimili sem hefur nákvæmlega sömu heimilistekjur. Ég spyr hv. þingmann: (Forseti hringir.) Hvar sér hún réttlæti í því og hvar sér hún þessa miklu gróðavon hjá (Forseti hringir.) hátekjueinstaklingum með þessari (Forseti hringir.) samsköttunarreglu, ef við höldum okkur við það orð sem er reyndar ekki lýsandi fyrir það fyrirbrigði sem hér er verið að ræða?