145. löggjafarþing — 124. fundur,  2. júní 2016.

skattar og gjöld.

667. mál
[11:49]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Það er athyglisvert að sjá hæstv. fjármálaráðherra ekki standa með eigin frumvarpi. Í fyrradag sagði hæstv. forsætisráðherra, í svari við fyrirspurn minni um þetta í þessum sal, að þessi tillaga færi ekki óbreytt í gegn. Tveim dögum síðar virðist hún vera að fara í gegn. Það er áfellisdómur yfir ríkisstjórnarmeirihlutanum. Það er mikið áhyggjuefni að menn komi fram með tillögur sem eru ekki fjármagnaðar og standast ekki forsendur ríkisfjármálaáætlunar. Menn hljóta að velta vöngum yfir því, en ekki síst sýnir þetta að stjórnarmeirihlutinn heldur áfram að vinna sér inn fyrir sæmdarheitinu ríkisstjórn ríka fólksins. Það er augljóst af þessari atkvæðagreiðslu.