145. löggjafarþing — 124. fundur,  2. júní 2016.

grunnskólar.

675. mál
[11:58]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Hér greiðum við atkvæði um frumvarp sem felur í sér nokkrar breytingar á grunnskólalögum. Meginefni frumvarpsins er að skerpa á lagaumgjörð sjálfstætt starfandi grunnskóla og skýra ramma um starfsemi þeirra hvað varðar fjármál og réttindi þeirra sem þjónustunnar njóta. Þá felur frumvarpið í sér tillögur um breytingar á reglum grunnskólalaga um stjórnsýslukærur og um samvinnu sveitarfélaga um grunnskólahald og þá er hugtakanotkun breytt þar sem orðinu sérfræðiþjónusta er skipt út fyrir skólaþjónusta. Loks felur frumvarpið í sér verulegar breytingar á lagaumgjörð starfsemi svonefndra frístundaheimila og það er það ákvæði sem ég tel mesta framfaraskrefið í frumvarpinu og vil fagna sérstaklega.

Að lokum vil ég þakka nefndinni fyrir mjög gott samstarf um vinnuna að frumvarpinu, þótt leiðirnar hafi skilið um ákveðin atriði þá lagði öll nefndin sig fram um að vinna vel.