145. löggjafarþing — 124. fundur,  2. júní 2016.

grunnskólar.

675. mál
[12:01]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Fyrst það að mjög mikilvægt er frá sjónarhóli okkar í Bjartri framtíð að verið er að styrkja lagaumgjörðina í kringum rekstur frístundaheimila, það er mjög gott mál. Svo varðandi hitt, lagaumgjörðina um sjálfstætt rekna grunnskóla. Það er visst lykilatriði frá okkar sjónarhóli að fjölbreytni ríki í skólastarfi og margir valmöguleikar séu í boði fyrir nemendur. Þar gegna auðvitað sjálfstætt reknir skólar lykilhlutverki og mörg dæmi eru um slíka skóla í íslensku samfélagi. Við stöndum í þeirri meiningu, erum fullviss um það eftir yfirferð nefndarinnar, að hér sé einungis verið að styrkja lagaumgjörðina um sjálfstætt rekna skóla og engar verulegar breytingar gerðar. Það er í raun verið að staðfesta núgildandi rétt og setja hann inn í lögin. Mér finnst mikilvægt að taka þetta fram vegna þess að sumt í frumvarpinu kann að hafa þannig yfirbragð að verið sé að skapa forsendur fyrir einhverja elítuskóla með mjög háum skólagjöldum þar sem einungis börn efnamikilla (Forseti hringir.) foreldra gætu stundað nám. Ég set því fyrirvara við nefndarálitið um að ég standi í þeirri meiningu að í frumvarpinu (Forseti hringir.) sé ekki verið að gera það heldur bara að styrkja núgildandi rétt. Ef menn ætluðu (Forseti hringir.) að fara í einhverja allsherjareinkavæðingu og elítuskóla og svoleiðis þá þyrfti það aðra umræðu og mun dýpri og ég mundi leggjast gegn því.