145. löggjafarþing — 126. fundur,  2. júní 2016.

gjaldeyrismál o.fl.

810. mál
[19:52]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, reglurnar gera ráð fyrir því að hægt sé að setja neikvæða vexti ef menn meta það svo. Ég hef séð drög að reglum frá Seðlabankanum sem ég vænti að verði kynntar efnislega og fyrir nefndinni þannig að menn geti fengið hugmynd bæði um áhrif þeirra og hvaða upplegg menn sjá fyrir sér að leggja til grundvallar verði lögin samþykkt í beinu framhaldi af því.

En að öðru leyti er erfitt að átta sig á þeim málflutningi sem hv. þingmaður kemur hér með. Hann segist hafa beðið mjög eftir þessu, svo mjög að hann hafi tekið málið þrisvar á dagskrá frá áramótum og svo loksins þegar hann sér málið þá verður hann fyrir vonbrigðum með að það skuli vera komið fram, það bíði ekki enn lengur væntanlega. Þetta er mál þeirrar gerðar að það verður ekkert hrist fram úr erminni bara eftir stutta umræðu í þinginu. Ég skal fara nánar yfir sögu þessa máls og hvernig það hefur orðið til í samskiptum fjármálaráðuneytis og Seðlabanka ef menn óska sérstaklega eftir því. En við höfum í langan tíma ekki bara rætt þetta í þinginu heldur einnig milli ráðuneytisins og Seðlabankans. Þar hefur hagdeildin farið í sérstaka úttekt, skoðað fordæmi, kynnt sér áhrif þessara tækja annars staðar, hvað hefur verið gert, hverjar líkurnar eru á því að þetta skili árangri hér, gert rannsóknir. Og að þeim loknum og í ljósi þeirrar stöðu sem við metum að sé fram undan var það niðurstaðan að hraða þyrfti þessari vinnu. En svona er nú bara lífið. Stundum kemur maður seinna fram með hluti en maður hefði kannski viljað, en afkastageta stjórnkerfis okkar er ekki takmarkalaus.