145. löggjafarþing — 126. fundur,  2. júní 2016.

minning tveggja alda afmælis Jóns Árnasonar.

44. mál
[21:13]
Horfa

Flm. (Valgerður Gunnarsdóttir) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Ólínu Kjerúlf Þorvarðardóttur fyrir þann stuðning sem hún heitir hér og það kemur nú ekki á óvart, doktor í þjóðfræði, að henni renni blóðið til skyldunnar. Ekki finnst mér síðra að hún lærði sín fræði undir handleiðslu tengdaföður míns, dr. Jóns Hnefils Aðalsteinssonar. En þetta er mjög merkilegur arfur sem við eigum í þjóðsögum, hvort heldur það eru íslenskar þjóðsögur eða þjóðsögur af erlendu bergi. Þessar sögur gegndu náttúrlega uppeldishlutverki á sinni tíð. Frægt er t.d. minnið í þjóðsögunum þar sem söguhetjan þarf að reyna þrisvar áður en hún nær árangri. Það segir okkur að við eigum ekki að gefast upp þótt við náum ekki árangri í fyrstu lotu. Þeim sem best og lengst hafa náð hefur yfirleitt mistekist í fyrstu lotu og þeir gefast ekki upp, þeir halda áfram að reyna þangað til þeir hafa náð þeim árangri sem þeir vildu ná.