145. löggjafarþing — 132. fundur,  15. ág. 2016.

aðgerðir í húsnæðismálum.

[15:41]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Í hádeginu urðum við vitni að mikilli kynningu stjórnarflokkanna á aðgerðum í húsnæðismálum en þegar grannt er skoðað kemur í ljós að þetta voru býsna miklar umbúðir utan um ekki neitt, þ.e. annars vegar bann við því að fólk geti tekið 40 ára lán en svo eru svo að segja allir undanþegnir því banni. Þar með er orðið ljóst, vegna þess að hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson sagði fyrir síðustu kosningar að valið stæði um að fá Framsóknarstjórn eða verðtryggingarstjórn, að það er alveg greinilegt að við höfum fengið verðtryggingarstjórn, þótt Framsóknarflokkurinn sitji í henni upp á punt.

En hitt sem er ekki síður undravert að sjá er að lagt er upp með að gríðarlegur hagur sé í því fólginn fyrir ungt fólk að fá skattafslátt sem nemur 1,5 milljörðum á ári til að greiða niður lán og auðvelda sér eignamyndun. Og ekki stendur á mér að fagna slíkum aðgerðum. En á sama tíma hefur ríkisstjórnin akkúrat verið að skerða hlut þessa sama unga fólks með sveltistefnunni í vaxtabótakerfinu þar sem búið er að skerða vaxtabætur á ári um 15 milljarða frá því sem þær voru þegar best lét í tíð síðustu ríkisstjórnar. Og nú er verið að efna til skrautsýningar til að skammta 1/10 hluta þess til baka. Til hverra? Til unga fólksins sem alltaf hefði fengið mest út úr vaxtabótakerfinu vegna þess að það er að jafnaði tekjulægra og á minni eign í húsnæðinu en aðrir.

Virðulegi forseti. Er ekki full ástæða fyrir ríkisstjórnina að viðurkenna að hún hefur gersamlega fallið á því prófi, jafnt að afnema verðtrygginguna sem hún lofaði og hinu, að finna raunveruleg úrræði fyrir þá sem á þurfa að halda, með því að svelta vaxtabótakerfið og henda svo litlum gusum (Forseti hringir.) í fólk sem það borgar allt fyrir sjálft hvort sem er? (Gripið fram í: Heyr, heyr.)