145. löggjafarþing — 132. fundur,  15. ág. 2016.

munnleg skýrsla forsætisráðherra um stöðu þjóðmála, ein umr.

[16:47]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P):

Virðulegi forseti. Hér ræðum við stöðu þjóðmála. Það var ekki mikið að heyra um stöðu þjóðmála hvorki í ræðu hæstv. forsætisráðherra né í ræðu hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra heldur einungis einhverjar tölur um hagfræði og einhver fjármál. Þjóðmálin eru miklu meira en bara efnahagur. Mér finnst við þurfa að taka þessa umræðu á miklu breiðari grundvelli. Ýmsar blikur eru á lofti og við sjáum það helst nú þar sem nokkrir tugir manna standa fyrir framan Alþingishúsið og mótmæla því að útlendingar fái leyfi til að vera hér á landi. Þetta er allt saman eitthvað sem rímar við óhuggulega tíma sem hafa áður gerst. Við þurfum að ræða þjóðmálin. Við þurfum að ræða erfiða hluti þjóðmálanna, ekki bara einhverjar tölur.

Hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir sagði að við þyrftum að ræða framtíðina. Við höfum reynt að ræða framtíðina. Við höfum reynt að fá að vita hvenær gengið yrði til kosninga en það var ekki fyrr en nokkrum dögum áður en sumarþing skyldi koma aftur saman að dagsetning fékkst, 29. október. Síðast þegar svona veik loforð um mögulegar kosningar eða þjóðaratkvæðagreiðslur voru veitt af þessari ríkisstjórn var það svikið. Þá er auðvelt að tala um ESB.

Það er svolítið sorglegt stundum að vinna á hinu háa Alþingi Íslendinga. Það er sérstaklega sorglegt að sjá hvernig viðhorf ákveðinna þingmanna í meiri hlutanum eru. Hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, sem er einnig formaður Framsóknarflokksins, sagði, með leyfi forseta:

„Ef vel gengur í þinginu núna og stjórnarandstaðan þvælist ekki fyrir getur vel verið að menn verði tilbúnir með allt fyrir 29. október.“

Ef stjórnarandstaðan þvælist ekki fyrir — við erum hérna til þess að vinna. Við munum halda áfram að vinna okkar vinnu. Þó að það taki lengri tíma en hæstv. ríkisstjórn vill þá munum við reyna að vinna okkar vinnu vel. Ef það tekur tíma þá er það út af því að stjórnarliðar koma ekki með málin nógu snemma fyrir þingið. Við boðuðum ekki til kosninga í haust. Það var ríkisstjórnin, það var sú ríkisstjórn sem hér situr við völd. Mér þætti gott að fá það staðfest frá hæstv. forsætisráðherra: Mun hann standa við það að hér verði gengið til kosninga 29. október 2016, sama hvað? Eða ætlið þið að koma með þetta tromp, nei, við náðum ekki að klára öll þessi góðu mál, þessi 70 mál sem verða mögulega á dagskrá? Verður kosið 29. október? Eruð þið til í að viðurkenna að það er kannski ekki nógu mikill tími til að tala fyrir 50 málum á þessu stutta þingi? Við verðum að forgangsraða og verðum að gera það í sameiningu.