145. löggjafarþing — 132. fundur,  15. ág. 2016.

læsisátak.

771. mál
[17:23]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka þeim sem hafa tekið þátt í þessari umræðu og ráðherra fyrir svör hans. Það má ekki misskilja mig. Að sjálfsögðu viljum við öll að börnin okkar séu læs og allir hafi jafnt aðgengi til náms. Ráðherra er mikið í mun að segja að þetta sé ekki miðstýrt átak og þetta sé ekki ein aðferð. Þetta er miðstýrt átak, það er alveg klárt, því er miðstýrt úr Menntamálastofnun.

Aðferðin getur verið margvísleg, ég ætla alveg að taka undir það. Ég vona svo sannarlega að fram undan verði sá árangur sem til er ætlast. En mér finnst mikið í lagt. Þó að hæstv. ráðherra tali um að það sé ekki mikið þegar hugsað er um það að öll börn verði læs, þá er ég að tala um að við hefðum getað varið fjármununum í nærsamfélaginu með betri hætti en hér er gert. Það sýnir sig að ekki þurfti læsisátak af hálfu ráðuneytisins á Suðurnesjum þar sem gríðarlega góður árangur hefur náðst svo vakið hefur athygli út fyrir landsteinana eins og ég fór yfir áðan, m.a. í Svíþjóð þar sem Svíar hafa verið að berjast við svipað og við í PISA-könnunum.

Ég hefði líka viljað sjá að það væri einhver lestrarsjóður sem væri hægt að ganga í. En það er í rauninni bara gert ráð fyrir að fólk sé hvatt til þess að sækja í sprotasjóði og þróunarsjóði námsgagna og annað slíkt, en ekki er verið að leggja til aukna peninga þar inn í. Við vitum að við erum í samkeppni við alls konar miðla þegar kemur að lestri. Við þurfum að huga að nýjum aðferðum sem væntanlega er verið að gera.

Ég tek undir það sem hefur verið sagt að ég hef áhyggjur af þessari aðgerðaáætlun. Ég spyr aftur hæstv. ráðherra hvernig staðan sé á þessum verkefnastjórum. Hversu margir voru ráðnir og hversu margir hafa hætt? Er einhver sérstök ástæða fyrir því ef svo er?