145. löggjafarþing — 132. fundur,  15. ág. 2016.

íslenskt táknmál og stuðningur við það.

773. mál
[17:39]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég ítreka þakkir mínar til hv. þingmanns. Ég vil segja að sú úttekt sem við ræddum á að ná til allra hagsmunaaðila skólasamfélagsins. Eins og ég sagði í ræðu minni áðan hefur verið haft samband við starfsfólk, foreldra og nemendur á táknmálssviði í Hlíðaskóla í Reykjavík og þeim boðið að taka þátt í rýnihópum og netkönnun. En ef það er svo að meira þurfi til er sjálfsagt mál að skoða það. Það er alveg eðlilegt að hafa sérstaklega augu á þessu. Það er m.a. þess vegna sem ég hef lagt til við þingið, eða vil að það verði gert, að það verði aukið fjármagn til að búa til námsefni fyrir þennan hóp. Það skiptir miklu máli að þau hafi aðgang að vönduðu námsefni og fjölbreyttu til þess einmitt að styrkja málþroskann.

Hvað varðar síðan þetta mál almennt langar mig að nota tækifærið og velta einu máli upp sem ég hef lengi ætlað mér að ræða við hv. þingmann og ég geri það bara héðan úr pontu. Ég hef velt því fyrir mér hvort ekki þurfi líka að skoða löggjöfina almennt hvað varðar þjónustu ríkisins. Nú er reyndar veitt þjónusta eða táknmálstúlkaþjónusta inni í menntakerfinu, heilbrigðiskerfinu og víðar en það er ekki, eftir því sem ég best veit, altæk lagaleg skylda á að öll þjónusta sem ríkið veitir, að það sé tryggt að þeir sem hana þurfa að sækja eða eiga eitthvað undir ríkisvaldið að sækja geti gert það á móðurmáli sínu. Ég hef velt því fyrir mér hvort þetta sé mál sem væri kannski hægt að ná samstöðu um í þinginu, að skoða nákvæmlega þessi lagaákvæði og tryggja að skýr lagaákvæði séu um það að þeir sem eiga samskipti við ríkisvaldið fái þau samskipti á móðurmáli sínu, þ.e. við erum búin að viðurkenna þetta sem þeirra fyrsta mál, móðurmál þeirra. Ég held að það ætti ekki að vera neitt stórt útgjaldamál fyrir okkur vegna þess að við gerum þetta nú þegar á svo stórum sviðum, eins og í heilbrigðismálunum og í menntamálunum. Ég velti þessu upp (Forseti hringir.) og nefni það við hv. þingmann, virðulegi forseti, hvort þetta sé mál sem við getum kannski kippt í liðinn með ekki allt of mikilli fyrirhöfn.