145. löggjafarþing — 133. fundur,  16. ág. 2016.

námslán og námsstyrkir.

794. mál
[14:33]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra út í þá gagnrýni sem hefur heyrst á þetta frumvarp, að með því að afnema tekjutengingu á endurgreiðslum námslána fyrir utan það að vextir eru hækkaðir úr 1% í 2,5% á lánahlutanum, þ.e. ekki styrkjunum heldur lánahlutanum, hvaða áhrif heldur hæstv. ráðherra að þetta hafi á námsval þeirra sem þurfa að nýta sér lánahluta þessa kerfis í ljósi þess að afborganir hafa verið tekjutengdar sem hefur miðað að því og tilgangur þess verið sá að fólk hafi getað valið sér nám eftir áhugasviði en ekki eftir mögulegum tekjum? Hefur hæstv. ráðherra ekki áhyggjur af því að þeir sem stunda langt háskólanám, t.d. til að fara í störf sem gefa ekki endilega miklar tekjur, við getum nefnt leikskólakennaranám og hugvísindanám hvers konar, hefur hæstv. ráðherra ekki áhyggjur af því að sú leið að afnema tekjutenginguna hafi raunveruleg áhrif á námsval og muni gera það einsleitara með ófyrirsjáanlegum afleiðingum fyrir íslenskt samfélag?