145. löggjafarþing — 133. fundur,  16. ág. 2016.

námslán og námsstyrkir.

794. mál
[14:38]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það hljómar út af fyrir sig ágætlega að horfa til þess fyrirkomulags sem er annars staðar á Norðurlöndunum um beina styrki og síðan lán á kostnaðarverði. Þegar hins vegar er horft á veruleikann, hávaxtaumhverfið á Íslandi, hlýtur maður að spyrja hæstv. ráðherra, sem er hagfræðingur, hvort hann telji að hávaxtaumhverfið á Íslandi geri þetta yfir höfuð mögulegt. Þegar við skoðum vextina á sænskum námslánum eru þeir í dag 0,6%. Það eru heildarvextirnir sem sænskir námsmenn þurfa að endurgreiða.

Hér er tíu ára söguleg verðbólga 5,12%. 3% raunvextir ofan á það þýða 8,12% vexti ef þetta fyrirkomulag hefði verið í gildi síðustu tíu árin. Lánsfjárhæð nemenda hefði tvöfaldast við þessa íslensku vaxtabyrði. Sér ráðherrann yfir höfuð fyrir sér að við þetta háa raunvaxtastig sé hægt að innleiða módel sem er búið til fyrir lönd þar sem eru miklu lægri vextir sem endurgreiða þarf en hér er raunin?