145. löggjafarþing — 133. fundur,  16. ág. 2016.

námslán og námsstyrkir.

794. mál
[15:36]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég tek undir með henni. Það er akkúrat þessi þráður sem bæði við höfum gagnrýnt og maður hefur séð í fjölmiðlum að flestir gagnrýna. Fólk hefur miklar áhyggjur af endurgreiðslubyrðinni þrátt fyrir að ráðherra reyni að sannfæra okkur til hins ýtrasta um að þetta verði betra og léttara í alla staði. Ég er ekki sannfærð og ég þarf að fá að sjá útreikninga frá fleiri en einum aðila um að svo sé og í ljósi þess sem sagt var áðan um að bæði barnabætur og vaxtabætur hafa verið lækkaðar eða hóparnir sem fá eru færri.

Ég sá það sem starfandi náms- og starfsráðgjafi í menntaskólanum þar sem ég var áður að þar kom inn fólk þegar nýr skóli reis, fólk sem hafði hætt snemma í námi, var að drífa sig af stað aftur og ef það heldur áfram er það einmitt fólk sem er komið á þennan aldur. Sumt af því er enn á leigumarkaði, aðrir eru búnir að fjárfesta o.s.frv., er með þær skuldbindingar, þannig að þetta getur orðið óyfirstíganlegt.

Ég held að þetta sé eitthvað sem við þurfum að fara vel yfir. Þetta gengur algerlega gegn því, eins og ég sagði í upphafi ræðu minnar áðan, sem segir í frumvarpinu um að allir eigi að geta stundað nám án tillits til efnahags. Eins og þetta horfir við mér a.m.k. er það ekki þannig.

Svo er líka mjög mikilvægt þegar við horfum á þetta að við hugsum ekki aðeins um að útskrifa fólk til handa atvinnulífinu. Við þurfum að hafa fjölbreytnina. Fólk verður að geta stundað það nám sem það langar til að stunda. Ég hef áhyggjur af því að þetta takmarki það svolítið, að fólk velji sér eitthvað sem gefur því góðar tekjur fremur en að það velji sér eitthvað beinlínis af áhuga.