145. löggjafarþing — 133. fundur,  16. ág. 2016.

námslán og námsstyrkir.

794. mál
[17:07]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég veit að hv. þingmaður er mér sammála um að maður gæti sín á því að vera ekki að hópgera með þeim hætti að segja að konur koma svona út úr þessu og karlar koma svona út úr þessu. Þetta er miklu flóknara en það. Þetta snýr að því hvaða nám fólk velur sér, hverjar tekjurnar eru, námstíminn, fjölskylduaðstæður o.s.frv. Ég vakti athygli á því að í þeirri greiningu sem hefur verið unnin af hálfu stúdentanna varðandi Háskóla Íslands, svo ég taki það sérstaklega fram, HR hefur líka greint þetta og HA, en hvað varðar þennan skóla þar sem kynjasamsetningin er þá vakti ég athygli á þessari niðurstöðu. Ég vil ekki alhæfa út frá því, ég vil bara hafa sagt þetta.

Hitt síðan, af því að hv. þingmaður var að velta fyrir sér varðandi nám sem er skipulagt með vinnu, þá er það ekki það sama og að hægt sé að vinna með náminu. Menn geta það auðvitað áfram. Reyndar er það þannig að styrkurinn rýrnar ekki, það er ekki dregið frá þó að unnið sé með náminu, þó þannig að ef menn komast yfir tekjumörkin og tekjurnar eru orðnar það háar þá fer það að hafa áhrif, en stór hluti námsmanna vinnur ekki svo mikið með náminu að það hafi áhrif. Þar sem um er að ræða nám þar sem gert er ráð fyrir því að viðkomandi sé í vinnu og hafi atvinnutekjur, það er raunverulega verið að ræða það og mér finnst það ekkert ósanngjarnt í sjálfu sér ef einhver er í námi sem byggir á því að viðkomandi er í vinnu og hefur laun á meðan, þá er ekkert endilega, finnst mér, það mikið réttlætismál að draga úr getu okkar til að styrkja aðra og veita öðrum lán með því að veita líka þessum hópi lán, en það er deiluefni. Hvað varðar t.d. erlenda ríkisborgara sem eru starfandi hérna þá hefur þetta ekki áhrif á það. Enn og aftur, verið er að tala um nám sem er skipulagt með vinnu.