145. löggjafarþing — 133. fundur,  16. ág. 2016.

fjármálafyrirtæki.

589. mál
[23:14]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Frú forseti. Eins og kom fram í máli hv. þm. Willums Þórs Þórssonar, framsögumanns nefndarálitsins, rita ég undir það með fyrirvara. Sá fyrirvari lýtur ekki að starfi nefndarinnar sem fór ágætlega yfir málið og reyndi að koma til móts við t.d., eins og kom fram í máli hv. þingmanns, þær aðstæður sem hér eru á landi með okkar litla samfélag og okkar litlu fjármálafyrirtæki. Ég nefni þá sérstaklega sparisjóðina sem sendu umsögn og hafa töluverðar áhyggjur af innleiðingu þessa regluverks. Reynt var að koma til móts við þær athugasemdir að einhverju marki en auðvitað er ramminn sem sniðinn er þröngur.

Fyrirvari minn við þetta mál lýtur að þeirri tilskipun sem verið er að innleiða sem er Evróputilskipun, eins og við þekkjum, og snýst um það sem kallað hefur verið Basel III. Þar er reynt að læra af fjármálahruninu með því að breyta, endurskoða og þétta regluverk um fjármálastarfsemi á Evrópska efnahagssvæðinu. Það fer hins vegar ekki hjá því að þegar maður fylgist með þessari umræðu og hlustar t.d. á ágæta ræðu hv. þingmanns sem talaði á undan, sem var á köflum mjög tæknileg og kannski ekki skiljanleg öllum þeim sem vilja þó almennt fylgjast með þjóðmálaumræðu, að maður fari að velta fyrir sér inntaki þessa regluverks og hvort það þjóni raunverulega þeim tilgangi sem því er ætlað að þjóna. Við vitum að fjármálakerfið er auðvitað orðið eðlisólíkt því sem það var fyrir einhverjum áratugum. Þjónusta við fólk og fyrirtæki sem fást við þjónustu eða það að framleiða einhverjar vörur eða eitthvað slíkt, sem er það sem venjulegu fólki finnst að bankar og fjármálafyrirtæki eigi almennt að vera að gera, margir halda örugglega að það sé aðalhlutverk fjármálafyrirtækja, nemur kannski aðeins örlitlum hluta af raunverulegri starfsemi fjármálafyrirtækja. Raunveruleg starfsemi í fjármálafyrirtæki snýst fyrst og fremst um viðskipti á milli fjármálafyrirtækja, um viðskipti með verðbréf og hlutabréf, og það er sá vöxtur í þeim viðskiptum sem hefur verið helsta útskýringin á útþenslu fjármálageirans. Það hlýtur að vekja spurningar þegar við horfum á þennan lokaða hóp fyrirtækja og fólks skiptast á sömu seðlunum fram og til baka, sem getur aukið verðmæti þessara fyrirtækja á pappír margfalt yfir einn dag og bara á nokkrum mínútum. Það hlýtur að vekja spurningar um eðli þessa geira og hversu óhaggaður hann hefur fengið að standa eftir hrun, hversu sjálfsagt það hefur þótt innan ESB að koma til bjargar fjármálageiranum. Í raun og veru hefur það þótt algerlega sjálfsagt, eins og sagt hefur verið, að bankarnir og fjármálafyrirtækin séu of stór til að fara á hausinn, það muni hafa of mikil áhrif á almenning í þessum löndum og atvinnulíf, annað atvinnulíf í þessum löndum, sem er samt umhugsunarefni í ljósi þess að þjónusta við það atvinnulíf er svo lítill hluti af þessum fjármálafyrirtækjum.

Við höfum séð að fjármálakerfið hefur haft gríðarleg áhrif á stefnumótun stjórnmálanna. Þá er ég ekki einungis að vitna til Íslands, ég er að vitna til Evrópu en líka að sjálfsögðu til Bandaríkjanna og hins vestræna heims. Fjármálakerfið hefur haft gríðarleg áhrif á stefnumótun stjórnmálanna um fjármálakerfið. Við höfum séð fjármálakerfið taka til sín hæfasta fólkið úr háskólum heimsins. Það er samkeppni um það fólk á milli þessara fyrirtækja. Innan fjármálakerfisins sjáum við ofurlaunin og bónusana sem blessunarlega eru ekki hluti af þeirri innleiðingu en við ræddum hér í fyrra. Allt hlýtur þetta að vekja spurningar um hvort við séum á réttri braut.

Ég vitna t.d. til hagfræðingsins Johns Kays sem heimsótti Ísland í boði Samfylkingarinnar, að mig minnir á þessu ári, og skrifaði ágæta bók sem heitir Peningar annars fólks þar sem hann veltir því fyrir sér hvort við þurfum ekki að skoða eðli fjármálakerfisins fremur en að vera stöðugt að bæta við regluverkið plástrum hér og þar til þess að tryggja betur að það gangi sem skyldi. Hann veltir upp spurningunni: Til hvers er þetta kerfi? Til hvers er þessi fjármálaþjónusta? Er hún til fyrir sjálfa sig eða er hún til fyrir eitthvað annað? Er hún til fyrir atvinnulífið, samfélagið, fólk? Þegar rætt er um fjármálakerfið er talað um veltuna sem því fylgir. Það er rætt um fjölda starfa í fjármálageiranum, rætt um tekjur og skatta sem starfsmenn fjármálageirans greiða. En það er kannski ekki endilega velt upp spurningum á borð við það hvaða samfélagslega hlutverki kerfið þjónar. Hvernig þjónar það atvinnulífinu, hinu atvinnulífinu, ef við getum orðað það sem svo?

Mér finnst eftir að hafa fylgst með þessari umræðu og tekið þátt í starfi nefndarinnar um innleiðingu á mjög tæknilegum þáttum í lögum um fjármálafyrirtæki, þar sem er verið að stilla af ákveðna hluti á borð við eigið fé og annað slíkt, allt gert í nafni þess að stjórnvöld hafi á einhvern hátt betri tök á þessu fjármálakerfi, að maður hljóti að velta því fyrir sér eftir innleiðingu á Basel I og Basel II og Basel III, og það sem auðvitað líka skiptir máli, einhverju stofnanaverki, sem ekki er tilbúið, fyrir það hlutverk sem hér er verið að samþykkja, hvort þetta sé rétta leiðin. Minn fyrirvari er þá kannski hápólitískur og lýtur ekki að því hvort ég tel að nefndin hafi farið ágætlega yfir þetta mál og unnið það eftir fremsta megni, hér erum við auðvitað að ræða innleiðingu sem við erum skuldbundin til þess að taka upp, en ég velti fyrir mér hvort tilskipunin sjálf og þar með innleiðing okkar á þeirri tilskipun sé rétta leiðin til þess að ná þeim markmiðum sem margir hér inni, margir hv. þingmenn úr ólíkum flokkum, hafa talað fyrir, að við þurfum að endurskoða fjármálakerfið. Menn hafa talað um samfélagsbanka, fjármálakerfi sem þjónustar fólk en ekki fjármagnið sjálft. Ég vitna aftur til ágætra orða Johns Kays sem segir að við þurfum fjármálaþjónustu en sú sem nú er í boði er of mikið af því góða. Það er umhugsunarefni hvort þær regluverksumbætur sem hér er verið að reyna að innleiða, eða breytingar eða hvað við köllum það, þjóni raunverulegu hlutverki sínu. Ég er mjög efins um að þessi aðferðafræði skili árangri og að því lýtur minn fyrirvari. Ég hef grundvallarefasemdir um þá leið sem fjármálakerfi Evrópu er á og þær aðferðir sem stjórnvöld reyna að beita til að koma böndum á það kerfi. Ég tel að þær taki ekki á rót vandans, taki ekki á spurningunni um raunverulegan tilgang fjármálaþjónustunnar en snúist allt of mikið um fjármálakerfi á forsendum fjármálakerfis.

Um það snýst fyrirvari minn við þetta mál. Hann er mjög stór og efnislegur en snýst hins vegar ekki um vinnu hv. efnahags- og viðskiptanefndar í málinu.