145. löggjafarþing — 134. fundur,  17. ág. 2016.

fjármálastefna 2017--2021.

741. mál
[17:17]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Spurningar hv. þingmanns eru margar og efni í langar umræður en ég þarf að finna leið til að svara þeim á tveimur mínútum.

Í fyrsta lagi varðandi stuðning við barnafjölskyldur. Það er augljóst mál að við þurfum að styðja betur við bakið á barnafjölskyldum, hvort sem það er í gegnum barnabótakerfi sem við þurfum að bæta og á ekki bara að vera fyrir fátækasta fólkið heldur líka leggjast með barnafjölskyldum með millitekjur að minnsta kosti. Við þurfum að lengja fæðingarorlofið og hækka viðmiðunargreiðslurnar þar. Það að fæðingum skuli fækka hér á landi er ekki bara fréttir heldur er það stórt efnahagsmál. Það er mjög mikilvægt að við gerum ungu fólki kleift að eignast börn. Það er mikilvægt fyrir framtíð landsins og efnahaginn. Þess vegna finnst mér, þó að það standi styr um það, að líklegt sé að það þurfi að hækka tryggingagjaldið ef það á að standa undir kostnaði við Fæðingarorlofssjóð, til að ná fram kostnaði við bæði hækkun á viðmiðunargreiðslum og lengingu fæðingarorlofsins. Mér finnst það óásættanlegt. Ég vil ekki hækka tryggingagjaldið vegna þess að það lendir harkalegast á litlum og meðalstórum fyrirtækjum. Þess vegna segi ég: Þá borgum við úr ríkissjóði mismuninn, við finnum leiðir til þess að standa með barnafjölskyldum svo að þær hafi bókstaflega efni á því að eignast börn vegna þess að það skiptir mjög miklu máli fyrir efnahag okkar til framtíðar.

Varðandi auðlegðarskattinn þá er það eignarskattur og á honum voru gallar sem við hv. þingmaður þekkjum bæði. En það er hins vegar hægt að sníða þessa galla af og taka skatta af stóreignarmönnum og setja í ríkissjóð til þess að bæta velferðarkerfið.