145. löggjafarþing — 134. fundur,  17. ág. 2016.

fjármálastefna 2017--2021.

741. mál
[18:57]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er rétt hjá hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni að það var hann sem heilbrigðisráðherra sem setti af stað ásamt Samfylkingu vinnu um greiðsluþátttökukerfi vegna lyfja og heilbrigðisþjónustu. Ég vil leiðrétta þingmanninn því að hann sagði að vinstri stjórnin hefði stungið þeirri vinnu ofan í skúffu. Það er ekki alls kostar rétt því að á síðasta kjörtímabili, í tíð ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur þar sem Guðbjartur heitinn Hannesson var velferðarráðherra og þar með heilbrigðisráðherra, innleiddum við nýtt lyfjagreiðslukerfi. Með þeim breytingum sem við samþykktum í vor og eru mjög til bóta, sérstaklega eftir að við náðum þakinu niður, þá munu almennir sjúklingar, við sem erum á vinnualdri og erum vinnufær, borga að hámarki fyrir lyf og heilbrigðisþjónustu sem fellur undir greiðsluþátttökuna 112 þús. kr. á ári og lífeyrisþegar og börn að hámarki 74 þús. kr. á ári.

Eins og ég fór yfir í máli mínu þá er stór hluti af útgjöldum heimilanna ekki inni í þessu greiðsluþátttökukerfi. Verkefnið fram undan er að draga úr þeirri greiðsluþátttöku því umfram þessa fjármuni, þessar 112 þús. kr. og 74 þús. kr. á ári, er fólk að reiða miklu hærri fjárhæðir fram úr eigin vasa vegna heilbrigðisþjónustu og lyfja af því að það fellur ekki undir greiðsluþakið.

Það hefur verið niðurskurður í heilbrigðiskerfinu frá aldamótum. Við vitum hvað gerðist hér haustið (Forseti hringir.) 2008 sem olli enn frekari niðurskurði. Ég ber engan (Forseti hringir.) kinnroða yfir því að telja þetta metnaðarlausar (Forseti hringir.) áætlanir hjá Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki um endurreisn heilbrigðiskerfisins.