145. löggjafarþing — 135. fundur,  18. ág. 2016.

stuðningur til kaupa á fyrstu íbúð.

818. mál
[11:13]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um stuðning til kaupa á fyrstu íbúð. Í frumvarpinu er lagt til að lögfestur verði stuðningur við einstaklinga sem eru að kaupa sína fyrstu íbúð þannig að þeim verði heimilt að verja séreignarsparnaði skattfrjálst til kaupanna. Úrræðið er varanlegt en í frumvarpinu er lagt til að ráðstöfunarheimild einstaklings taki til viðbótariðgjalda sem greidd eru á samfelldu tíu ára tímabili.

Lagt er til að hámarksfjárhæð einstaklings til úttektar á séreignarsparnaði á grundvelli frumvarpsins geti numið samtals 5 millj. kr. á samfelldu tíu ára tímabili eða samanlagt að hámarki 500 þús. kr. á hverja 12 mánuði á samfelldu tíu ára tímabili. Frumvarpið er því í mörgu áþekkt núgildandi úrræðum um heimild til úttektar á séreignarsparnaði og ráðstöfun hans, þó m.a. að því undanskildu að í frumvarpinu eru hámarksfjárhæðir bundnar við einstakling án þess að horft sé til hjúskaparstöðu hans. Ráðstöfun tveggja einstaklinga sem kaupa sína fyrstu íbúð saman getur því numið að hámarki samtals 10 millj. kr.

Þá er í frumvarpinu lagt til að gert verði að skilyrði að einstaklingur, sem hyggst nýta sér úrræði þess, hafi ekki áður verið skráður eigandi að íbúðarhúsnæði. Einnig er gert að skilyrði að einstaklingur sem nýtir sér úrræði frumvarpsins sé skráður eigandi að a.m.k. 50% eignarhlut í íbúðarhúsnæðinu. Verði rof á greiðslu iðgjalda hjá einstaklingi innan tíu ára tímabilsins leiðir það til þess að réttur hans vegna þess tímabils fellur niður. Einstaklingi verður þó heimilað að virkja réttinn að nýju hefji hann aftur greiðslu viðbótariðgjalda innan tímabilsins og getur hann þá ráðstafað iðgjöldum í samræmi við ákvæði frumvarpsins uns tíu ára tímamarkinu er náð.

Í frumvarpinu er kveðið á um þrjár leiðir sem einstaklingur getur valið á milli við ráðstöfun á viðbótariðgjaldi:

Í fyrsta lagi heimild til úttektar á uppsöfnuðu viðbótariðgjaldi til kaupa á fyrstu íbúð. Þarna er þá um að ræða úttekt sem einkum ætti að gagnast til að mynda höfuðstól.

Í öðru lagi heimild til að ráðstafa viðbótariðgjaldi inn á höfuðstól láns. Þarna er um að ræða heimild sem einkum á að koma til nota við að lækka höfuðstól láns sem þegar hefur verið tekið.

Í þriðja lagi er um að ræða heimild til að ráðstafa viðbótariðgjaldi sem afborgun inn á óverðtryggt lán og sem greiðslu inn á höfuðstól þess. Þetta er svokölluð blönduð leið en með henni er ætlunin, fyrir þá sem kjósa að taka óverðtryggt lán, að létta undir með þeim á fyrstu endurgreiðsluárum lánsins þegar endurgreiðslubyrðin er einmitt hvað þyngst.

Samkvæmt frumvarpinu verður einstaklingi heimilt að breyta um ráðstöfunarleið innan tíu ára tímabilsins. Einnig er í frumvarpinu lagt til að einstaklingi verði heimilt að selja þá íbúð sem hann aflar sér með þeim stuðningi sem frumvarpið felur í sér og kaupa nýja í stað hennar og halda áfram að nýta úrræði frumvarpsins. Ráðstöfunartími viðbótariðgjalda getur þó aldrei orðið lengri en sem nemur hinu tíu ára samfellda tímabili eins og ég hef áður komið inn á.

Hér er lagt til að frumvarpið taki gildi 1. júlí 2017 eða þegar núgildandi úrræði um öflun íbúðarhúsnæðis til eigin nota renna sitt skeið samkvæmt gildandi lögum. Því er í frumvarpinu lagt til að settar verði tvær reglur um lagaskil:

Annars vegar að einstaklingi sem þegar hefur hafið uppsöfnun á iðgjöldum til öflunar á íbúðarhúsnæði til eigin nota á grundvelli núgildandi ákvæðis til bráðabirgða en hefur ekki nýtt sér þá heimild fyrir 1. júlí 2017 verði heimilað að nýta uppsöfnuð iðgjöld á grundvelli þess frumvarps sem nú er mælt fyrir. Skilyrði er að um kaup á fyrstu íbúð sé að ræða.

Hins vegar að einstaklingi sem þegar hefur nýtt rétt á grundvelli núgildandi ákvæðis til bráðabirgða og hefur hafið greiðslur inn á höfuðstól láns verði heimiluð áframhaldandi nýting á viðbótariðgjaldi sínu til greiðslu inn á lánið með veði í húsnæðinu sem hann aflaði sér á þeim grundvelli uns tíu ára samfellda tímabili frumvarpsins er náð. Skilyrði er að um kaup á fyrstu íbúð sé að ræða.

Þetta kann að hljóma flókið en er í raun og veru einfaldlega það að þeir sem eru kaupendur fyrstu íbúðar munu geta haldið ótrauðir áfram, munu geta haldið áfram að safna og nýtt sér úrræðin. Þeir tapa engum rétti við nýja frumvarpið heldur njóta góðs af þeim viðbótarrétti sem þar er að finna.

Að lokum er í frumvarpinu lagt til að núgildandi bráðabirgðaákvæði í lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða um heimild til að ráðstafa viðbótariðgjaldi inn á höfuðstól láns vegna húsnæðis sem aflað var fyrir 1. júlí 2014 verði framlengt um tvö ár, fram til 30. júní 2019.

Varðandi lögin og ástandið sem gildir í dag erum við í raun og veru að gera aðskilnað á milli þeirra sem hafa verið inni í kerfinu og nýtt það til þess að eignast fyrstu íbúð. Við ætlum að taka þá með inn í nýja kerfið og framlengja réttinn þannig til tíu ára og hækka viðmiðunarmörkin. Varðandi alla aðra sem hafa verið inni í kerfinu og nýtt það til að safna eða greiða niður höfuðstól erum við að framlengja áhrif gildandi laga um tvö ár.

Ég ætla að segja örfá orð til viðbótar við þessa yfirferð um efnisatriði frumvarpsins. Þá er kannski fyrst að þær áherslur ríkisstjórnarinnar sem birtast í frumvarpinu eru í eðlilegu framhaldi af þeim aðgerðum sem við höfum áður beitt okkur fyrir á kjörtímabilinu. Skuldaleiðrétting, þær aðgerðir sem við höfum áður beitt okkur fyrir til að styðja fólk við að lækka húsnæðisskuldir sínar, var í senn aðgerð sem skipti heimilin miklu máli til að tryggja betur eiginfjárstöðu sína vegna eigin húsnæðis og efnahagsaðgerð. Hún var efnahagsaðgerð vegna þess að í upphafi kjörtímabilsins voru heildarskuldir heimilanna komnar vel yfir 100% af landsframleiðslu. Heildarskuldir heimilanna voru komnar í slíkar hæðir að ekki var hægt að horfa fram hjá því sem efnahagslegri ógn. Og húsnæðisskuldirnar hafa nú lækkað alveg sérstaklega og eru komnar niður í sambærilegar tölur og áttu við fyrir aldamótin síðustu sem er gríðarlega stórt skref. Við sjáum hlutföllin í þessu samhengi lækka mun hraðar en í öllum nágrannalöndum okkar. Það kemur til af ýmsu, það kemur til af því að í fyrsta lagi hafa þessar aðgerðir aðstoðað heimilin beint við að greiða inn á höfuðstólinn. Höfuðstólsleiðréttingin var aðgerð sem gagnaðist beint vegna þess að útgreiðsla úr ríkissjóði fór beint inn á höfuðstól lánanna.

Við höfum því til viðbótar verið með séreignarsparnaðarleiðina sem hátt í 40.000 manns hafa verið að nýta sér til að lækka höfuðstól sinn. Yfir þetta tímabil hefur eignaverð hækkað eins og þekkt er í umræðunni og fasteignamatið hefur hækkað vegna þess að markaðurinn hefur verið á uppleið. Þetta ásamt með því að landsframleiðsla hefur vaxið mjög hefur gjörbreytt þessum hlutföllum þannig að þau eru nú að verða mun ásættanlegri, útlitið miklu skárra fyrir heimilin en var fyrir einungis örfáum árum. Það er athyglisvert að fáum ríkjum er að takast að breyta þessum hlutföllum jafn hratt og okkur Íslendingum. Ég þekki reyndar engin dæmi þess að þessi hlutföll hafi lagast jafn hratt og raun ber vitni.

Þetta leyfi ég mér að nefna þrátt fyrir að þetta segi ekki alla söguna. Þetta er vísbending um stöðu heimilanna í hagkerfinu, þetta er mjög sterk vísbending og þetta er sönnun þess að staðan hefur batnað mjög mikið.

Við megum hins vegar aldrei gleyma því að hvert og eitt heimili er óskaplega lítið að velta því fyrir sér hvernig staðan er hjá þeim í hlutfalli við landsframleiðslu. Hvað skulda ég í hlutfalli af landsframleiðslu? er ekki spurning sem fólk vaknar upp með á morgnana.

Það eru fleiri vísbendingar sem við höfum um batnandi stöðu heimilanna, t.d. vanskilahlutföllin í bönkunum sem eru hratt að lagast. Þegar þessi breyting hefur orðið er sjónum beint í auknum mæli að öðrum viðfangsefnum á húsnæðismarkaðnum. Við erum með þessu frumvarpi ekki í sama mæli að horfa á skuldir sem sérstakt vandamál eða viðfangsefni en við erum þó að framlengja heimildirnar fyrir alla um tvö ár til að halda áfram að nýta séreignarsparnaðinn.

Þar kemur kannski tvennt til, annars vegar það að margir vilja áfram lækka skuldir síns heimilis, húsnæðisskuldir sínar. Margir vilja áfram gera það og er sjálfsagt að ýta undir sparnað í landinu með þeim hætti. Svo er hitt að breytingar hafa orðið á lífeyrismálum okkar Íslendinga þannig að nú erum við almennt að spara meira með því að iðgjöldin voru hækkuð á almenna markaðnum upp í 15,5%. Þegar menn horfa til langs tíma er ljóst að það er ekki er sama brýna þörfin fyrir séreignarsparnaðinn eins og var fyrir ekki svo löngu síðan. Þar af leiðandi er ekki eins miklu fórnað yfir starfsævi hvers og eins einstaklings með því að taka u.þ.b. tíu ár út af séreignarsparnaðinum í þessum tilgangi vegna þess að það eru allar líkur á því að lífeyrisréttindin þegar að starfslokum kemur, hafi menn verið á vinnumarkaðnum alla starfsævina, verði betri en við höfum átt að venjast fram til þessa þrátt fyrir að þessi tíu ár séu tekin til hliðar.

Við beinum sjónum okkar að þessu í auknum mæli og svo sérstaklega vegna fyrstu íbúðarkaupanna erum við að bregðast við þeirri stöðu að smærri íbúðir hafa hækkað meira en annað húsnæði á undanförnum árum. Ungt fólk er að því er virðist lengur í námi. Það hafa verið vísbendingar um að ráðstöfunartekjur ungs fólks, borið saman við það sem áður gilti, séu að lækka. Það á eftir að fara almennilega ofan í saumana á því en á því geta verið ýmsar skýringar, m.a. þær að ungt fólk sé lengur í námi og almennt meira í námi en áður gilti. Það ásamt með hækkandi verði á húsnæðismarkaði veldur því að margir eiga mjög erfitt með að eiga fyrir fyrstu útborgun.

Ég vil alltaf halda því til haga varðandi fyrstu útborgun eða höfuðstólssöfnun fyrir íbúðarkaupum að það hefur aldrei verið auðvelt á Íslandi að eignast höfuðstól til að fjárfesta í íbúð. Við höldum því ekki fram að það verði mjög auðvelt með þessu, en það er verið að létta undir með fólki og gefa skattafslátt. Þetta er vinnuhvetjandi fyrirkomulag, það er ekki verið að ganga um of á sparnaðinn, það er verið að færa hann til í raun og veru úr séreignarsparnaðarforminu yfir í húsnæðisform og við veitum skattafslátt sem fer beint til húsnæðiskaupanna með þeim hætti sem ég lýsti áðan. Þetta getur skipt sköpum fyrir marga. Ég heyri í umræðunni sagt að þetta skipti meira máli fyrir þá sem mestar tekjurnar hafa. Það er út af fyrir sig rétt en hlutfallslega er rétturinn ávallt hinn sami. Það er sami skattafsláttur, þ.e. fullur skattafsláttur fyrir alla vegna alls þess sem lagt hefur verið til hliðar í séreignarsparnaði. Að því leytinu til er aðgerðin algerlega hlutlaus og heildræn. Hún gerir engan mun á þessu, en með því að vera með efra þak á því hversu mikinn skattafslátt er hægt að fá á ári erum við að taka þá allra tekjuhæstu út úr spilinu. Það kemur að því að menn njóta ekki lengur góðs af úrræðinu.

Því hefur verið velt upp í umræðunni um þetta mál hvort það muni valda mikilli hækkun á húsnæðisverði í landinu. Það er eðlilegt að menn spyrji sig: Vex ekki eftirspurnarhliðin? En þá er á það að líta að eftirspurnarhliðin á undanförnum árum, á sama tíma og skortur hefur verið á framboðshliðinni, hefur fyrst og fremst leitt til þess að þegar horft er til ungs fólks, 25–29 ára, hefur orðið mikil breyting á hlutfalli fólks sem býr í eigin húsnæði á móti hlutfallinu sem býr í leiguhúsnæði, þ.e. skortur á íbúðarhúsnæði á viðráðanlegu verði hefur orðið grundvöllur að stórkostlegri stækkun leigumarkaðarins. Menn segja oft í umræðunni hér: Það er enginn leigumarkaður á Íslandi. Þetta er alrangt, það er ótrúlegur fjöldi fólks úti á leigumarkaðnum. Það er ekki ódýr kostur en þessi markaður er orðinn mjög stór og hann er orðinn umtalsverður hluti af heildarhúsnæðismarkaðnum á Íslandi. Sérstaklega á það við á höfuðborgarsvæðinu.

Þegar við auðveldum fólki að leggja til hliðar til að eiga fyrir fyrstu fjárfestingunni er hægt að færa fyrir því gild rök að það muni frekar leiða til hliðrunar á húsnæðismarkaðnum þar sem fólki sem er fast inni í leiguumhverfi sem það vill mögulega ekki vera inni í verður gert kleift að leggja til hliðar og færa sig yfir í eigið húsnæði og að það muni þá frekar draga úr eftirspurninni á leigumarkaðnum. (ÖS: Hvernig ætlarðu að hjálpa hinum?) Þegar spurt er hér úr sal: Hvernig á að hjálpa hinum? höfum við þegar svarað því hvaða úrræði við sjáum til boða fyrir þá allra tekjulægstu sem sjá ekki fyrir sér að geta yfir höfuð lagt til hliðar af þeim launum sem þeir eru á. Þá er ég að vísa í frumvörpin sem þingið hefur fyrr á þessu ári afgreitt um almennar félagsíbúðir og húsnæðisbætur þar sem horft er á aðstæður þess fólks. Við höfum nú þegar séð t.d. Alþýðusamband Íslands kynna mjög stór áform um stórfjölgun íbúða inn í það kerfi nákvæmlega á grundvelli þess fyrirkomulags. Þar er verið að vinna með að það sé bara tiltekið hlutfall heildarlauna sem muni fara til húsnæðiskostnaðar hjá hverjum og einum. Það á að sjálfsögðu eftir að koma betur í ljós hvernig okkur tekst að halda í skefjum markaðsöflunum sem rífa upp byggingarkostnað og mögulega leiguverð þegar fram í sækir, en það eru góðar vonir til þess að þau frumvörp sem hafa verið lögfest nú og hefur verið afskaplega vel tekið af stéttarfélögunum í landinu verði svarið við spurningunni: Hvað getum við frekar gert fyrir þá sem minnst hafa milli handanna? Almennu félagsíbúðirnar og húsnæðisbæturnar munu án vafa koma þar mjög til hjálpar.

Ég vil líka halda því til haga að það er sjálfsagður valkostur fyrir fólk að halda sig einfaldlega á leigumarkaðnum ef það kýs þann valkost, kýs að taka ekki áhættuna af lántöku, kýs að taka ekki áhættuna af sveiflum sem geta orðið á húsnæðismarkaði. En þá er auðvitað á það að líta að menn geta verið undirorpnir hættunni á sveiflum í leiguverðinu sem að jafnaði endurspegla að sjálfsögðu sveiflur í húsnæðisverði og vöxtum á Íslandi.

Til lengri tíma litið erum við með mjög sterkar vísbendingar um að það sé góð ráðstöfun fyrir heimilin í landinu að leggja á það áherslu snemma á lífsleiðinni að eignast eigið húsnæði. Í þeim löndum þar sem leigumarkaðurinn er mun sterkari en á við hér á landi, eins og t.d. í Þýskalandi, virðist það því miður vera niðurstaðan í lok starfsævinnar að fólk hefur hvorki eignast eigið húsnæði og byggt þannig upp sparnað né fundið leiðir annars staðar á lífsleiðinni til að byggja upp góða eiginfjárstöðu. Það er hálfdapurlegt að horfa til þess hvernig eiginfjárstaða margra heimila í Evrópusambandinu er, sérstaklega þegar litið er til þeirra sem eru komnir að lokum starfsævinnar og eru að hefja töku lífeyris. Það er sláandi munur milli landa í þessu tilliti á eiginfjárstöðunni eftir því hvort leigumarkaðurinn er stór og útbreiddur eða hvort séreignarstefnan er ráðandi. Þetta ættu menn að hafa í huga.

Með frumvarpinu er eins og ég rakti áðan opnað fyrir þann möguleika að fara hina svokölluðu blönduðu leið. Ég vil halda því til haga sömuleiðis að jafn sjálfsagður og mér finnst sá valkostur vera, að fólk kjósi að vera á leigumarkaði, þá viljum við að það séu raunverulegir valkostir í boði þegar kemur að tegundum húsnæðislána. Það er staðreynd að endurgreiðsla óverðtryggðra lána fyrstu árin eftir töku lánsins er talsvert þung á meðan höfuðstóllinn er hár. Af þeim sökum er hér lagt til að menn geti nýtt hluta úttektarinnar, á fyrsta ári reyndar alla úttektina en síðan lækkandi hlutfall í tíu ár, til þess að létta sér greiðslubyrðina af slíkum lánum. Með þessu er ekki verið að segja að það eigi að taka slík lán en þau eru orðin raunhæfari valkostur og menn þurfa að horfa til langs tíma þegar þeir gera upp á milli þessara lánsforma. Ef við mundum t.d. lenda í 8% verðbólgu þrjú ár í röð mundu menn lenda í miklum vandræðum við endurgreiðslu á slíku láni þrátt fyrir heimildina til að taka út séreignarsparnaðinn, borið saman við verðtryggt jafngreiðslulán sem mundi ekki kalla fram áhrif verðbólgunnar í greiðslubyrðinni jafn hratt og óverðtryggða lánið.

Þetta eru atriði sem fjármálafyrirtækin í landinu, lánveitendur, lífeyrissjóðir, þurfa að fara mjög vel yfir hverju sinni með hverjum og einum lántakanda, en það er alveg skýrt að með því að þessi heimild er færð inn í lögin eru óverðtryggðu lánin orðin miklu skýrari og raunhæfari valkostur fyrir þá sem sérstaklega hafa verið að horfa til þess að borga í hverjum mánuði vexti, sem í tilfelli óverðtryggðu lánanna taka mið af verðbólgustiginu í landinu, og höfuðstólsgreiðslur. Þeir sem vilja greiða höfuðstólinn og vextina strax eiga betur þann valkost núna, lækka þá lánið snemma. Takist þetta vel munu menn njóta góðs af því síðar með því að greiðslubyrðin verður mun léttari en á við í verðtryggða jafngreiðsluláninu vegna þess að þar hafa menn geymt sér að borga hluta af því sem fellur til í hverjum mánuði í upphafinu en borga þeim mun meira síðar. Hið sama má segja með höfuðstólinn, hann fer lækkandi jafnt og þétt í óverðtryggða láninu en þar er, eins og ég hef verið að reyna að rekja hér, auðvitað alltaf spurningin: Ráða menn við endurgreiðslubyrðina framan af lántökutímabilinu?

Ég tel skynsamlegt að opna fyrir þennan valkost, þetta er valkostur, hann stendur mönnum frjáls og það verður fróðlegt að sjá hvaða áhrif hann mun mögulega hafa á lántökur á markaðnum. Það er síðan í öðru frumvarpi sem við ræðum nánar um verðtrygginguna og vexti og þær breytingar sem við sjáum fyrir okkur að sé rétt að gera á því lagaumhverfi. Ég ætla þess vegna að láta staðar numið hér, virðulegi forseti, og legg til að málinu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar og til 2. umr. að lokinni þessari.