145. löggjafarþing — 135. fundur,  18. ág. 2016.

fjármálastefna 2017--2021.

741. mál
[14:25]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það er tvennt sem hefur legið fyrir þinginu í þessu efni, annars vegar stefnan, fjármálastefnan, hvert skal stefna varðandi heildarafkomuna og skuldaþróunina bæði fyrir ríki og sveitarfélög. Mér finnst nokkuð dapurlegt ef þingið getur ekki komið sér saman um það, ekki einu sinni um þessi meginmarkmið. En þó er hér að ég tel meiri hluti fyrir því hvert skuli stefna vegna þess að þarna eru undir gríðarlega miklir hagsmunir.

Síðan er það hvernig við ætlum að skipta svigrúminu sem verður til staðar á hverju ári í langtímaáætluninni. Það er eðlilegt að menn takist á um það, ég geri ekki ágreining um það. Mér finnst rökin hins vegar frekar haldlítil verð ég að segja fyrir minn smekk. Hér erum við að leggja upp með áætlun þar sem afkoma verður af ríkisrekstrinum upp á 25–35 milljarða á ári, samt boða menn skattahækkanir. Við erum að tala um 10% útgjaldavöxt yfir tímabilið á frumgjöldunum en samt boða menn aukin útgjöld. Mér finnst þetta (Forseti hringir.) léttvægur málflutningur, harla lítils virði og verð (Forseti hringir.) að segja: Hérna ættu menn að tala af meiri ábyrgð (Forseti hringir.) og í skattamálum, tala skýrt. (Forseti hringir.) Hvaða skatta á að hækka?