145. löggjafarþing — 135. fundur,  18. ág. 2016.

stuðningur til kaupa á fyrstu íbúð.

818. mál
[15:02]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Það er bæði krefjandi og á ákveðinn hátt heiður að koma á eftir samtali núverandi og fyrrverandi fjármálaráðherra um mjög mikilvæga hluti og túlkun sögunnar. Ég ætla ekkert að fjölyrða um mína afstöðu í þeim efnum nema það að ég held að með sameiginlegu átaki margra stjórnmálamanna, mjög margra embættismanna og fólksins í landinu hafi tekist að reisa efnahagslífið úr fordæmalausum aðstæðum í kjölfar hrunsins.

Um þetta mál vil ég fyrst segja að mér finnst vera kominn pólitískur losarabragur á það hvað á almennt að gera við þennan séreignarsparnað. Það var gripið til þess neyðarúrræðis í eftirleik hrunsins að fólk mátti taka út séreignarsparnaðinn í þeim aðstæðum sem þá voru, þær voru mjög erfiðar. Síðan var kannski erfitt að hverfa frá því. Síðan var farið í það sem hluta af skuldaniðurfellingarpakka ríkisstjórnarinnar að bjóða upp á þetta úrræði. Ég held að lærdómurinn af þessu sé almennt sá að það þurfi að fara að ræða í víðara samhengi og almennt og með tilheyrandi greiningum hvað við ætlum að gera við þennan séreignarsparnað.

Ég er alveg opinn fyrir því, að því gefnu að almenna lífeyrissjóðakerfið sé gott og hægt að treysta á það, að þessi séreignarsparnaðarhluti sé hafður þannig að meira frelsi sé leyfilegt í ráðstöfun hans meðal þeirra sem fara þá leiðina. Það má alveg ímynda sér að beita viðvarandi skattalegum hvötum til framtíðar til þess að fólk noti séreignarsparnaðarhlutann í heimilisbókhaldi sínu til að setja í aðra tegund af sparnaði sem húsnæði getur vissulega verið eða fjárfestingar í nýsköpun eða eitthvað slíkt. Ég vildi bara segja í upphafi að mér finnst þurfa að ræða það á grundvelli greiningar, á grundvelli framtíðarhagsmuna þjóðarbúsins, á grundvelli þess hvaða efnahagslega hvata er skynsamlegt að efla og er þá mögulega hægt að nota þennan þátt lífeyriskerfisins til með einhverju móti. Hér erum við að ræða tiltekna aðgerð þar sem á að veita fyrstu íbúðar kaupendum, sem eru aðallega ungt fólk, leyfi til að taka út séreignarsparnaðinn skattfrjálsan og veita inn á höfuðstól og afborganir lána á tíu ára tímabili. Þá verð ég að segja að mér finnst lyktin af þessu súr og einkum og sér í lagi í samhengi við aðra hluti sem ríkisstjórnin hefur gert á kjörtímabilinu. Það er ekki lengra síðan en í gær að við ræddum hér hlut sem mér finnst koma svolítið einkennilega inn í þessa heildarmynd alla, lánasjóðsfrumvarpið. Og hver er þessi heildarmynd? Jú, það er svolítið mikið, mjög mikið, einkennilega mikið, verið að hjálpa þeim sem eiga mikið, það er verið að umbuna þeim sem hafa mikið á milli handanna, hafa það a.m.k. þokkalegt. Ég held að það sé nokkuð augljóst að hér er að koma fram ákveðinn og umhugsunarverður og athyglisverður hugmyndafræðilegur ágreiningur um það hvernig við eigum að nota ríkisvaldið og hvaða hvata við viljum skapa í efnahagslífinu. Þessi ríkisstjórn, hægri stjórn, telur það greinilega til farsældar fallið að reyna að umbuna þeim mest sem hafa hvað mestar tekjur og reyna að skapa þannig hvata að fólk leiti í það að reyna að hafa sem mestar tekjur. Ég ætla að fara aðeins yfir þetta.

Leiðréttingin var þessu marki brennd, hin svokallaða skuldaleiðrétting. Hún var þannig að þeir sem skulduðu mest, þeir sem áttu mest, þeir sem höfðu keypt stærstu eignirnar, þeir fengu mest. Það var ekkert verið að horfa í aurinn þar. Þessu var bara deilt út, jafnvel til fólks sem hefði vel getað bjargað sér á þeim tekjum sem það hafði. Það var ekkert horft á tekjurnar. Þessum peningum var bara útdeilt. Við í Bjartri framtíð kölluðum þetta bruðl. Það var einfaldlega verið að veita pening úr ríkissjóði til fólks sem þurfti þess ekki, bara svo það sé sagt.

Það var farið í að hækka virðisaukaskatt á mat. Matvæli eru eitthvað sem allir þurfa að kaupa, hvort sem þeir eru tekjulágir eða tekjuháir. Í umræðu um það mál var farið ágætlega yfir að það kæmi illa niður á efnalitlu fólki.

Það er skorið niður til vaxtabóta sem eiga að hjálpa þeim sem eru að reyna að kljúfa óheyrilega háa vexti á Íslandi og reyna að kaupa sér hús. Þær eru tekjutengdar.

Það má ræða afnám skattþrepa sem eru tæki í tekjuskattskerfinu til að reyna að jafna tekjur fólks þannig að það kemur inn í þessa heildarmynd.

Svo er lánasjóðsfrumvarpið sem við vorum að ræða hérna í gær og ég minntist á áðan. Þar er afnumin tekjutenging á afborgunum námslána sem mun hafa þau áhrif að í framtíðinni mun fólk reyna að fara í nám þar sem það getur vænst hárra tekna. Nám er með öðrum orðum gert jafn dýrt fyrir alla samkvæmt frumvarpi um námslán og námsstyrki. Alls staðar þar sem hlutir eru jafn dýrir fyrir alla — húsnæðislán eru það og bílar líka, efnaminna fólk kaupir minni bíl, ódýrari bíl, efnameira fólk kaupir stærri bíl vegna þess að það hefur efni á því. Hið sama mun væntanlega gerast með námslán og nám. Efnalítið fólk, fólk sem sér ekki fram á miklar framtíðartekjur, mun mennta sig lítið og fólk sem sér fram á miklar framtíðartekjur hefur ekki áhyggjur af því, það mun geta menntað sig mikið. Það er verið að umbuna því fólki.

Með þessu frumvarpi kemur enn eitt púsluspilið inn í þetta, að fólk sem getur vænst mikilla tekna, hefur miklar tekjur sem er væntanlega sama fólkið sem hefur þá líka menntað sig mikið vegna þess að það hefur efni á því, fær hæsta styrkinn samkvæmt þessu. Þetta er tekjutengt í þá áttina að séreignarsparnaðurinn eykst eftir því sem maður er með hærri tekjur. Þetta er enn eitt púsluspilið inn í þá greinilega hugsuðu hugmyndafræði að það eigi að umbuna þeim mest sem afla mests.

Er það rétt stefna? Mér finnst við þurfa að ræða það vegna þess að þetta er svona, það er verið að þessu á svo mörgum sviðum. Stærstu aðgerðir þessarar ríkisstjórnar í skuldamálum og núna varðandi námslánakerfið og í húsnæðismálum eru þessu merki brenndar. Þeir sem afla mests fá mest. Er það skynsamlegt?

Ég vil nefna þrjár ástæður fyrir því að ég tel það ekki skynsamlegt. Í fyrsta lagi finnst mér það ómanneskjulegt. Mér finnst að þeir sem hafa minnst eigi að fá meira en þeir sem hafa mest. Mér finnst jöfnuður í samfélagi einfaldlega manneskjulegur. Við eigum að reyna að brúa bilið milli hópa í samfélaginu. Af þessum húmanísku rökum finnst mér þetta vond stefna og ómanneskjuleg. Svo finnst mér hún óskynsamleg líka. Með allri þessari heildarmynd er verið að beina ungu fólki sem er að ákveða í hvaða áttir það á að fara í lífinu með öllum þeim hvötum sem eru tiltækir sem stjórnmálamönnum í þá átt að reyna að finna sér störf sem borga mikið. Þá fær maður mestan séreignarsparnaðinn útgreiddan skattfrjálsan, þá verða námslánin hlutfallslega ekki jafn mikil byrði og þar fram eftir götunum. Er þetta skynsamlegt fyrir þjóðfélagið? Nei, þetta skapar einsleitni. Við eigum alltaf að hafa ríkt ráðrúm í okkar þjóðfélagslega skipulagi til að fólk geti líka valið sér lífsviðurværi óháð peningum. Við þurfum sérvitringa, listamenn, vísindamenn, hina og þessa sem velja sér fög af áhuga og langar til að geta komið sér þaki yfir höfuðið á sama tíma þótt það fólk geti ekki endilega vænst beinharðs árangurs í formi tekna. Það nær kannski öðrum árangri. Bara út frá því hvort það sé þjóðhagslega skynsamlegt að hvetja til svona mikillar einsleitni, hvetja til svona mikillar ásækni í tekjuhá störf, finnst mér það óskynsamleg stefna.

Svo er þetta bruðl með opinbert fé. Leiðréttingin svokallaða var því marki brennd að hún deildi stórum fjármunum til fólks sem var komið á beinu brautina, mundi ég segja, í sinni skuldastöðu, átti stórar eignir sem hafa bara vaxið í verði síðan og hafði góðar tekjur. Peningum svo milljörðum skipti úr ríkissjóði var varið þangað.

Í þessari aðgerð á að gera slíkt hið sama. Ég hefði gaman af að heyra þá greiningu sem segir að það fólk sem er efst í þakinu, er í hámarkinu hvað varðar útgreiðslu úr séreignarsparnaði og fær mestan skattafsláttinn, eigi í umtalsverðum erfiðleikum við að koma sér upp sparnaði fyrir fyrstu útgreiðslu án aðstoðar. Sá einstaklingur sem er barnlaus, nýkominn úr námi og með þessar tekjur ætti að geta komið sér upp sparnaði. Hinir sem koma úr námi, eða eru löngu komnir úr námi, burt séð frá því, og hafa litlar tekjur, hafa bara mjög litlar tekjur, fá samkvæmt þessu úrræði mjög lítið. Húsnæðisverð verður ekkert lægra fyrir þann hóp, það er alls staðar það sama. Þeir geta keypt sér, ég veit það ekki, herbergi einhvers staðar. Það er mjög lítið sem láglaunafólk fær úr séreignarsparnaði.

Er þessi aðgerð ekki svona? Þeir sem fá, þeir þurfa ekki. Þeir sem þurfa, þeir fá ekki. Þetta er sóun. Þetta er óskynsamlegt. Þetta er bruðl. Svona á ekki að eyða skattfé. Svona á ekki að verja peningum úr sameiginlegum sjóðum. Svona hvata á ekki að skapa. Það er ekki bara verið að gera það með þessu frumvarpi heldur á svo ótal mörgum öðrum sviðum. Efnahagsstefna ríkisstjórnarinnar, samfélagsleg stefna þessarar ríkisstjórnar, snýst öll um það að færa þeim sem þurfa ekki og svo er ekkert eða lítið fyrir þá sem þurfa.

Nema þá eitt, á eftir munum við ræða frumvarp til laga um vexti og verðtryggingu. Þar kemur fram hvað láglaunafólkið fær, það fær rétt til þess að taka verðtryggð lán til 40 ára. (Gripið fram í: Sem það hefur.) Já, sem það hefur. Ef það frumvarp verður samþykkt verður réttur til að taka verðtryggð lán til 40 ára bundinn við þann hóp sem hefur lægst laun þannig að hann fær þó eitthvað. Það er svolítið magnað hvað hann fær, hann fær rétt til að taka eitthvert umdeildasta lánsform heimsbyggðarinnar, hin svokölluðu Íslandslán, verðtryggð til 40 ára, þannig að ríkisstjórnin hefur ekki alveg gleymt þessum hópi.

Hver er þörfin á aðgerð sem þessari? Ég er búinn að rekja að mér finnst verulegir hugmyndafræðilegir, efnahagslegir og þjóðhagslegir annmarkar á þeirri hugsun sem liggur til grundvallar. Mér finnst við eiga að reyna að hafa einhvern snefil af jöfnuði í þessu, reyna að hjálpa þeim sem hafa það einhverra hluta vegna verra, en hafa kannski minni áhyggjur af þeim sem hafa það mjög gott. Við ættum að reyna að stuðla að því að þeir geti áfram haft það gott og auðvitað reyna að hafa skattkerfið og alla efnahagsstefnuna ekki þannig að hún sé of íþyngjandi fyrir þá sem hafa það gott en í öllu falli beina sjónum að þeim sem hafa það vont. Þeir fá ekkert sérstaklega mikið út úr þessum aðgerðum.

Svo er þetta með þörfina og tímasetninguna. Það var þannig með skuldaleiðréttinguna á sínum tíma, niðurfellingu skulda, þar sem ríkisstjórnin ákvað einfaldlega að borga hluta af höfuðstól lána hvers sem er, aðallega fólks sem átti mikið, að skuldahlutfallið hafði þegar lækkað mjög mikið í þjóðfélaginu. Það var svolítið áberandi að hæstv. fjármálaráðherra flutti af því tilefni ræður þar sem hann benti á að skuldahlutfallið í þjóðarbúinu væri komið undir 100%, en maður þurfti að benda hæstv. ráðherra á að skuldaleiðréttingin hafði þá ekki komið til framkvæmda. Öll þróunin var í þessa átt hvort sem var. Mér finnst vanta algjörlega í þessu máli einhverja greiningu á því hver staðan er akkúrat núna og til hvaða annarra úrræða á að grípa. Það er augljóst að það þarf að auka framboð af litlum (Forseti hringir.) íbúðum. Það þarf að efla leigumarkaðinn. Síðast en ekki síst þarf að ná niður vöxtum. Þeir eru 7,8% á Íslandi og 0,8% í Þýskalandi. Það er stóra vandamálið. (Forseti hringir.) Mér finnst við alltaf vera að grípa til einhverra skottulækninga.