145. löggjafarþing — 135. fundur,  18. ág. 2016.

vextir og verðtrygging.

817. mál
[16:29]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka svarið. Ég geri mér alveg grein fyrir því hvers vegna er verið að bjóða upp á þessi verðtryggðu lán því að ég er með eitt svoleiðis. Ég get alveg sagt hæstv. fjármálaráðherra að ef ég hefði ekki haft aðgang að þessu verðtryggða láni væri ég búinn að missa húsið mitt. Ég hefði misst það þegar gjaldmiðillinn hrundi með pompi og pragt fyrir nokkrum árum. Ég hefði engan veginn getað staðið í skilum af óverðtryggðum lánum. Venjulegt verkafólk eða fólk í lægri þrepum samfélagsins í dag getur það eiginlega ekki. Ég skora þess vegna á hæstv. fjármálaráðherra að beita sér frekar fyrir því að við tökum upp aðra mynt á Íslandi vegna þess að það virðist alveg ljóst eftir 100 ára sögu krónunnar að hún virkar ekki hér. Ég held að það langgæfulegasta sem við mundum gera sem þjóð væri að taka upp annan gjaldmiðil, hvernig sem við svo sem förum að því, ég veit ekki alveg um það. Ég hef reyndar talað mjög fyrir því að við færum inn í Evrópusambandið. Ég held að það væri mjög jákvætt skref fyrir okkur, ekki síst í ljósi þess að stærstu fyrirtæki landsins nota evru, borga fólkinu sínu óverðtryggða (Forseti hringir.) krónu sem borgar svo verðtryggðar skuldir.