145. löggjafarþing — 136. fundur,  19. ág. 2016.

störf þingsins.

[10:41]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Þegar vandamál eru misskilin og þróun samfélagsins misskilin er hætt við því að fólk fari að beita röngum aðferðum við að reyna að laga þau. Eitt slíkt dæmi er vímuefnavandinn sem var misskilinn á sínum tíma og reynt var að berjast gegn með lögregluvaldi. Það hefur mistekist í gegnum tíðina eins og frægt er orðið. Annað slíkt vandamál að mínu mati er baráttan gegn svokölluðu ólöglegu niðurhali eða höfundaréttarbrotum, sérstaklega á netinu. Það er nefnilega mikill misskilningur að það sé einungis ólöglegt niðurhal sem sé ógn við möguleika höfunda og rétthafa á því að fá tekjur af sinni vinnu. Það er líka löglegt niðurhal, lögleg dreifing efnis, svo sem á Youtube, Spotify og Netflix. Þetta eru löglegar leiðir, hægt er að skoða og fá slíkt efni löglega, ýmist gegn gjaldi eða ekki. Maður borgar t.d. ekki fyrir að hlusta á tónlist á Youtube þegar höfundurinn sjálfur setur það á Youtube og krefst einskis gjalds af neytandanum sjálfum. Hann fær kannski auglýsingatekjur eða eitthvað því um líkt. Það er almennt minna en fólk fær af sölu geisladiska en geisladiskarnir koma ekki aftur, það þýðir ekkert að segja við ána að fara frá sjó og aftur upp í fjall. Það virkar ekki þannig. (Gripið fram í.) Nútíminn er kominn og framtíðin mun koma. Það þýðir að tækniframfarirnar sem verða í upplýsingatækninni munu áfram hafa mjög víðtæk áhrif á það hvernig þessir markaðir þróast.

Jafnvel þótt við gleymum algjörlega svokölluðu ólöglegu niðurhali stendur eftir samt sem áður að þetta er markaður sem er að breytast mjög hratt og það er mikilvægt að löggjafinn átti sig á því hvaða aðferðir geta virkað og hvað getur ekki virkað. Eitt af því sem getur ekki virkað án þess að ganga mjög verulega inn á friðhelgi fólks og frelsi er að ætla að sporna gegn ólöglegu niðurhali með því að fylgjast með hlutum á netinu og með því að fara út í þær aðferðir eins og t.d. eru kynntar í drögum starfshóps til innanríkisráðuneytisins. Að loka vefsíðum eins og var gert við deildu.net mun ekki ná þessum árangri án þess að ganga inn á frelsi og friðhelgi fólks. Sem betur fer virkar þetta ekki og þess vegna höldum við enn þá frelsinu og þannig mun það áfram vera. Mér finnst mikilvægt að við höfum í huga að þegar kemur að (Forseti hringir.) þessum málaflokki eru það líka löglegu leiðirnar sem löggjafinn þarf að hafa í huga við baráttuna gegn hugsanlega neikvæðum afleiðingum tækniframfara.


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna