145. löggjafarþing — 136. fundur,  19. ág. 2016.

störf þingsins.

[10:53]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Þá er fyrstu viku þessa sumarþings senn að ljúka og ekki laust við að ýmsar vangaveltur um störf þingsins leiti á hugann. Hæstv. ríkisstjórn hamraði á því eða hefur hamrað á því allt frá því í vor að klára þurfi fjölmörg mikilvæg mál áður en hægt yrði fyrst að tilkynna kjördag og svo að boða til kosninga. Nú erum við búin að fá að sjá á nokkur þessara mála og í raun bara ótrúlegt að sjá og upplifa hversu vanbúin þau eru til þinglegrar meðferðar.

Þannig er að greiningarvinnu við hvert málið á eftir öðru er algjörlega ábótavant eins og hefur verið dregið fram í umræðu um þessi mál hér í þingsal þar sem hver hv. þingmaðurinn á fætur öðrum hefur bent á alls konar hluti sem vantar hreinlega inn í pappírana frá hæstv. ríkisstjórn. Að sama skapi er alger skortur á yfirsýn um samspil málanna sem hér er verið að leggja fram. Í einu málinu er verið að leggja til að draga úr verðtryggingu lána. Þegar við hins vegar ræðum um Lánasjóð íslenskra námsmanna og námslánakerfið er hins vegar verið að leggja til að halda verðtryggingunni inni en hækka jafnframt vexti á þá sem þurfa að taka lán. Svo það er algjörlega ómögulegt að sjá hvert hæstv. ríkisstjórn vill stefna með frumvörpum (Forseti hringir.) sínum. Ég sé ekki annað en þetta sé hreinlega búið. Það virðist ekki nokkur maður (Forseti hringir.) vita hvert framhaldið eigi að vera eða til hvers við í rauninni ætlum að toga samfélagið með vinnu (Forseti hringir.) okkar hér þessa dagana.