145. löggjafarþing — 136. fundur,  19. ág. 2016.

störf þingsins.

[11:00]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf):

Herra forseti. Nú í vikunni fylgdist ég í svolitla stund með hópi ungmenna sem er að hefja framhaldsskólanám og heyrði samtal þeirra. Það var mjög gaman að horfa á þau og hlusta því þau voru svo glaðvær og eftirvæntingin í röddum þeirra og svip var svo skemmtileg og uppörvandi. Eftir á fór ég að hugsa um hve mikla ábyrgð við sem eldri erum og hefur auk þess verið treyst til að setja lög og stjórna landinu eins og stundum er sagt berum á því að þessi ungmenni fái tækifæri til þess að lifa hamingjuríku lífi. Það á auðvitað að vera okkar mikilvægasta markmið og leiðarljós alla daga að haga störfum okkar þannig að þessi ungmenni fá öll tækifæri til að njóta sín eins og áhugamál og hæfileikar hvers og eins standa til. Jöfn tækifæri án mismununar og óþarfa hindrana. Erum við ekki örugglega að gera það? Er nokkur hætta á að við séum að láta sérhagsmuni einstakra hópa hafa of mikil áhrif á umræður okkar og ákvarðanir? Tryggjum við börnum og ungmennum í þessu landi jöfn tækifæri til að mennta sig og skapa framtíð sína í samræmi við vilja sinn og getu? Eða fá sum börn og ungmenni fá og lítil tækifæri vegna bágs efnahags eða félagslegra aðstæðna sinna eða vegna fötlunar og skerðinga sem við mætum ekki með viðeigandi stuðningi? Því miður er ekki nokkur vafi á því. Tölurnar tala sínu máli.

Í skýrslu UNICEF um stöðu barna á Íslandi sem birt var í febrúar síðastliðnum kom fram að gera má ráð fyrir að rúmlega 6.000 börn líði efnislegan skort hér á landi og af þeim þola tæplega 1.600 börn verulegan skort.

Herra forseti. Það líður senn að kosningum. Börn og ungmenni í þessu landi þurfa nauðsynlega að fá ríkisstjórn sem forgangsraðar í þeirra þágu, ríkisstjórn jafnra tækifæra.