145. löggjafarþing — 136. fundur,  19. ág. 2016.

Umhverfisstofnun.

674. mál
[12:02]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir framsöguna. Hér er um að ræða frumvarp til heildarlaga um Umhverfisstofnun á grundvelli vinnu sem hefur staðið yfir um allnokkurt skeið. Ég held að það hljóti að teljast fagnaðarefni að hér skuli vera komið að þessum punkti í þeim leiðangri. En mig langar að staldra aðallega við þær ábendingar sem ræddar eru í kaflanum um samráð og koma frá Landvernd. Landvernd gerir þá athugasemd í vinnuferlinu að hún telji að það sé langt frá því að frumvarpsdrögin leysi þann vanda sem hafi lengi steðjað að stjórnsýslu umhverfismála og hún telur að þetta frumvarp muni ekki bæta úr þeirri gagnrýni sem hefur verið viðvarandi um allnokkurt skeið. Í þessum texta kemur fram að þar sem helstu ábendingar Landverndar fjalli ekki um atriði sem varða efni frumvarpsins hafi ekki verið gerðar breytingar á drögunum en ráðuneytið muni taka ábendingar samtakanna til skoðunar í tengslum við aðra vinnu ráðuneytisins á sviði náttúruverndar.

Ég spyr þess vegna hæstv. ráðherra: Hvaða vinna er það sem stendur yfir á sviði náttúruverndar í ráðuneytinu núna og er þar með tekið tillit til þessara ábendinga Landverndar?