145. löggjafarþing — 137. fundur,  22. ág. 2016.

endurgreiðsla tannlæknakostnaðar til aldraðra.

[15:26]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessa fyrirspurn. Það er skoðun mín einnig, og deili henni með hv. þingmanni, að þetta er afar óheppileg staða og ekki viðunandi. Skýringarnar á því hvers vegna svona er komið eru örugglega ótalmargar. Sú reglugerð sem vitnað er til var sett 13. maí árið 2013. Sú breyting sem hún kvað á um var ófjármögnuð. Frá því ári lá einnig fyrir samningur við tannlækna um tannlæknakostnað barna upp að 18 ára aldri. Sá samningur var einnig ófjármagnaður. Það svigrúm sem við höfðum við heilbrigðisútgjöldin var nýtt til þess að fjármagna númer eitt útgjöldin vegna barnatannlækninganna. Síðan hef ég lagt ofuráherslu á það að reyna að draga úr greiðsluþátttöku almennings í íslenska heilbrigðiskerfinu og sem betur fer var gríðarleg samstaða um það mál hér í þingsal á vormánuðum. Við byrjuðum í vor að lokinni þeirri lagasetningu um greiðsluþátttökuna, breytingarnar á henni, að fá útreikninga m.a. á þessari reglugerð með það í huga að gera tillögur til þingsins um hækkaða kostnaðarhlutdeild ríkisins. Við erum því með það í undirbúningi en eins og ég vil ítreka þá voru hin tvö málin sett í forgang.