145. löggjafarþing — 137. fundur,  22. ág. 2016.

málefni lánsveðshóps.

[15:30]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég ætla að gera tilraun, kannski lokatilraun má segja á þessu kjörtímabili, til þess að inna hæstv. fjármálaráðherra eftir því hvort eitthvað standi til eða hafi verið aðhafst varðandi málefni svonefnds lánsveðshóps. Hæstv. ríkisstjórn hefur gumað mikið af ýmsum afrekum sínum í sambandi við húsnæðismál og örlæti sínu við að lækka skuldir en þessi hópur hefur legið óbættur hjá garði nema að því litla leyti sem hann kann hafa fengið einhverjar niðurfærslur í stóru niðurfærslunni. Þetta er jú þannig að margir gripu til þess ráðs á árunum fyrir hrunið á spenntum fasteignamarkaði að kaupa sér íbúð, gjarnan fyrstu íbúð, með aðstoð ættingja eða vina og fengu hjá þeim lánað veð til þess að ráða við og fjármagna íbúðarkaupin. Lán þessa fólks ruku að sjálfsögðu upp eins og annarra og ekki var óalgengt að sjá veðsetningarhlutföll upp á 140–160% af íbúð skuldarans ef lánin í heild, það sem var með veði í íbúð viðkomandi og hið lánaða veð, voru lögð saman. En vegna ábyrgðanna eða veðanna fengu þessir aðilar ekki úrlausn, t.d. í gegnum 110%-leiðina, og mönnum var ljóst að leita þyrfti sérstakra leiða til þess að rétta þeirra hlut ef ekki væri meiningin að þetta fólk sæti áfram í bullandi yfirveðsetningu um árabil.

Eftir mikið þóf náðust samningar við lífeyrissjóðina á öndverðu ári 2013 sem ekki náðist að klára afgreiðslu á fyrir kosningar og núverandi hæstv. ríkisstjórn tók þar af leiðandi við. Ég margspurði eftir þessu og við fluttum um þetta frumvörp á fyrri hluta kjörtímabilsins en svörin voru jafnan loðin og yfirleitt vísað í að þessir hópar eins og fleiri yrðu skoðaðir síðar, leigjendur og aðrir slíkir sem ekki fengu far í fyrstu umferðum hjá hæstv. ríkisstjórn. Nú fer ekki að verða seinna vænna ef hæstv. ríkisstjórn ætlar þá ekki bara að segja okkur hér og þessu fólki, sem enn skiptir hundruðum, jafnvel þúsundum, sem er í þessari stöðu, að það verði ekkert frekar átt við þeirra mál. Það fer að verða heiðarlegra en að láta þetta damla svona. (Forseti hringir.) Ég vil spyrja hæstv. fjármálaráðherra hvort þetta hafi eitthvað verið á borðum ríkisstjórnarinnar, hvort eitthvað sé af þessu að frétta.