145. löggjafarþing — 138. fundur,  23. ág. 2016.

þjóðaröryggisráð.

784. mál
[14:31]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Ég átti þess ekki kost að vera staddur á fundi utanríkismálanefndar þegar þetta mál var rætt millum umræðna. Ég vil hins vegar lýsa yfir stuðningi við þá niðurstöðu sem hv. formaður nefndarinnar, Hanna Birna Kristjánsdóttir, lýsti hér áðan. Auðvitað er það svo að menn geta haft misjafnar skoðanir á því hvernig ráðið eigi að vera samsett án þess endilega að falla frá stuðningi við málið. Menn hafa í umræðum um málið haft og lýst mismunandi viðhorfum til þess hvernig og hverjir eigi að sitja í ráðinu.

Mér þótti þess vegna miður að jafn ágætur þingmaður og hv. þm. Þorsteinn Sæmundsson skyldi ekki treysta sér til þess að styðja það við afgreiðsluna við 2. umr. og vil segja að ég lýsi fullum stuðningi við þetta mál. Ég er þeirrar skoðunar að öll meðferð málsins frá upphafi til enda sé dæmi um það hvernig Alþingi á að taka á mikilvægum málum sem snerta hagsmuni, djúpa hagsmuni, íslenska ríkisins. Þetta mál hefur tekið langan tíma. Það hófst þegar ég var utanríkisráðherra og setti af stað ákveðna vinnu í kjölfar þess að Alþingi samþykkti frá mér þingsályktunartillögu um þjóðaröryggisstefnu. Það voru ákveðnir hnökrar á lúkningu málsins. Það var eftirmaður minn, hæstv. núverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra Gunnar Bragi Sveinsson, sem heflaði niður þær misfellur sem höfðu orðið. Síðan er það núverandi hæstv. utanríkisráðherra Lilja Alfreðsdóttir sem siglir þessu máli í höfn. Hér er hugsanlega um að ræða eina af mikilvægustu stefnumótun sem Alþingi hefur samþykkt á seinni tímum. Hún lætur lítið yfir sér en hún varðar dýpstu öryggishagsmuni íslenska ríkisins.

Það er tvennt sem ég vil sérstaklega vekja eftirtekt á varðandi aðkomu þingsins að málinu. Í fyrsta lagi að þingið gaf sér góðan tíma. Það má segja að þetta hafi spannað tíð þriggja ríkisstjórna. Þegar um er að ræða mál sem er svona mikilvægt þá er það fullkomlega verjanlegt að Alþingi Íslendinga gefi sér ríkulegan tíma til þess að fjalla vel um það.

Í öðru lagi finnst mér það vera eftirbreytnivert og mikilvægt hversu menn hafa reynt að teygja sig til þess að ná samstöðu um þetta mál. Þegar þjóðaröryggisstefnan var samþykkt þá var enginn sem greiddi atkvæði gegn henni. Það var reyndar enginn sem greiddi atkvæði gegn því þingmáli sem við ræðum nú þegar það kom til 2. umr. Þetta er mjög mikilvægt. Þetta er eftirbreytnivert. Það er á þennan hátt sem Alþingi Íslendinga á að vinna mál af þessum toga. Það er mjög mikilvægt þegar verið er að móta stefnu af þessu tagi sem varðar mikla hagsmuni og sem er sérstaklega skoðuð í þaula af öðrum þjóðum að þá birtist rík samstaða á Alþingi Íslendinga um það sem hægt er að kalla grundvallarhagsmuni.

Þetta vil ég segja í lok ferils þessa máls og þakka öllum þeim sem að því hafa komið, ekki síst þeim tveimur ráðherrum sem ég nefndi áðan og hv. formanni utanríkismálanefndar, sem vissulega teygði sig líka langt, og ýmsum þeim sem í nefndinni sátu. Það er mikilvægt þegar upp er staðið að menn geri það sem þeir geta til þess að ná sem allra víðtækastri samstöðu um málaflokk sem er jafn mikilvægur og þessi og sem, eins og ég sagði áðan, snertir hina dýpstu öryggishagsmuni þjóðarinnar, bæði inn á við en líka út á við.