145. löggjafarþing — 138. fundur,  23. ág. 2016.

stjórn fiskveiða.

795. mál
[14:59]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Eins og fram hefur komið hjá samflokksmönnum mínum, hv. 1. flutningsmanni tillögunnar, Oddnýju G. Harðardóttur, og Össuri Skarphéðinssyni, er þetta mjög mikilsvert mál og skiptir miklu fyrst tækifæri gefst til þess þegar kvótaaukning verður væntanlega tilkynnt að sá kvóti verði boðinn upp og við getum tekið lítið skref í því að bjóða fisk upp á markaði, fisk sem á eftir að veiða, aflaheimildir, og sjá hvað útgerðin er tilbúin að greiða mikið fyrir aflann.

Kvartað er mikið yfir því og hefur oft verið sagt að við í Samfylkingunni höfum ekki komið stefnu okkar í fiskveiðistjórnarmálum fram á síðasta kjörtímabili. Það er vissulega alveg rétt vegna þess að stefna okkar í fiskveiðistjórnarmálum er sú að verð á aflaheimildum verði ákveðið á markaði. Til þess höfðum við ekki þingmeirihluta á síðasta ári. Þess vegna komum við því ekki fram.

En ekki má gleyma að við náðum því fram í samstarfi við samstarfsflokk okkar í ríkisstjórninni að veiðigjöld voru sett á. Það voru veiðigjöld sem námu einhverju, ef ég man rétt voru það 13 eða 14 milljarðar sem veiðigjöldin voru árið 2012/2013. Nú er hins vegar búið að lækka þau alls um 9 milljarða á þessu kjörtímabili. Það er náttúrlega munur á því að setja löggjöf um það að veiðiheimildir séu boðnar upp á markaði eða setja með lögum að veiðigjöld séu sett á og síðan eru þau reiknuð á hinn og þennan mátann og síðan getur þingið, þingnefnd, lagt það til að nú verði þau lækkuð, heldur en að hafa það kerfi einfaldlega að veiðiheimildirnar séu boðnar upp á markaði. Þá gerist meira, það gerist að útgerðin sjálf getur ákveðið hvaða verð hún er tilbúin til að greiða fyrir aflaheimildirnar. Þetta skiptir náttúrlega gífurlegu máli. Það kemur síðan í ljós þegar nágrannar okkar og frændur í Færeyjum fara að bjóða upp aflaheimildir sínar — og ég verð að segja eins og er að mér finnst það svolítið skemmtilegt að nú eru Færeyingar að koma hingað til lands til að segja okkur frá því hvernig þeir bjóða upp aflaheimildir en fyrir einhverjum árum komu stjórnmálamenn frá Færeyjum hingað til að læra af okkur, kynna sér stefnu Samfylkingarinnar og tala við sérfræðinga sem við höfðum leitað til og eru okkar helstu fræðimenn í því hvernig ákveða á verð á markaði. Nú ætla Færeyingar sem lærðu hjá okkur að koma hingað og segja okkur hvernig megi gera þetta. Þetta er svolítið eins og þegar eggið fer að kenna hænunni.

En það er náttúrlega vegna þess að hér hefur verið andstaða við þetta og hún er fyrst og síðast vegna þeirra gífurlegu sérhagsmuna sem stjórnmálaflokkar sumir hafa af því að hið óbreytta veiðikerfi haldi áfram og það haldi áfram að verða svo sem verið hefur, að auðlindarentan renni í vasa útgerðarmannanna í stað þess að renna til samfélagsins. Og síðan, eins og komið hefur fram í skýrslum og úttektum, borga þessir útgerðarmenn í sjóði stjórnmálaflokkanna sem gæta hagsmuna þeirra fyrst og síðast hér á Alþingi. Allt er þetta á kostnað þjóðarinnar, samfélagsins og þess velferðarþjóðfélags sem við getum og eigum kost á að byggja upp.

Það er rétt og hefur komið fram áður að kvótakerfinu var komið á fyrst og síðast til að vernda fiskinn í sjónum. Hann var ofveiddur. Hér var skipaflotinn allt of stór. Eins og virðulegur forseti veit er ég ekki fædd í gær. Það vill nú þannig til að ég vann í sjávarútvegsráðuneytinu þegar var verið að reikna út fyrst hvernig væri mögulega hægt að skipta kvótanum á skip. Þá var aflinn að hrynja. Fyrst hafði þorskaflinn verið, minnir mig, nálægt 600 þús. tonnum, svo fór hann niður í 400 þús. tonn og síðan erum við góð núna ef við erum að ná honum upp í 220–260 þús. tonn aftur. Markmiðið þá var að minnka sóknina í aflann, þannig að færri skip færu á veiðar, vegna þess að sóknin í aflann var allt of dýr. Í fyrsta lagi var of mikið veitt. Gengið var of mikið á stofninn. Síðan var kostnaðurinn, það var allt of mikil fjárfesting í skipum og kostnaðurinn við að veiða þennan afla var allt of mikill.

Síðan fer það að gerast miklu síðar eða nokkrum árum síðar að menn eru komnir með skip og með kvóta og svo fara þeir jafnvel að selja skipin sín og þá eiga þeir eftir kvóta og fara að leigja mönnum út kvóta. Þá verður þessi gífurlega eigna- og tekjutilfærsla í þjóðfélaginu. Menn fara að hagnast beinlínis á því, ekki bara á eðlilegan hátt að veiða fiskinn og selja í land, heldur líka að selja öðrum heimildir eða leigja öðrum heimildir til að veiða þann fisk. Ég man að ég og kunningi minn einn deildum mikið um þetta. Ég sagði að kvótakerfið væri algerlega ómögulegt og meinti það vegna þeirra miklu áhrifa sem það hafði á eignaskiptinguna og tekjuskiptinguna í þjóðfélaginu. Hann var hins vegar náttúrufræðingur eða líffræðingur og var þeirrar skoðunar að kvótakerfið hefði reynst mjög vel af því að það hefði verndað fiskstofnana og hægt væri að byggja þá upp aftur og þar fram eftir götunum. Það er alveg rétt. Það hefur gagnast vel að því leytinu til. Hitt er óþolandi.

Svo er fleira óþolandi við kvótakerfið eins og að ekki skuli vera boðið upp á markaði og engin nýliðun er í greininni, nema menn séu óskaplega ríkir og geti keypt sér skip. Þeir sem vilja byrja smátt og lítið komast ekki að. Þess vegna má segja út af fyrir sig að það sé ekki atvinnufrelsi þegar kemur að sjávarútveginum sem hefur verið okkar grunnatvinnuvegur til þessa og verður enn um sinn þó að fleiri munu vonandi bætast í þann hóp, enda man ég ekki eftir öðru en að það hafi alltaf verið talið nauðsynlegt hér á landi að efla stoðirnar undir atvinnulífinu í landinu. Vonandi tekst okkur það. En sjávarútvegurinn verður samt sem áður alltaf ein af þeim grunnstoðum.

Vissulega hafa strandveiðarnar komið inn og menn hafa getað veitt þar þótt þeir eigi ekki kvóta. Það er jú hægt. En ég held að það þurfi að endurskoða þetta allt og við þurfum að ná því fram að aflaheimildirnar verði seldar á markaði. Svo eru ýmsar aðferðir sem má nota við það. En það er næsta skref. Fyrst þarf að fá það í gegn að sú verði meginreglan að aflaheimildir verði seldar á markaði, það verði einhver hluti, þ.e. einhver fyrning, ef þannig má að orði komast, einhver hluti af því sem nú er til fari í nýliðun í atvinnugreininni. Það er nauðsynlegt. Þetta er stórt skref á leið í því að eyða ósættinu sem er í samfélaginu og stafar af þeirri gífurlegu misskiptingu auðs og tekna sem er í þessu litla landi, hún ergir fólk, það skilur hana ekki, vill ekki hafa hana. Við þurfum að breyta slíku þjóðfélagi. Ég er viss um að sú tillaga sem hérna liggur frammi, þar sem við erum að taka lítið skref í átt að þessari miklu breytingu sem er nauðsynleg til að stóra plágan sem er misskipting auðs og það að þjóðarkökunni er vitlaust skipt, að henni verði útrýmt. Þetta þurfum við að gera. Þetta er verkefnið. Ég vona sannarlega og geri kröfu til þess að við komumst í síðari umræðu um málið fyrir 2. september þegar þingi á að ljúka hér. En ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta og hef lokið máli mínu.