145. löggjafarþing — 138. fundur,  23. ág. 2016.

stefnumörkun og aðgerðaáætlun um kolefnishlutlaust Ísland árið 2050.

353. mál
[15:47]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Já, mig langaði einmitt að víkja aðeins nánar að þessum opinberu tölum. Í svari til mín sem vísað er til í fyrirliggjandi þingsályktunartillögu kemur einmitt fram að losun frá framræstu landi á Íslandi er margfalt meiri en öll önnur losun sem fellur undir Kyoto-bókhaldið. Ég gagnrýni svolítið framsetninguna á þessari tilvísun til svarsins til mín sem er á þskj. 215 frá þessu þingi. Mér finnst það ekki alveg nógu skýrt. Þær tölur liggja fyrir að af heildarlosun á Íslandi stafi 72% frá framræstu landi. Losun frá t.d. bifreiðum nemur einungis 4% og losun frá sjávarútvegi einungis 3%. Í þessu ljósi hefur mér einmitt fundist menn einblína of mikið á aðgerðir gegn samgöngum á landi þegar menn vilja draga úr losun koltvísýrings.

Eins og hv. þingmaður bendir réttilega á hafa stjórnvöld gengist undir skuldbindingar um að draga úr losun á Íslandi, um 40% ef ég man rétt. Hv. þingmaður nefndi að hlutfallið þyrfti mögulega að vera 55%. Látum það liggja á milli hluta en sammælumst um að draga úr losun.

Jafnvel þótt þessi þingsályktunartillaga fjalli ekki um tilteknar aðgerðir langar mig að spyrja hv. þingmann hvort það skipti ekki máli þegar ráðist er í aðgerðir til að draga úr losuninni hvaðan þessi losun stafar. Það væri fróðlegt að heyra skoðun hv. þingmanns á því hvar helst mætti draga úr losun koltvísýrings miðað við þær tölur sem liggja nú fyrir (Forseti hringir.) frá umhverfisráðherra og hafa notið velvildar í Landbúnaðarháskóla Íslands. Loftslagsnefnd Sameinuðu þjóðanna hefur líka kvittað undir og viðurkennt að það megi draga úr losun koltvísýrings á Íslandi og að Ísland muni þar með standa undir sínum skuldbindingum með því að endurheimta votlendi.