145. löggjafarþing — 138. fundur,  23. ág. 2016.

stefnumörkun og aðgerðaáætlun um kolefnishlutlaust Ísland árið 2050.

353. mál
[16:04]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Umhverfismál eru mér ofarlega í huga. Að mínu mati vantar upplýsingar um áhrifin, eins og ég fór yfir í máli mínu, af hinum ýmsu málum sem við tökum á dagskrá og afgreiðum á Alþingi. Það eru auðvitað fleiri mál en bara þau sem viðkoma tollum. Það mátti greina, fannst mér, í máli hv. þingmanns ákveðinn undirtón um það að ég væri hreinlega á móti verslunarfrelsi. Svo er alls ekki. Ég tel hins vegar mjög mikilvægt að þegar kemur að því að taka ákvarðanir eigi að hafa miklu fleiri kríteríur undir en eingöngu verslunarfrelsið. Eitt af stóru málunum er umhverfisáhrifin af því sem við tökum ákvarðanir um. Það má í rauninni nefna fleiri þætti sem ég held að við ættum alltaf að hafa í huga og hafa sem eitt af þeim atriðum sem við notum sem mælikvarða á þingmálin. Við getum t.d. litið á þær aðstæður sem vörur eru framleiddar við, ekki aðeins í umhverfislegu tilliti heldur einnig með tilliti til þess við hvaða aðstæður fólk sem vinnur við að framleiða vörur starfar. Ég tel að við þurfum að hafa góðar greiningar á umhverfisáhrifunum af þeim málum sem við erum með til umræðu vegna þess að það er að mínu mati ein af stóru breytunum sem við þurfum að hafa í huga (Forseti hringir.) þegar við gerum upp hug okkar og ákveðum hvort við ætlum að styðja eða hafna einhverjum tilteknum málum.