145. löggjafarþing — 138. fundur,  23. ág. 2016.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

827. mál
[16:49]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni fyrir svör hans og ég skil hann þá þannig rétt að hann hafi ekki dæmi um að talsmenn Framsóknarflokksins hafi í aðdraganda kosninga gefið fyrirheit um slíka þjóðaratkvæðagreiðslu, enda var það hrein stefna okkar og um það rætt í kosningabaráttu okkar að láta ekki tala okkur inn á það að lofa slíkri þjóðaratkvæðagreiðslu. Við erum óbundin af slíkum loforðum og hafa því engin slík loforð verið svikin. Enginn sem kaus Framsóknarflokkinn átti von á því að við mundum standa fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu, það er mikilvægt að hafa í huga.

Ég vil líka spyrja hv. þingmann hvort hann telji Evrópusambandið tilbúið að taka upp þráðinn. Það er ekki nóg að ég hafi bent á það að þjóðin sjálf hafi ekki áhuga á aðild. Einnig hefur komið fram hjá Juncker að hann telji alls ekki tímabært að halda áfram með stækkun sambandsins, alla vega ekki fyrr en árið 2019. Mér þætti ákaflega fróðlegt að vita hvort hv. þingmaður hafi einhverjar heimildir fyrir því að Evrópusambandið óski eftir því að halda áfram viðræðum. Það þarf nú tvo til að halda áfram slíkum viðræðum sem rak í strand hérna eins og hv. þingmanni er kunnugt um áður en gengið var til kosninga 2013. Þær voru strandaðar. Það hafði ekki náðst að klára nema 11 af 33 köflum og ekki búið að opna kaflann um sjávarútveg og landbúnaðarmál. Íslenskir samningamenn voru ekki tilbúnir að gefa afslátt af þeim fyrirvörum sem gerðir voru á íslenska þinginu. Hvernig er hægt að halda áfram með viðræður sem hafa strandað, hvað sem kemur út úr þessu í þjóðaratkvæðagreiðslu? Verði niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar jöfn, 50:50, helmingurinn vill halda áfram viðræðum, hinn helmingurinn vill það ekki, eru þá þingmenn bundnir af svo óljósri leiðsögu eða eru þeir bundnir af sannfæringu sinni?