145. löggjafarþing — 140. fundur,  25. ág. 2016.

uppboðsleið í stað veiðigjalda.

[11:55]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessa umræðu og ég þakka málshefjanda, hv. þm. Oddnýju G. Harðardóttur. Ég er sammála henni í öllum meginatriðum. Hún hélt mjög góða ræðu og skýrði vel sjónarmiðin. Við í Bjartri framtíð höfum líka talað fyrir uppboði á aflaheimildum. Það er góð hugmynd. Þetta er gagnsætt ferli þar sem heiðarleg verðmyndun kemur fram. Ég þekki það af setu minni í atvinnuveganefnd Alþingis að það er óttalegt bix að finna út úr því hvaða verð sé sanngjarnt, og við stjórnmálamenn tökum þátt í því, þ.e. hvaða þorskígildi séu sanngjörn hverju sinni og hvaða álögur eigi að leggja. Þess vegna eru þessa sífelldu deilur.

Þegar fólk sér að veiðigjöld á næsta ári eru um 4 milljarðar sér fólk auðvitað að þetta er ekki nógu gott og að þetta getur illa gengið svona. Meira að segja kvótaeigendur og útgerðarmenn segja manni að þeir gætu, sumir hverjir, borgað mun meira.

Við í Bjartri framtíð lögðum til uppboð á makrílheimildum á síðasta ári. Þar var kvóti sem ekki hafði verið úthlutað og við lögðum til að hluta þess kvóta yrði komið á uppboð. Hér hefur verið nefnt að það þurfi að mæta byggðasjónarmiðum. Öll þau stýritæki sem við höfum hingað til kynnst sem eiga að stýra og efla byggðir í tengslum við sjávarútveg hafa reynst mistök. Það er sífellt verið að færa til og selja kvóta þannig að byggðum úti um allt svíður. (Forseti hringir.) Við því hefur ekki verið fundið neitt ráð. Ég er sammála formanni Samfylkingarinnar um að við eigum að færa peninginn inn í byggðirnar í gegnum þessi uppboð og fólkið þar getur þá sjálft ákveðið hvað það gerir við þann pening. Það getur t.d. ákveðið að vinna við eitthvað annað en sjávarútveg.