145. löggjafarþing — 142. fundur,  30. ág. 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[20:02]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S):

Virðulegur forseti. Mér finnst rétt að segja nokkur orð um þetta frumvarp sem er til umfjöllunar eins og lagt er til að það muni liggja fyrir að lokinni skoðun hæstv. atvinnuveganefndar, en það liggja fyrir nokkur álit úr þeirri nefnd. Ég mun aðeins víkja að áliti meiri hluta nefndarinnar.

Mér finnst rétt að halda því til haga, af því að ég hef sjálf orðið vör við það þegar ég ræði við menn utan þinghúss um þessa samninga, að það gætir örlítils misskilnings um aðkomu þingsins að sjálfum búvörusamningunum. Það er þannig, eins og menn í þessum þingsal þekkja, að þingið sjálft hefur enga beina aðkomu að gerð búvörusamninganna. Hins vegar liggur fyrir að nú hafa verið undirritaðir samningar. Ríkisstjórnin hefur undirritað samninga við ýmis samtök bænda um búvörusamninga til langs tíma, en að sjálfsögðu með fyrirvara um aðkomu þingsins að því er lýtur að þeim lagabreytingum sem nauðsynlegar eru til þess að þeir samningar nái fram að ganga. Ég vildi árétta þetta í upphafi af því ég veit að margir sem fylgjast með umræðunni átta sig ekki á því, í öllu falli hef ég orðið vör við að smámisskilnings gæti í þjóðfélaginu hvað þetta varðar.

Það liggur fyrir í fyrsta lagi rammasamningur til langs tíma sem markar einhverja stefnu, að þessu sinni til tíu ára, og svo liggja fyrir þrír samningar. Það liggja fyrir samningar um starfsskilyrði garðyrkjuframleiðenda og það liggur líka fyrir samningur um starfsskilyrði í sauðfjárrækt og samningur um nautgriparækt. Ég ætla í sjálfu sér ekki að fjalla um tæknileg atriði þessara samninga en vil nefna örfá atriði sem ég hef velt vöngum yfir.

Það er rétt að hafa í huga í þessari umræðu að allir samningarnir þrír gera ráð fyrir beinum styrkjum til þessara starfsstétta upp á 13,5 milljarða á ári næstu tíu árin, til og frá einhverjar 100 milljónir. Þetta er veruleg fjárhæð. Til þess að setja það í samhengi við eitthvað er þetta sama fjárhæð og Háskóla Íslands er ætluð í allan sinn rekstur. Bara rekstur Landspítalans er upp á 50 milljarða á ári. Þetta eru sem sagt 13,5 milljarðar.

Það sem sló mig þegar ég fór að lesa samningana sjálfa og ef ég tek til að mynda samninginn um nautgriparækt er að þar gert ráð fyrir í fyrsta sinn, a.m.k. að því leyti eins og það er sett fram núna, sérstökum stuðningi til nautakjötsframleiðslu. Þetta kom mér svolítið spánskt fyrir sjónir vegna þess að ég veit ekki betur en nautakjötsframleiðsla standi mjög styrkum fótum hér á landi. Ég hef rætt við nautakjötsframleiðendur sem segja að þeir anni ekki eftirspurn og menn þekkja það. Hér hefur auðvitað orðið gríðarleg aukning í eftirspurn á matvælum almennt á Íslandi með verulegri fjölgun ferðamanna sem hingað koma. Í öllu falli hefur nautakjötsframleiðsla ekki staðið á neinum brauðfótum hingað til, hefði ég haldið. Þetta fannst mér orka tvímælis, sérstaklega í samningnum um nautgriparæktina.

Þá fannst mér líka orka mjög tvímælis sú fyrirætlan að breyta tollalögum á þann hátt að magntollum á mjólkur- og undanrennudufti eða fjárhæð þeirra verði færð til sama raunverðs og ársins 1995, þ.e. lagt er til að þessi fjárhæð á tollunum verði verðtryggð með afturvirkum hætti og ekki nokkur ár aftur í tímann heldur til ársins 1995. Það finnst mér orka mjög tvímælis, sérstaklega í ljósi þess að árið 1995 þegar samningar voru gerðir um þessa magntolla og um fjárhæð þeirra var það skilningur allra samningsaðila að magntollarnir ættu að fjara út með tímanum, þess vegna var ekki samið um neina verðtryggingu á þeim á sínum tíma. Mér finnst því skjóta skökku við að ný stjórnvöld komi árið 2016 og ætli að verðtryggja þessa fjárhæð aftur í tímann. Það kemur mjög á óvart að framsóknarmenn, sem hafa verðtrygginguna á hornum sér, skuli berjast fyrir verðtryggingu á þessu sviði.

Þess ber að geta að meiri hluti atvinnuveganefndar hefur fjallað sérstaklega um þetta mál og komist að niðurstöðu. Mér sýnist blasa við að meiri hluti nefndarinnar hefur komist að þeirri niðurstöðu að þessi fyrirætlan gangi hreinlega ekki upp og þess vegna hefur meiri hlutinn komið með breytingartillögu. Mér finnst sú breytingartillaga í rauninni ekki bæta málið nokkurn hlut, nema síður sé, vegna þess að meiri hluti leggur til að falla frá því að verðtryggja með vísan til neysluvísitölu og leggur til þá breytingu að hækkunin skuli taka mið af þróun gengis fremur en verðlagsvísitölu og fylgja þróun gengis héðan í frá. Það er ekki nóg með að menn séu á móti verðtryggingunni, eins og ég hef nefnt, heldur hafa þessir sömu menn verið sérstaklega á móti gengistryggingu. Menn hafa barist gegn gengistryggingu á ýmsum vígstöðvum með kjafti og klóm, hv. þingmenn og hæstv. ráðherrar sumir hverjir. En allt í einu dúkkar hún upp í lögum um búvörusamninga, gengistrygging, og það afturvirk. Við það geri ég verulega athugasemd.

Hvað varðar síðan samning um sauðfjárrækt ætla ég ekki að fara út í tæknileg atriði um greiðslumark en mér sýnist verið að hræra einhvern veginn í því kerfi. Það blasir við og ég set við það nokkurn fyrirvara að mér finnst alls kyns aðilum vera falin völd og nokkuð víðtæk. Byggðastofnun er falinn svæðisbundinn stuðningur, Landssamtök sauðfjárbænda fá víðtæk völd í útdeilingum á einhverju fé og jafnvel Matvælastofnun er falið að deila út jarðræktarstyrkjum. Ég geld varhuga við þess háttar framsali á svo miklum völdum.

Í þessum samningi, og eins í hinum tveimur reyndar, er síðan kveðið á um verðlagsuppfærslu, þ.e. að þau árlegu framlög sem ég nefndi að væru 13,5 milljarðar tækju ætíð breytingum í samræmi við verðlagsuppfærslu fjárlaga og meðaltalsvísitölu neysluverðs. Það er kannski eins og hefur verið um þessa samninga við bændur og ég veit ekki til þess að hæstv. atvinnuveganefnd hafi fjallað sérstaklega um þetta atriði, vegna þess að vilji menn eða hafi menn einhvern áhuga á að draga aðeins úr þessum framlögum ríkisins, þessum beinu framlögum ríkisins, er auðvitað ein leið að sleppa því að verðtryggja þau á þennan hátt.

Að því sögðu hins vegar er ég ekki að tala fyrir því að allir styrkir til landbúnaðarins verði lagðir af í einu vetfangi. Ég geri mér alveg grein fyrir því að það er ekki einu sinni raunhæft að tala um að það verði til langs tíma, þótt það sé hins vegar að mínu mati mjög raunhæft að ræða það og ráðast í það verkefni að draga að einhverju leyti úr þessum styrkjum.

Hitt er svo að styrkur við landbúnaðinn er með tvennum hætti. Hann er með þeim hætti sem við erum að ræða um í þessu máli, þ.e. 13,5 milljarðar sem eru bein framlög til bænda, en styrkurinn er líka óbeinn. Hann er óbeinn og það er óbeinn styrkur sem erfitt er að meta til fjár, en það ætti þó að vera hægt. Ég hefði viljað sjá umfjöllun um það hjá nefndinni hversu hár þessi óbeini styrkur er, en óbeini styrkurinn er tollverndin á landbúnaðarafurðum sem eru hér. (Gripið fram í: 7 milljarðar.) 7 milljarðar er kallað úr sal. Ég veit ekki hvort einhver býður betur. En gefum okkur að það sé fjárhæðin. Það er gríðarleg fjárhæð. Mér hugnast ekki ríkisstyrktur iðnaður eða ríkisstyrkt starfsemi á þann veg að hún fari fram á bak við tjöldin með ógagnsæjum hætti. Vilji menn styrkja bændur um 7 milljarða, sem hinn óbeini styrkur er sem felst í tollverndinni og innflutningshöftum á landbúnaðarafurðum, þá eiga menn að setja þá fjárhæð með beinum hætti, bæta henni við þessa 13,5 milljarða, ef menn vilja gera það. En sá styrkur sem skattgreiðendur leggja til landbúnaðarins verður að vera uppi á borði og gagnsær.

Annað atriði sem ég geri athugasemd við er 13. gr. frumvarpsins þar sem er breyting á 30. gr. núverandi búvörulaga um búvörusamninga en sú grein veitir ríkisstjórn heimild til þess að semja við forsvarsmenn bænda eða Bændasamtök Íslands um þessa styrki. Í dag tímabindur 30. gr. þessa heimild. Hún setur heimildinni ákveðnar skorður. Hún kveður nefnilega á um að samningar skuli gerðir fyrir 1. ágúst ár hvert og gilda næsta verðlagsár. Sú breyting sem þetta frumvarp sem við erum að fjalla um felur í sér leiðir til þess að það er engin tímalengd á þessari heimild ríkisstjórnarinnar. Það er kannski vegna þess að þeir samningar sem undirritaðir hafa verið eiga að gilda í tíu ár. Það finnst mér, virðulegur forseti, allt of langur tími, þ.e. ef ekki er gert ráð fyrir einhverjum grundvallarbreytingum á þessu ríkisstyrkjakerfi á þeim tíma.

Því er haldið fram að þetta sé í rauninni ekki tíu ára samningur af því hann verði endurskoðaður, af því að kveðið á um endurskoðun að einhverju leyti eftir þrjú ár. Þá spyr ég, virðulegur forseti: Af hverju er þá ekki samningurinn til þriggja ára? Hvers lags samningur er það til tíu ára sem raknar upp eftir þrjú ár? Slíkur samningur heitir samningur til þriggja ára. Þá eiga menn bara að segja það. Ég geld varhuga við því að í lögum sé ríkisstjórn heimilt að gera jafnvel 20 ára samning við bændur, 30 ára samning, og skuldbinda ríkissjóð til svo langs tíma. Menn verða að setja því einhverjar skorður.

Á þessu finnst mér hæstv. atvinnuveganefnd ekki hafa tekið að öðru leyti en því að hún áréttar að einhver endurskoðun fari fram og hún leggur til að til grundvallar þeim samningum eða við stefnumótunina verði ákveðin atriði höfð uppi. En þetta er bara nefndarálit, nefndarálit hv. atvinnuveganefndar. Þetta er ekki sett í lög. Vilji menn og meini menn eitthvað með þessari endurskoðun og vilji þeir kveða á um það hvernig hún eigi að fara fram og hvaða forsendur eigi að vera að baki henni þá verða þeir að setja hana í lög, vegna þess að nefndarálit, þótt það sé frá hv. atvinnuveganefnd, bindur hvorki kóng né prest í þessum efnum.

Ég vil hins vegar taka fram að ég fagna því að hv. atvinnuveganefnd leggur til að 43. gr. frumvarpsins falli brott. Með 43. gr. frumvarpsins er lagt til að ákvæðið sem undanþiggur landbúnaðinn eða mjólkurframleiðendur samkeppnislögum verði víkkað út, þ.e. 43. gr. leggur til breytingu á 71. gr. núgildandi laga sem segir svo:

„Þrátt fyrir ákvæði samkeppnislaga er afurðastöðvum í mjólkuriðnaði heimilt að sameinast, gera með sér samkomulag um verkaskiptingu milli mjólkursamlaga að því er varðar framleiðslu einstakra mjólkurvara og hafa með sér annars konar samstarf til þess að halda niðri kostnaði við framleiðslu, geymslu og dreifingu mjólkurafurða.“

Nú liggur fyrir ákvörðun samkeppnisyfirvalda sem fjallar töluvert um samspil sérlaga og samkeppnislaga, þ.e. laga um búvörusamninga í þessu tilviki. Í þeirri ákvörðun komust samkeppnisyfirvöld að þeirri niðurstöðu að 71. gr. núgildandi laga væri ekki nægilega skýr, þannig að í frumvarpinu sem liggur fyrir þinginu var verið að reyna að gera einhvern reka að því að skýra þetta betur, þ.e. festa þessa undanþágu frá samkeppnislögum meira í sessi. Ég fagna því svo sem að meiri hluti nefndarinnar falli frá því, en það breytir því ekki að eftir stendur 71. gr. eins og hún er núna, sem undanþiggur afurðastöðvar í mjólkuriðnaði frá samkeppnislögum. Þeirri spurningu er ekki svarað hvernig menn ætla að leysa það. Nú fer þessi ákvörðun samkeppnisyfirvalda, sem er nr. 19/2016, væntanlega fyrir dómstóla. Ég ætla ekki að tjá mig um mögulega niðurstöðu í því en það liggur fyrir að lagaheimildin sem undanþiggur mjólkuriðnaðinn frá samkeppnislögum er til staðar. Ég sakna þess að hæstv. atvinnuveganefnd hafi ekki fjallað um þetta sérstaklega.

Virðulegi forseti. Að lokum vil ég nefna að í nefndarálitinu er fjallað um tollkvótana og tollvernd. Nefndin hefur fjallað um það sérstaklega og leggur til að tollkvótar fyrir upprunamerktan ost frá Evrópusambandinu samkvæmt tollasamningi verði ekki boðnir út með sama hætti og aðrir kvótar. Hér leggur nefndin til einhvers konar úthlutun með hlutkesti. Mér finnst nánast óboðlegt að nefndin skuli ekki útskýra nánar hvað upprunamerktir ostar eru. Af hverju er ekki bara listi yfir þessa osta? Og það er ekki gerð nein tilraun til þess að greina áhrif af þessari tillögu, einhvers konar fyrir og eftir greining sem hefði verið upplagt að fá í umræðuna.

Þá er hérna, sem ég var nú búin að nefna en árétta, þessi vísitölubreytingu til 1995 sem mér finnst ekki ganga.

Ég vil að lokum mótmæla því sem fram kemur í nefndaráliti meiri hluta hv. atvinnuveganefndar þar sem segir að mikilvægt sé að litið sé á framangreindar tillögur, þ.e. tillögur varðandi tollkvótann og tollverndina, í samhengi við það að fyrirhugað er að staðfesta samning sem undirritaður hefur verið við Evrópusambandið um tollalausan innflutning á tilteknum landbúnaðarvörum. Ég sé ekki að þessi mál tengist á nokkurn hátt. Það er búið að undirrita samning við Evrópusambandið um þessi viðskipti og hann verður auðvitað að fullgilda (Forseti hringir.) hér og framfylgja. Það er ekki hægt að hengja hann við afgreiðslu á þessum búvörusamningum.