145. löggjafarþing — 142. fundur,  30. ág. 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[21:36]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður gat þess undir miðbik ræðu sinnar að hér hefði í dag verið dregið í efa að samþykkt þessa frumvarps stæðist stjórnarskrá. Hv. þingmaður gerði ekki uppskátt um sitt viðhorf til þess. Nú er það þannig að hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir er sennilega helsti sérfræðingur þingsins í stjórnarskrá og hefur lagt mikla alúð í vinnu við breytingar á stjórnarskrá og þess vegna langar mig að spyrja hana frekar út í þetta.

Ég er sem sagt þeirrar skoðunar eftir þessa umræðu, eftir að hafa hlustað á hina ýmsu þingmenn stjórnarliðsins tala, að ekki sé hægt annað en að ganga út frá því að þessi samningur gildi í tíu ár. Það er sömuleiðis stutt skoðun samningaréttarfræðings sem kom til fundar við eina af fagnefndum þingsins. Þá blasir við að mér finnst að með samþykkt frumvarpsins sé falið alveg verulega mikið framsal á valdi frá Alþingi til samtaka utan þinghússins, þ.e. til Bændasamtakanna. Ég fæ ekki betur séð en að að þessu frumvarpi samþykktu sé ekki hægt fyrir Alþingi að samþykkja breytingar á búvörulögum nema að hafa samþykki Bændasamtakanna. Sömuleiðis sýnist mér líka að ekki sé hægt fyrir Ísland og íslensku ríkisstjórnina að gera sérstaka viðskiptasamninga sem fela í sér tollalækkanir á innfluttum landbúnaðarvörum nema með samþykki Bændasamtakanna.

Ég leyfi mér að efast um það sjálfur að þetta standist stjórnarskrá. Mig langar að spyrja hv. þingmann, einmitt út af hennar sérþekkingu á stjórnarskránni, hvað henni finnst um það.