145. löggjafarþing — 142. fundur,  30. ág. 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[22:23]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Nú er töluvert langt liðið kvölds og ég sakna þess að ýmsir þeir hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins sem létu gamminn geysa í dag og voru býsna gagnrýnir á þetta frumvarp láti sjá sig hér þannig að hægt sé að mæla til þeirra. Ég hef sitthvað við ræður þeirra að athuga og þá samkvæmni sem í þeim birtist. En það gleður mig þó eigi að síður að sjá hér fyrrverandi formann Lögmannafélagsins brosandi í salnum. Hann gleður okkur alltaf með nærveru sinni og hvössum tilsvörum og ég er ekki í nokkrum vafa um að hann mun líka taka þátt í umræðunni þegar líður á kvöldið og hugsanlega nóttina.

Ég er einn af þeim sem telja að gera þurfi vel við bændur. Þó að ég sé gagnrýninn á þennan samning þýðir það ekki að ég vilji ekki styðja íslenskan landbúnað. Ég vil gera það. Alls staðar í löndunum í kringum okkur er stuðningurinn frá ríkisvaldinu töluvert meiri en hér eða slagar alla vega upp í það í mörgum löndum. Ég tel að íslenskur landbúnaður hafi mikla möguleika. En eitt af því sem hefur bagað hann og haldið honum niðri er að þeir forustumenn sem tala fyrir hann, einkum í þessum sölum, einkum talsmenn Framsóknarflokksins, hafa aldrei séð til sólar hin seinni ár. (ÞorS: Hvaða vitleysa.) Hvaða vitleysa, segir hv. þm. Þorsteinn Sæmundsson, sem byrjaði sinn feril sem partur af þingflokki Framsóknar, sem lýsti því hér yfir, og það var partur af stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar og var komið þar inn af hálfu Framsóknarflokksins, að gera ætti úttekt á möguleikum íslensks landbúnaðar. Ég hef beðið eftir þeirri úttekt allt þetta kjörtímabil. Hún er ekki enn komin. Þar átti að kortleggja þá möguleika sem íslenskur landbúnaður hefði m.a. með tilliti til mannfjöldaþróunar í heiminum þar sem ljóst er að brauðfæða þarf milljarða til viðbótar á næstu áratugum, sömuleiðis með tilliti til þeirra hreinleikastöðu sem við getum sagt að hann sé í, og sérstöðu sem er tiltölulega lítið tæpt á í hinu upphaflega frumvarpi en kemur að vísu miklu skýrar fram í nefndarálitinu.

En áður en hv. þm. Þorsteinn Sæmundsson truflaði mig var ég að segja að varla hefði séð til sólar af hálfu forustumanna Framsóknarflokksins fyrir hönd íslensks landbúnaðar um margra ára skeið. Ég vil bara segja það hér alveg skýrt að frá því að okkar góði félagi Guðni Ágústsson var landbúnaðarráðherra hefur enginn talað af hálfu Framsóknarflokksins um landbúnað og möguleika hans með sama þrótti og geislandi lífsgleði og Guðni Ágústsson gerði á sínum tíma og gerir enn. Það er bara nauðsynlegt að það komi hér fram. Það er dálítið skrýtið að það skuli vera þingmenn úr Vinstri hreyfingunni – grænu framboði og landbúnaðarvæng Alþýðuflokksins sem einkum verða til þess hér í þessum sölum að lyfta þeim möguleikum sem íslenskur landbúnaður hefur, hugsanlega með þeirri undantekningu sem felst í hinum góða hv. þingmanni Þorsteini Sæmundssyni. En mér hefur fundist skorta á þetta.

Ég beið eftir því að núverandi hæstv. forsætisráðherra, sem árum saman, næstum því þrjú ár, gegndi hér embætti landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra, legði fram stefnumörkun þessarar ríkisstjórnar um það hvernig byggja ætti landbúnaðinn upp. Ég tel fyrir mitt leyti að ég hafi lagt gjörva hönd að því verki. Ég hóf þann samning sem verður ræddur hér þegar þessu máli slotar, þ.e. tollasamninginn milli Íslands og ESB, sem skapar stórkostleg færi fyrir íslenskan landbúnað. Það vill líka svo til, bara til þess að rifja það upp, að ég gerði fríverslunarsamning milli Íslands og Kína sem bókstaflega sviptir burt öllum tollmúrum fyrir íslenskan landbúnað gagnvart Kína. Maður spyr sig jafnframt: Hvað hefur hæstv. utanríkisráðherra framsóknarflokksins gert til þess að spenna þar upp gátt sem þá var opnuð? Það hefur ekkert gerst í því. Sá ágæti maður lagðist bara í frakt og hefur verið þar meira og minna síðan þó að vísu hafi hann drepið niður fæti í nýju ráðuneyti síðan.

Rétt til þess að rifja það upp fyrir hv. þingmann þá gerði ég líka samninginn við Rússa, sem gerði það að verkum að íslenskar afurðastöðvar gátu þangað til veðrabrigði urðu í utanríkismálum sem leiddu til þess að ekki var hægt að nýta lengur þá möguleika til útflutnings sem þar voru.

Ég er sem sagt þeirrar skoðunar, og það er prinsippafstaða af minni hálfu sem jafnaðarmanns, að íslenska ríkið þarf að leggja peninga með íslenskum landbúnaði en það er ekki sama hvernig það er gert. Hér erum við að tala um alveg gríðarlega miklar upphæðir. Við erum að tala um 200 milljarða á 10 árum, það er mikil upphæð.

Ég kom hér blautur á bak við eyru, græningi, inn á þing 1991. Upp úr því, skömmu síðar, greiddi ég hér atkvæði með búvörusamningi og á þeim tíma, eins og hér hefur verið rifjað upp í dag, var það sem lagt var til íslensks landbúnaðar á þeim tíma nánast 5%. Hér er að vísu sagt 4,5%. Mig minnir að árið 1991 hafi það verið 5% miðað við landsframleiðslu. Alþýðuflokkurinn þá, jafnaðarmenn sem stundum voru taldir frá dögum Gylfa Þ. Gíslasonar hörðustu gagnrýnendur íslensks landbúnaðar, lét sig hafa það og sagði: Gott er að hafa það í huga að hér er um miklar upphæðir að ræða og við munum stefna að því að hækka þær ekki þannig að þær mundu hlutfallslega í takt við aukna landsframleiðslu verða lækkandi hlutfall. Menn hafa staðið við það meira og minna síðan.

Ég bendi líka á það að Samfylkingin undir forustu minni, ekki við mikla gleði allra, studdi samninginn sem Guðni Ágústsson lagði fram og við eyddum hér nóttum í að rökræða, en hún studdi hann, 14 af 16 þingmönnum, bara svo það liggi algjörlega ljóst fyrir að við höfum feril í þessu máli.

Þess vegna get ég talað hér alveg trútt um það og af sannfæringu að við höfum snúist á sveif með þeim sem telja að óhjákvæmilegt sé að styðja íslenskan landbúnað innan hæfilegra marka. Ég get alveg sagt að ég tapa ekki svefni yfir þeirri upphæð sem hér er, en ég mundi gefa vinstri höndina ef ég mætti ráða því hvernig henni væri dreift út. Ég er þeirrar skoðunar að það væri miklu vitlegra með tilliti til þróunar landbúnaðarins að þeim peningum yrði varið t.d. til þess að greiða bændum hreinlega fyrir búsetu og til þess að halda landinu í byggð, til þess að halda því við og til þess að vernda landið. Síðan mættu þeir framleiða það sem þeir vildu á eigin ábyrgð. Það er nú mín skoðun.

Varðandi þennan samning hér er það einfaldlega þannig að ég get ekki stutt hann af ýmsum ástæðum. Í fyrsta lagi er ég þeirrar skoðunar að það sé mjög mikilvægt að landbúnaðurinn hafi, eins og hv. þm. Árni Páll Árnason orðaði það hér, gæða- og markaðslegt aðhald, með öðrum orðum að hann fái aðhald af samkeppni. Það vill nú svo til að þó að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sé ekki beinlínis sterkasti talsmaður samkeppninnar í þessum þingsölum lýsti hann því þó mjög skilmerkilega rétt áðan hvernig samkeppnisaðhaldið hefði frekar leitt til þess að þrótturinn í ylræktinni hefði aukist með þeim hætti sem við höfum orðið sammála um að styrkja hana, eða þannig skildi ég hann. Það er dæmi sem ég held að menn eigi að læra af.

Ég er þeirra skoðunar eins og Samfylkingin, að afnema eigi þá undanþágu frá samkeppnislögum sem mjólkuriðnaðurinn hefur. Það er fyrst og fremst sú undanþága sem leitt hefur til þess að landbúnaðurinn og partar af honum hafa orðið mjög óþægilegt bitbein og hafa sett hann í óþægilegt ljós. Frá öllum sjónarhólum er jákvætt að gera það.

Í öðru lagi er ég þeirrar skoðunar að það sé ósvinna að binda hendur Alþingis núna rétt fyrir kosningar varðandi stórar upphæðir, varðandi stefnumörkun í landbúnaði með þeim hætti að nýtt Alþingi fái ekki tóm til þess að koma að hreinu borði. Allt í lagi. Ég get fallist á það og það mundi skipta mig mjög miklu máli ef það væri í gadda slegið að endurskoðun yrði á næsta kjörtímabili. Með öðrum orðum, ef það væri algjörlega klárt og kvitt að eftir þrjú ár yrði þetta endurskoðað mundi það hjálpa mér mjög mikið vegna þess að ég tel að nú í aðdraganda kosninga sé rétt að klára þetta mál.

Nú hefur hins vegar komið fram að um það leikur mikill vafi. Í fyrsta lagi gerðist það að að frumkvæði Samfylkingarinnar og þess ágæta forseta sem hér situr bak mér var kvaddur til fundar við atvinnumálanefnd sérfræðingur frá Háskólanum í Reykjavík í samningsrétti. Hún sagði það algjörlega skýrt að ef það ætti að vera óbreytanlegt að samningurinn kæmi til endurskoðunar eftir þrjú ár þyrfti að liggja fyrir sameiginleg yfirlýsing fjármálaráðuneytisins og Bændasamtakanna. Hún liggur ekki fyrir. Hugsanlega væri hægt að fara aðra leið sem er þá einfaldlega sú að setja það inn í frumvarpið í gegnum breytingartillögu. Það er ekki gert. Í staðinn er málið þvælt eins og gamall lopi í meirihlutaálitinu og sagt að taka eigi upp einhvers konar þjóðarsamtal til þess að ná fram sátt um stefnu til framtíðar.

Þá má auðvitað spyrja: Hvernig stendur á því að það gerist hér á örfáum dögum, vikum, innan vébanda Alþingis að menn komast að þeirri niðurstöðu? Hvers vegna var það ekki gert í aðdraganda og undirbúningi málsins? Það er ekki hægt annað en gagnálykta með þeim hætti að stjórnvaldið, ríkisstjórnin, hafi ekki staðið sig í stykkinu og Alþingi, meiri hluti nefndarinnar, sé að reyna að lappa upp á hálfkarað verk hennar. Gott og vel. Þeir eiga þökk og virðingu skilda fyrir það.

Ég spyr nú sérstaklega hv. þm. Brynjar Níelsson: Hvers vegna er það þá ekki sett inn í frumvarpið? Ég get alveg svarað spurningunni. Það er vegna þess að Framsóknarflokkurinn vill það ekki. Framsóknarflokkurinn ætlar sér að skapa stöðu þannig að hann geti þvælt þessu máli vegna þess að það liggur fyrir að ef þeim sýnist svo, ef málið er þvælt í þessu samtali þar sem tilteknir aðilar, þar á meðal bændaforustan sem vill líta á þetta sem tíu ára samning, geta þvælst fyrir, þá verður það tíu ára samningur. Það er bara svoleiðis. Ég er þeirrar skoðunar að það stappi mjög nærri því að gera stjórnarskránni miska ef það verður gert.

Bara til þess að rifja það upp fyrir hv. þm. Brynjar Níelssyni, sem hér hefur góðu heilli kvatt sér hljóðs, þá kom hér flokkssystir hans og keppinautur úr prófkjöri, hv. þm. Sigríður Á. Andersen, upp í gagnmerka ræðu. Hún sagði það klárt og kvitt að hún teldi að þetta væri tíu ára samningur. Hún sagði það algjörlega skýrt. Hvað sagði annar flokksbróðir hv. þm. Brynjars Níelssonar, hv. þm. Vilhjálmur Bjarnason? Jú, hann kom hingað í tveimur stuttum ræðum, í þeirri fyrri sagðist hann álíta að þetta væri þriggja ára samningur. Þegar ég gekk á þann góða mann, sem hér er með glöggskyggnustu mönnum, sagði hann að það væri vilyrði um það. Ég spyr hv. þm. Brynjar Níelsson: Er hann sáttur við að í einhverju meirihlutaáliti sé hugsanlegt vilyrði fyrir því að þetta verði til endurskoðunar? Mig langar líka að spyrja hv. þingmann: Hver er afstaða hans til þess hvort í þessu felist um of jafnvel óhóflegt framsal á valdi Alþingis?

Ég hef rakið það hér hvernig merkir stjórnarskrárpælarar, eins og fyrrverandi formaður í þeim flokki sem hv. þm. Brynjar Níelsson situr á þingi fyrir, hafa rakið það að að þessu frumvarpi samþykktu sé líklegt, eða reyndar var því slegið föstu af fyrrverandi formanni Sjálfstæðisflokksins, gæti Alþingi ekki breytt búvörulögum næstu tíu árin nema með samþykki Bændasamtakanna. Hann sló því sömuleiðis föstu að Alþingi ætti í erfiðleikum með að fullgilda erlenda viðskiptasamninga sem varða tolla á innfluttum landbúnaðarafurðum sem gerðir yrðu til viðbótar við þá sem þegar liggja fyrir nema með samþykki Bændasamtakanna. Ég er ekki þeirrar skoðunar að við eigum að framselja slíkt vald.

Við ræddum þetta, ég og hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir, í umræðum yfir þetta púlt fyrr í kvöld. Niðurstaða okkar var að það væri kannski ekki hægt að fullyrða um þetta. En þetta er eitt af því sem skoða þarf í fagnefndinni. Það hefur ekki verið skoðað. Ég geri svo sem ekki neina sérstaka kröfu til þess. Við aðrar kringumstæður hefði ég hugsanlega beitt mínu litla afli til þess að krefjast þess að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd tæki þetta til skoðunar vegna þess að ég er þeirrar skoðunar, og það hefur verið mitt viðhorf, að þegar um er að ræða einhvers konar stöðu sem upp kemur þar sem vera kann að stjórnarskránni sé einhvers konar miski gerður og á því leiki vafi eigi stjórnarskráin að njóta vafans.

Í þriðja lagi er það partur af andstöðu minni eða því að ég get ekki greitt þessum samningi atkvæði mitt við þessar aðstæður að ég tel að stefnumörkunin sem í honum kemur fram sé úrelt og gamaldags. Hún tekur ekki mið af því sem við öll í þessum sölum erum að reyna að ná fram, sem er að reyna að vinna okkur að sameiginlegum markmiðum þjóðanna í loftslagsmálum og umhverfisvernd. Þetta vinnur ekki með því. Það kemur t.d. skýrt fram þegar maður les meirihlutaálitið að minnst er á þetta, en það eru engir tímarammar og engin viðmiðunarmörk sett í þessum efnum. Með öðrum orðum, það er ekki hægt að meta það með hvaða hætti þessi samningur tosar okkar sameiginlega æki í þá átt.

Svo ég komi að öðrum og smærri málum sem varða hið stóra samhengi en skipta mig miklu, þá er það auðvitað sauðfjárræktin. Ég er áhugamaður um sauðfjárrækt á Íslandi. Ég tel að hún skipti mjög miklu máli vegna þess að hún er burðarstoð undir gisnustu byggðirnar eins og í Norðurþingi, í Dölunum og á Ströndum. Ég tel t.d. að byggðarlög eins og það sem mér er mjög umhugað og hef margoft tekið upp hér á þingi síðustu 25 ár, flutt hér tillögur um með öðrum þingmönnum, og beitt mér því til heilla sem byggðamálaráðherra á sínum tíma, Árneshreppur, komi illa út úr þessum sauðfjársamningi. Enginn rakti það betur en hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sem benti á að 70% reglan með hinn innbyggða 10% vatnshalla í málinu yrði aflögð og síðan þá staðreynd að líkast til mundi þessi samningur leiða til þess í mjólkuriðnaði að bændur á smærri búum mundu afleggja núverandi iðju sína en örugglega nýta fjárfestingu sína, húsakost sinn, til þess að taka upp sauðfjárrækt í einhvers konar mæli. Þannig mun þrýstingurinn aukast á að sækja úr hinum sameiginlega potti, eða auka ólympíska sókn í þann pott, eins og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon kallaði það, þannig að hann verður grynnri fyrir þá sem úr honum fá. Mér sýnist, því hefur alla vega ekki verið mótmælt, ég hef viðrað það viðhorf áður í þingsölum en líka í umræðum í andsvörum í dag, að það leiði til þess að bændurnir sem búa á þeim svæðum sem við eigum helst að styrkja, þ.e. gisnustu svæðunum, komi verr út en hinir.

Komið hefur fram í umræðunni að þegar menn réðust í að gera samninginn var ekki nokkur maður af hálfu bændaforustunnar sem fékk sérfræðinga til þess að skoða hvert útfallið yrði, hverjar afleiðingarnar yrðu. Það var ekki fyrr en Samtök sauðfjárbænda sjálfra létu gera það eftir að búið var að gera samninginn, hann var hálfkaraður hið minnsta. Í ljós kom að nákvæmlega þetta var raunin. Í fyrsta lagi má ætla að sauðfjárræktin tapist svona flatt yfir á samningstímanum 19% af því sem hún hefði ella fengið. Mér finnst það ekki gott. Það er grein sem ég vil styðja vegna þess að ég er vinur hinna dreifðu, gisnu byggða. Í öðru lagi var það líka niðurstaða úttektar sauðfjárbændanna sjálfra að þeir sem búa í hinum strjálbýlu byggðum kæmu verr út en hinir. Mér finnst það bara alls ekki gott.

Ég var búinn að drepa á að í samningnum er ekki mörkuð nein sérstök stefna t.d. til þess að styrkja sauðfjárrækt frekar á þessum stöðum, beina henni á svæði á landinu sem eru fjærst gosbeltunum þar sem gróður er sterkari og rótin dýpri, jarðvegurinn meiri. Ég hefði viljað sjá slíka hluti þarna.

Í sjötta lagi, og það sem skiptir ekki minnstu máli, er vitaskuld sú staðreynd að samráðið við gerð þessa samning var nánast ekki neitt. Þessi samningur var fyrst gerður innan reykfylltra herbergja Framsóknarflokksins. Núverandi hæstv. forsætisráðherra, sem þá gegndi öðru embætti, var rekinn til baka með samninginn. Síðan hafa verið alls konar bakherbergjadílar sem þingið hefur ekki fengið að koma að nema þá hugsanlega örfáir handhafar framkvæmdarvalds og stöku þingmenn. En þetta er samningur sem gerður er án þess að bændurnir sjálfir, án þess að neytendur, án þess að við þingmenn höfum fengið að koma að honum í nægilega ríkum mæli. Það finnst mér slæmt. Ég vil bændum allt hið besta. Við þurfum að styrkja þá. Ég mun ekki greiða atkvæði gegn þessum samningi en ég mun hins vegar ekki geta stutt hann af þeim sjö ástæðum sem ég hef talið upp í ræðu minni.