145. löggjafarþing — 142. fundur,  30. ág. 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[23:29]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta atvinnuvn. (Kristján L. Möller) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil í upphafi máls míns þakka hv. þingmanni fyrir að koma hingað í ræðustól og ræða búvörusamninga. Ef ég man rétt er það annar framsóknarmaðurinn sem hefur komið í þessa umræðu (Gripið fram í.) sem hefur verið að mörgu leyti mjög góð, málefnaleg og skipst hefur verið á skoðunum. Það sem fram hefur komið í umræðunni, held ég, er að nánast allir þingmenn vilja veg íslensks landbúnaðar sem mestan, telja það alveg sjálfsagt að veita þurfi í hann styrki, en skiptar skoðanir eru kannski um hvernig á að deila þeim. Ég og hv. þingmaður eigum saman sæti í atvinnuveganefnd ásamt hv. þm. Páli Jóhanni Pálssyni, sem hefur líka talað hér fyrir hönd Framsóknarflokksins. Meiri hlutinn hefur komist að þeirri niðurstöðu að flytja breytingartillögu sem gerir það að verkum að við vinnslu á búvörusamningum framtíðarinnar komi miklu fleiri að, ASÍ, BSRB, Neytendasamtökin og fleiri. Ég er mjög sammála þessari tillögu. Hafði hugsað mér að flytja sjálfur svona tillögu en þess þurfti ekki af því að tillagan er komin fram og hún er góð.

Ég fjallaði í nefndaráliti mínu um þá afleitu stöðu sem Alþingi er sett í, að standa frammi fyrir gjörðum hlut. Við höfum fengið margar góðar tillögur í atvinnuveganefnd sem við höfum ekki getað farið eftir vegna þess að við getum ekki gert neinar breytingar. Þá er spurning mín til þingmannsins sú, sem kemur fram í nefndaráliti og ég skýrði í ræðu minni þegar ég flutti hana: Hvað segir hv. þingmaður um þá hugmynd að ráðherra leggi fyrir Alþingi þingsályktunartillögu um samningsmarkmið ríkisins við gerð búvörusamninga, Alþingi ræði hana í tveimur umræðum, geri eftir atvikum einhverjar breytingar eða geri engar breytingar o.s.frv., og þegar búið er að samþykkja það á Alþingi verði þessi samþykkt að þingsályktunartillögu um stefnu ríkisins, samningagagnið við Bændasamtökin til að ræða málin og komast að niðurstöðu? Það er liður í því að mínu mati (Forseti hringir.) til að skapa meiri sátt um íslenskan landbúnað.