145. löggjafarþing — 143. fundur,  31. ág. 2016.

störf þingsins.

[15:26]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ef maður ætlar að komast eitthvert skiptir ekki bara máli hversu stór skref maður tekur, það skiptir verulegu máli og mestu máli að maður taki þau í rétta átt. Mig langar að fagna nýútkominni skýrslu heilbrigðisráðherra um mótun stefnu til að draga úr skaðlegum afleiðingum og hliðarverkunum vímuefnaneyslu, en hún er komin í kjölfar vinnu starfshóps sem m.a. sá sem hér stendur tók þátt í. Ég fagna því sérstaklega, ekki aðeins að hún sé komin fram heldur að þar hefur tekist að fá alla helstu aðila til að taka skrefin í rétta átt. Það hefur verið gagnrýnt, m.a. af hv. þm. Björt Ólafsdóttur, og af góðri ástæðu að mati þeirra sem eru sammála henni, eins og ég, að þetta sé ekki stórt skref, ekki stórt stökk. Það er rétt. En það er einkenni þess að þetta er hóflegt skref, þetta er yfirvegað skref og þetta er í raun og veru mjög sjálfsagt skref vegna þess að hér erum við að tala um það að breyta fyrirkomulagi vímuefnamála í þá átt að áherslan sé á mannúð, að áherslan sé á það að hjálpa þeim bágstöddu í staðinn fyrir það að ala á refsingum og hatri, en það hefur því miður oft verið einkenni stefnu stjórnvalda hér sem víðar um heiminn gagnvart vímuefnamálum og það er röng átt. Það voru skref í ranga átt, virðulegi forseti.

Að vísu er ekki tími til að ræða þessa skýrslu hér og nú en vonandi gefst tækifæri til þess síðar. Þar er margt sem er mjög mikilvægt fyrir réttindi fólks sem er í vímuefnaneyslu, hvort sem það á við vandamál að stríða eða ekki. Þótt skrefið þyki ekki mjög stórt fyrir þá sem vilja ganga lengra, eins og ég vil og hv. þm. Björt Ólafsdóttir vill og fleiri, er þetta í það minnsta til tilbreytingar skref í rétta átt.


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna