145. löggjafarþing — 143. fundur,  31. ág. 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[18:09]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta atvinnuvn. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Umræður um búvörusamninginn hafa verið miklar og góðar og þær hafa óneitanlega komið líka inn á þann tollasamning sem liggur fyrir þinginu til umræðu sem verður ekki fyrr en á morgun. Mig langar í lok þessarar umræðu þar sem ég hef ekki tök á því að vera við þá umræðu að gera aðeins grein fyrir minnihlutaáliti mínu í atvinnuveganefnd varðandi umsögn um þau mál gagnvart utanríkismálanefnd þar sem þessi mál leika óneitanlega saman í þessu starfsumhverfi landbúnaðarins og hafa líka verið hér undir í umræðunni sem verið hefur um búvörusamninginn.

Því miður ganga þær tillögur sem komu frá starfshópi um tollasamning og nýjar aðbúnaðarreglur frá júní 2016 allt of skammt til að vega upp á móti þeim gjörbreyttu starfsskilyrðum sem vissar greinar landbúnaðarins, og að hluta til landbúnaðar í heild, munu standa frammi fyrir komi tollasamningurinn til framkvæmda. Þetta á við um stuðning við greinar á borð við alifugla- og svínarækt sem þurfa að takast á við stóraukna samkeppni við innflutta framleiðslu þann aðlögunartíma sem samningurinn gefur til að mæta fyrirhuguðum breytingum og allt of lítinn beinan stuðning til þessara greina og reyndar fleiri, svo sem nautakjötsframleiðslu, til að mæta útgjöldum vegna nýrra aðbúnaðarreglna.

Óhjákvæmilegt er að gagnrýna hvernig að gerð þessa tollasamnings við Evrópusambandið var staðið. Lokið var við samninginn og hann undirritaður af Íslands hálfu án nokkurs samráðs og án nokkurrar aðkomu bænda. Ráðuneytin sem að samningnum stóðu virðast hafa haft takmarkaða þekkingu á því sem um var samið eins og glöggt kom í ljós í framhaldinu þegar farið var að spyrja út í einstök atriði og hvernig framkvæmdinni yrði háttað en þá kom í ljós að útfærsla ýmissa mikilvægra atriða var mjög á reiki. Það hvort mörg hundruð tonna tollkvótar eru reiknaður út miðað við vöðva eða ígildi kjöts með beini, svo dæmi sé tekið, hefur mikil áhrif á útkomu samningsins.

Undirbúningur þess að tryggja gæði, hollustu og heilnæmi stóraukins magns innfluttra matvæla virðist vera lítill sem enginn og vekur það furðu. Um allan heim er nú aukin meðvitund um skaðsemi mikillar sýklalyfjanotkunar við matvælaframleiðslu enda er hættan á ónæmum bakteríum talin ein helsta ógnin við heilsu manna í framtíðinni. Á Íslandi er lyfjanotkun í lágmarki í landbúnaðarframleiðslu og einnig hefur náðst hér mikill árangur í baráttu við kampýlóbakter- og salmonellusýkingar sem eru víða til mikilla vandræða í öðrum löndum. Taka ber aðvaranir sóttvarnalæknis og annarra heilbrigðisyfirvalda í þessu sambandi mjög alvarlega enda mikið í húfi hvað snertir heilsufar neytenda. Kostnaður vegna búfjársjúkdóma sem ekki hefur gætt hér áður gæti einnig reynst gríðarlegur og áhrif mögulegra sjúkdóma á dýravelferð yrði mjög neikvæð.

Eftirlit virðist einnig ófullnægjandi með því að framleiðsla þeirra vara sem hingað verða fluttar inn fari fram við sómasamlegar aðstæður hvað varðar dýravelferð. Strangar kröfur í þeim efnum væru þó í takt við það að nú er verið að innleiða hér á landi metnaðarfullar reglur á sviði dýravelferðar. Það er vissulega vel og eins og vera ber að Ísland skipi sér í fremstu röð hvað aðbúnað og velferð dýra snertir. Ekki verður horft fram hjá því að því fylgir mikill kostnaður og það er í hæsta máta ósanngjarnt að ætla innlendri framleiðslu án nokkurs teljandi stuðnings að keppa við stóraukinn innflutning á sama tíma og framleiðslukostnaður eykst, jafnvel við vörur sem framleiddar eru við ósæmilegar aðstæður hvað dýravelferð og kjör og réttindi starfsmanna varðar og þættu ólíðandi hér á landi.

Allri greiningarvinnu vegna áhrifa samningsins er áfátt og spurningum ósvarað um það hvernig samningurinn og það sem hann ber með sér samrýmist umhverfissjónarmiðum, hver áhrifin verða á innlenda framleiðslu og matvælavinnslu, hver afleidd áhrif verða á aðrar greinar landbúnaðarins en á alifugla- og svínaræktina o.s.frv.

Í anda niðurstöðu Parísarráðstefnunnar um aðgerðir til að sporna við loftslagsbreytingum ber öllum ríkjum, og Íslandi þar með, að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og lágmarka vistspor mannlegrar starfsemi. Stórauknir matvælaflutningar milli landa koma illa heim og saman við slíka viðleitni. Á hinn bóginn má nefna gildi þeirrar framleiðslu sem kemur frá innlendri garðyrkju og gróðurhúsum, heilnæmar gæðavörur sem fara beint á markað hér án flutninga milli landa með tilheyrandi losun og þar að auki er endurnýjanleg græn orka nýtt við framleiðsluna.

Vönduð greining á öllum framangreindum atriðum, og reyndar fleiru, svo sem líklegum byggðaáhrifum samningsins, hefði þurft að liggja fyrir áður en samningurinn var undirritaður, en lágmark er að sú greiningarvinna fari fram áður en Alþingi lýkur umfjöllun sinni.

Niðurstaða mín í minni hluta atvinnuveganefndar gagnvart þessum tollasamningi, sem óneitanlega spilar mikið hlutverk gagnvart þeim búvörusamningi sem hér er til umræðu, er því að leggja til að afgreiðslu samningsins verði frestað og tíminn nýttur næstu mánuði til að ljúka nauðsynlegri greiningarvinnu um áhrif samningsins, hrinda í framkvæmd fullnægjandi aðlögunar- og stuðningsaðgerðum í þágu þeirra greina sem verða fyrir mestum áhrifum eigi að samþykkja samninginn og undirbúa um leið framkvæmd hans þannig að hagsmunir innlendrar framleiðslu verði gætt, hollustu- og heilnæmissjónarmiða, dýraverndarsjónarmiða, vinnumarkaðssjónarmiða og neytendasjónarmiða, svo eitthvað sé nefnt.

Ég vil í þessu samhengi undirstrika þá tillögu sem ég hef lagt fram, breytingartillögu varðandi dýravelferð. Ég óska eftir að sú tillaga fari milli 2. og 3. umr. til atvinnuveganefndar til umræðu um að leggja það til að þeir sem uppvísir verða að dýraníði og brjóta gegn lögum um dýravelferð verði sviptir ríkisstuðningi. Ég held að mjög mikilvægt sé að ræða þetta mál og að ekki sé eingöngu tekið á þeim hlutum í lögum um dýravelferð heldur líka í búvörulögunum sem við höfum hér til umræðu.

Annars þakka ég fyrir þá góðu og miklu umræðu og þann skilning sem ég tel vera í raun að mikilvægt sé að hér á landi sé öflug og góð matvælaframleiðsla og að starfsöryggi bænda sé tryggt og hugað sé að þeim jaðarbyggðum og veikum byggðum þar sem sauðfjárrækt er og unnið verði á næstu þremur árum að því að koma í veg fyrir að bændur á þeim svæðum hrökklist frá búskap vegna skerðingar á beingreiðslum þeirra heldur verði leitað allra leiða til að styrkja búsetu á þeim svæðum og styðja við búskap með þeim hætti sem skoðaður verður í tillögum Byggðastofnunar meðal annars.