145. löggjafarþing — 144. fundur,  1. sept. 2016.

hlutfall landsframleiðslu til heilbrigðismála.

[10:41]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Það er alveg hárrétt hjá hv. fyrirspyrjanda að heilbrigðismálin eru sá málaflokkur sem er mikið til umræðu í aðdraganda kosninga. Það er mjög af hinu góða að mínu mati. Ég fagna þeirri umræðu. Ég geri líka kröfur til þess að sú umræða sé málefnaleg og byggð á réttum grunni. Mér finnst hv. þingmaður, hér fyrirspyrjandi, nálgast hana með þeim hætti. Það er alveg augljóst mál að það kemur víða við sálina hjá fólki þegar eins og á síðasta kjörtímabili eru teknir 27 milljarðar út úr rekstri Landspítalans. Eðlilega vekur það upp sár. Eðlilega vilja menn berja fljótt til baka þann gjörning. (Gripið fram í.) Með sama hætti hefur það áhrif á heilbrigðisþjónustu annars staðar í kerfinu. Spurt er úr sal af hverju það hafi ekki verið gert. Það eru margir sem hafa áhuga á því að koma í fyrirspurn og ég beini þeim tilmælum til virðulegra og hv. þingmanna að setja sig á mælendaskrána í stað þess að grípa sífellt frammí fyrir manni þegar maður er að reyna að svara hv. fyrirspyrjanda.

Það er spurt út í undirskriftasöfnun og hvernig fjárframlög og fjármálaáætlunin mætir henni. Hún mætir henni að mínu viti ágætlega. Ekki til fulls. Við erum töluvert frá því markmiði sem sett hefur verið fram og er umdeilanlegt, hvort 11% af landsframleiðslu eigi að ganga til þessa málaflokks. Það hefur legið fyrir í svörum manna að það nemi tugum milljarða króna, ef við ætlum að ná því. Ég er ekki á þeim stað að það sé endilega hin æskilegasta viðmiðun. Ég er á þeim stað að fjárframlög til málaflokksins eigi að taka mið af þeim verkefnum sem við getum sinnt og viljum sinna innan heilbrigðisþjónustunnar. Ég skal enn og aftur ítreka í umræðunni um heilbrigðismálin, (Forseti hringir.) með fullri virðingu fyrir Landspítalanum – háskólasjúkrahúsi, að það er fleira gert á sviði heilbrigðisþjónustu í þessu landi en að vinna góð verk við Fossvog og Hringbraut.