145. löggjafarþing — 144. fundur,  1. sept. 2016.

hlutfall landsframleiðslu til heilbrigðismála.

[10:44]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Hæstv. ráðherra svarar því til að áætlunin mæti ekki þessu hlutfalli. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra: Áætlunin gerir ráð fyrir 3% hagvexti, þannig að raunaukningin til heilbrigðismála, ef hún á að ná einhverju tilteknu hlutfalli af landsframleiðslu, hlýtur þá að verða ansi mikil og spyr því hæstv. ráðherra hvort hann geti upplýst okkur hvert þetta hlutfall sé og hvort hann sé reiðubúinn þá síðar, ef það liggur ekki fyrir, að koma fram með það, því að þetta eru mikilvægar tölur sem þurfa að liggja fyrir. Hins vegar vil ég segja, því að hæstv. ráðherra vísaði til síðasta kjörtímabils og Landspítalans, við skulum ekki gleyma þeim tölum sem við þekkjum öll og að Landspítalinn hefur átt við niðurskurðarkröfu að etja allt frá aldamótum, allt frá árinu 2000. Það er ekki sanngjarnt hjá hæstv. ráðherra að mínu viti að nefna hér einungis síðasta kjörtímabil þegar allir vita að hagkerfið á Íslandi hrundi, þó að sumir stjórnmálamenn virðist vilja gleyma því stundum í umræðum. Það var gríðarlega erfiður tími fyrir samfélagið allt. (Forseti hringir.) Við verðum að horfa hreinlega á þróunina t.d. frá aldamótum og hún er hluti af því að erfiðara var fyrir heilbrigðiskerfið að takast á við hrunið.